sunnudagur, 10. september 2017

Hlægileg sorgleg ríkisstjórn

Áður fyrr þurfti skemmtikrafta til að gera grín að pólitíkusum; til þess höfðum við Ómar Ragnarsson eða Jóhannes Kristjánsson, oft voru línurnar stuttar á milli hvað var gaman eða alvara, stundum urðu stjórnmálamennirnir að grínistum dæmi Guðni Ágústsson, eða grínistarnir urðu pólitíkusar dæmi Ómar eða ..... Davíð Oddsson.

Nú er öldin önnur, við höfum ríkisstjórn sem veldur hláturgusum, þegar trúðslætin eru sem mest,  þau vita ekki hvað þau eru fyndin, þótt flyssið breytist oft í andvarp eða örvæntingaróp. Þetta eru þrátt fyrir allt okkar æðstu stjórnvöld.

Fjármálaráðherra vor byrjaði samningaviðræður við launþega með því að boða til fjölmiðla fundar í vikunni.  Og segja um hvað ætti að semja! Ég hélt að þetta væru samningaviðræður.Að semja.  Og öllum finnst þetta vera í lagi.  BHM fagnar þessu. Allir eru ánægðir með þetta. Benedikt hlýtur að vera glaður.

Nema Bjarni Ben júníor. Hann vill hafa þetta allt í rólegheitum. Stjórnarflokkarnir eiga ná saman.Ástandið er svo gott alls staðar nóg af gulli.  Svo það er best að flokkarnir þrír nái saman um stefnu xD.  Ekki nota peningana í sjúkrahús, heilsugæslu, ellilíeyrisþega og öryrkja.  Það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt, eins og þeir segja.

Frú Andersen dómsmálaráðherra heldur áfram vélbyssuorða skothríð sinni á landsmenn.  Meðan ráðherrabílllinn bíður.  Hún virðist aldrei hafa heyrt um Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna enda eru þau samtök með öllu óþörf samkvæmt lögmálum Nýfrjálshyggjunnar.  Börn eiga að fara til landa sem þau hafa aldri komið til og kunna jafnvel ekki tungumálið.  Fólk virðist ekki vera annað en tölur eða tákn í hennar augum.  Dublinarreglugerðin er heilög.  Og ber að fara eftir. Ég hugsa að Írar yrðu miður sín ef þeir fréttu hvernig nafn höfuðborgar þeirra er misnotað  á skerinu í norðri.  Tveir stjórnarþingmenn eru óánægðir en hvað þýðir það. Gera þeir eitthvað?    

Óttar heldur áfram að vekja ótta í hugum landa sinna og veldur heilsuleysi.  Hann setur nefndir og ætlar að hugleiða ýmislegt meðan einkavæðingin skellur yfir okkur eins og Irma. Og rústar flokki sínum um leið. Og virðist finna það notalegt.

Já, það haustar á Íslandi.  Laufin falla til jarðar.  Draumarnir eru dapurlegir.