mánudagur, 3. júní 2013

Tengdó: Leikhúsgaldur, leikhúsdraumar

Mikið var gaman að sjá og upplifa Tengdó í Borgarleikhúsinu á laugardagskvöldið.  Þrátt fyrir að hafa verið kosin sýning ársins í Fyrra þá höfðu umsagnir um þetta verk farið fram hjá mér.  En í vetur hef ég nú samt haft á tilfinningunni að þetta væri sýning sem ég yrði að sjá. 

Svo við drifum okkur, og ekki urðum við fyrir vonbrigðum.  Maður kom inn í salinn og á miðjugólfi var Fólksvagn og ýmislegt fortíðardót, grammófónn, barnavagn kassar, drasl, eins og oft verður á vegi manns í lífi og í bílnum sátu tveir einstaklingar karl og kona.  Presley hljómaði mjúklega í eyrum. Annar bílfarþeginn ræddi síðan við okkur leikhúsgesti, spurði hvernig færi um okkur og sýningin hófst. Tveir leikarar taka sér stöðu  á miðju gólfi, sviði, klæða sig í gervi.  Sýningin hefst. 

Við upplifum sögu þessarar stúlku, hermannsbarns, sem fæðist dekkri en aðrir í Höfnunum. Sem á móður, stjúpföður, hálfbróður.  Alþýðufólk millistríðs og eftirstríðsáranna.  Skemmtileg lítil atriði, úr sveit og Reykjavík og Höfnum.  Svo er það stúlkan sem er öðruvísi vill kynnast einhverjum sem er líkur henni, vill kynnast föður sínum og uppruna.  Það er ekki átakalaust og tekur heila mannsævi.  Íslenskt og bandarískt skrifræði er ekki auðvelt að eiga við.  Og allt enda vel, eða hvað?   

Við sjáum tvo leikara allan tímann, báðir eru þeir stúlkan, báðir eru þeir móðirin, um leið hafa þeir svo mikla nærveru að við upplifum um leið allar persónur í kringum þá við sjáum þær sem ekki eru á sviðinu.  Svo er það merkilega að karl og kona leika stúlkuna og móðurina. Karlinn er svo sannarlega kona, ekki bara konan!   
Leikhúsgaldurinn verður algjör, við erum eins og í Golden Globe á 16. og 17. öld.  Þar sem karla voru konur. Umhverfið þessir fátæklegu leikmunir nægja til að skapa heiminn, við höfum fallhlíf fyrir ofan okkur þar sem skuggamyndir, ljósmyndir og kvikmyndir líða yfir til að fylla upp í.  Allt sameinaðist til að búa til leikhúsgaldur, það var ekki örgrannt að tár féllu af hvarmi hjá mörgum leikhúsgesti.  Konan við hliðina á mér þurrkaði æði oft sér um augun.  

Við nutum þessarar sýningar, fyrir sýninguna hittum við öldruð hjón úr Dölunum sem voru komin óvart á þessa sýningu.  Ég er viss um að þau hafa notið hennar, enda upplifað þessa tíma og þetta sögusvið.  Þar sem aðstandendur: Valur Freyr, Kristín Þóra, Ilmur Stefáns, Jón Páll, Davíð Þór og Aðalsteinn hafa skapað galdra úr fortíðinni og sýnt öllum lifandi og dauðum virðingu og umhyggju.  Mannúð og Hlýja skein úr öllum atriðum sýningarinnar.  Við áttum okkur hversu fortíð okkar og nútími eiga sér ótal sögur til að segja og túlka. 

Við eigum gott að eiga svona gott fagfólk, í leikhúsum, bókmenntum, tónlist og myndlistargreinum.  Að vera boðið upp á sýningu eins og þessa eða stærri sýningar eins og Engla Alheimsins og Makkbeð á sama tíma. Og ég á eftir að sjá Gullregn ennþá er möguleiki fyrir mig.  Og í vikunni var mér boðið að 3 verk ungra höfunda sem öll voru býsna góð, verk Sölku, Kristínar Eiríks og Tyrfings Tyrfings. 

Það var líka gaman að upplifa Tengdó eftir að hafa séð Ameríska drauminn sem martröð í verki Tyrfings það kvöld; Skúrinn á sléttunni.  Þar sem amerísk leikhúshefð og draumur speglar íslenskan sorgarleik.  Svo ég segi bara takk fyrir mig fyrir þennan vetur.  Þótt ég hafi misst af góðum sýningum líka.  Takk.