miðvikudagur, 31. júlí 2013

Lánsmat: Að enda aftur á byrjunarreit

Þau eru svo hissa, gjörðum fylgja viðbrögð, þau eru hér ríkisstjórn og fylgdarlið hennar.

Ráðherrar fóru til útlanda, og það eina sem gerist er harðari lína gegn ríkinu Ísland.

Landsvirkjun fer í núllflokk og einu viðbrögðin eru hvað eruð þið að skipta ykkur af okkur. Ég á mig sjálf.

Vandræðalegur fjármálaráðherra mætir í fjölmiðla, maður verður vandræðalegur að hlusta og horfa á hann.

Þau átta sig ekki á því að enginn er eyland, eins og skáldið sagði, alls staðar eru tengsl í nútímaþjóðfélagi. 

Ríkisstjórn liðins tímabil varð að vinna erfiða vinnu sem fældi líka kjósendur frá þeim.  Oft var maður ekki ánægður en þetta skilaði þó hægt og sígandi trausti, meira í útlöndum en heima. Einn erlendur aðili sem kom að hjálparstarfinu, því við þurftum hjálp, var AGS, Ögmundur segir í bloggi sínu að hann hafi klígju gagnvart þeim samtökum, þeir hafi ekki viljað koma að skuldaniðurfellingu.  Nú er ég einn af þeim sem hef mælt með skuldaniðurfellingu, ég hafði og hef enga patentniðurstöðu fyrir það eins og núverandi ríkisstjórn, ég sé ekki að við getum tekið peninga af  fjármagnseigendum sem hafa  eignast þá með löglegum hætti. Kannski er hægt að semja við þá og fá einhverja milljarða þar, en ekkert hefur sést um það að það takist ennþá. 

En hitt er annað mál og ég tek þar undir með Þorvaldi Gylfasyni að í samskiptum við alþjóðlegar stofnanir, hvaða skoðanir sem maður hefur á þeim, að yfirvöld verða að sýna kurteisi í samskiptum. Hvort sem um er að ræða, ríki, Sameinuðu þjóðirnar, AGS eða ESB.   

Ég er heldur ekki svo sannfærður um að samstarf íslenskra stjórnvalda og AGS hafi verið svo slæm eða erfið.  Ég held að íslensk yfirvöld hafi sýnt festu og klókindi í samskiptum við AGS og uppskorið virðingu sem hefur gert stöðu okkar auðveldari í hinum alþjóðlega stjórnmála- og fjármálaheimi.  Sem við verðum að taka tilliti til að ákveðnu leyti. Við viljum ekki hverfa aftur inn í hafta- og skömmtunarheim.    

Því er sárt að sjá núverandi ríkisstjórn leika hvern afleikinn af fætur öðrum þessa fyrstu mánuði. Heimssýn þeirra virðist svo fátækleg, glugginn er svo þröngur.  Með aðgerðum sínum hefur hún eyðilagt traustið sem Jóhanna, Steingrímur og kó höfðu byggt upp svo víða.  Það er átakanlegt að við þurfum að enda aftur á byrjunarreit.