fimmtudagur, 4. febrúar 2016

Jón Kalmann: Fiskarnir og Alheimurinn

Var að ljúka við Jón Kalmann; Eitthvað á stærð við alheiminn, nú hefur Keflavík fengið sinn sagnaflokk, þar sem fólkið fær sinn sögusöng, fyrst með Fiskarnir hafa enga fætur svo þessi.  Ég segi söng því alls staðar er á ferðinni, söngvar, ástir, ofbeldi, slagsmál, sorg og dauði.  Oft þarf maður að fletta til baka persónurnar og tengslin; Jón Kalmann kallar þetta ættarsögu.  Saga um fólkið sem stundaði sjóinn, og fluttist í bæina og borgina, vann í fiski og hjá hernum.  Þar
sem sjórin gaf og tók.  Það sem ljóðræna Jóns og heiðríkja himinsins og stjörnur alheimsins dansa saman og mynda magnaða heild, oft féllu mér tár á kinn ég er svo viðkvæmur. Í þessum óði til mennskepnunnar sem er full af greddu, ástum, brennivíni, gleði og sorg.  

Það er tónlistin sem dunar í eyrum manns, vagg og velta eins og það hétt forðum, rokk.  Það er skrítið að fylgjast með fólki sem er gamalt, á mínum aldri, sem hlustar ekki á harmónikutónlist og Ragnar Bjarnason og Erlu Þorsteinsdóttur.  Þar sem Hljómar, Presley og Megas eru guðirnir.  Og allir eiga sín uppáhaldslög, Whiter Shade of Pale, meir að segja REO Speedwagon. Og Bó blandar sér í fjörið.  

Svo eru það bækur og skriftir sem eru draumurinn andstæða stritsins og sjávarins, eitthvað fjölskyldugen sem blandast geðveiki og alkóhóli.   Sumir skrifa eitt ljóð eða dagbók ,  Veiga verður frægur rithöfundur, Ari skrifar 4 bækur og gefst upp.  Þeir sem hafa aldreið skrifað vita ekki hvað það getur verið erfitt. Gunnar Gunnarsson lifnar við og reynir að hafa áhrif á atburðarásins en hefur ekki áhrif, dauðinn er sterkari.

Allir á mínum aldri eiga sér einhverjar sögur sem tengjast Hernum, Keflavík, Reykjanesi, Tónlistinni þarna suðurfrá.   Þegar foreldrar minir fengu loks þak yfir höfuðið, þá leigðu þau hjónum stofuna í 3 ár hjónum sem unnu á Vellinum og komu í bæinn um helgar.  Stína og Tóti hétu þau, ef ég man rétt. Pabbi vann um tíma á Vellinu við viðhald og viðgerðir.  Ég fór tvo daga með honum upp á völl og hékk yfir honum í vinnunni. Þessi heiði var eyðileg og leiðinleg.  Landsleikir í handbolta fóru fram þarna áður en Laugardalshölln var reist.  Ég gekk og skipulagði Keflavíkurgöngur, var í Friðarbúðum í Njarðvík, var fluttur út af Vellinum í lögreglubíl þegar við vorum að dreifa í íbúðarhús áróðri.  Í öllum hverfum í Reykjavík voru einhverjar stúlkur/konur í ástandinu (man ekki eftir að hafa heyrt um karla), orðið Kanamella var þá mikið notað  eins og í þessari bók. Það var gott að þekkja einhvern sem var uppi á Velli, það komu sígarettukarton, bjór, brennivín, matur.  Allt sem var dýrt og fékkst lítið af hjá okkur.  Við vorum fátæk og einöngruð þjóð.  Svo var það tónlistin, Gúnnar Þórðar, Rúnar, Hljómar, Trúbrot, allt sem fylgdi því að vera ungur ....... 

Ég las Skurðir í rigningu fyrir tæpum 20 árum líkleg, síðan allt, með þessum nýja bálki skrifar hann einn þáttinn í sögu okkar, enginn tími verður til eða lifir án sagna.  Eitthvað til að spegla sig í.  Æsku sína og ævi.  Því miður eru margir sem halda að það skipti engu máli hvort bækur séu skrifaðar, rithöfundar þurfi ekki að lífa á einhverju, nóg að þeir skrifi á næturnar eftir kennslu, vinnu í öskunni, á eyrinni, í fjárhúsum eða auglýsingabransa.  Slík þjóð fær ekki mikið  að vita um sjálfa sig, hún verður án meðvitundar um sögu, líf, störf og menningu.  Hún veslast upp og hrekst inn í einhverja stærri þjóð.  Þar sem konurnar vilja vera einhverjar Vigdísar og Sörur, karlarnir einhverjir Trumpar og Ólafar Ólafssynir.  

Sem sagt: Lesið þessar tvær bækur, það tekur stundum á, en þetta er sagan okkar.