mánudagur, 2. september 2013

Brynjar: Arftaki Vigdísar Hauks?

Við höfum lifað ógnvænlega þögn, þögn sem er svo hávær að hún öskrar.  Þögn Vigdísar Hauksdóttur.  Ef til vill er þessi þögn forsenda fyrir ráðherraembætti.  Hver veit.  En ekki man ég eftir að hafa séð yfirlýsingu eða heyrt frá því fyrir miðjan ágústmánuð.   En við þurfum ekki að örvænta.  Hún hefur fengið verðugan arftaka. Brynjar Níelsson. 

Nú gleður hann okkur oft í viku með lipurleika sínum á bloggsíðu sinni:  Þetta er maður sem kann sína lögfræði.  Lögfræði sem virðist ekkert að hafa að gera með siðfræði, mannlega reisn.  Hrein og bein lögfræði.  Við sem erum ósammála honum leyfum okkur að láta í okkur heyra. Hann hefur illilega misskilið leikritið um brennuvargana.  Brennuvargarnir eru þeir sem hafa gleymt hinum mannlegu vídd sem lyftir okkur yfir hið dýrslega.   Við leyfum okkur að hafa skoðun á því að siðleysingjar sem vaði uppí í samfélagi okkar eigi ekki að hafa allan rétt þar sem þeim er oft hampað af fólki eins og Brynjari sem finnst að markaðurinn og lögfræði tengd honum eigi að stjórna öllu lífi okkar.  

„Lögreglan leysti yfirmann kynferðisbrotadeildarinnar frá störfum vegna þess að brennuvargarnir voru ekki sáttir við varnaðarorð hans sem gætu nýst til að fækka kynferðisbrotum. Rútubílstjóri var hrakinn frá störfum vegna dóms í kynferðisbrotamáli, sem hann þó hafði afplánað. Hótel Saga sýndi af sér fádæma hugleysi þegar fólk frá ameríku var hrakið á brott vegna atvinnu þeirra við gerð kynlífsmynda í heimalandi sínu. Óþarfi er að rifja upp geðveikina kringum mál Egils Einarssonar og allt hugleysið tengt því.“


Ég verð nú að viðurkenna að snaggaraleg viðbrögð Vigdísar eru ansi skemmtilegri en pistlar Brynjars.   Ég vona að hún sé ekki horfin inn í ráðherradrauma.  Við þörfnumst yfirlýsinga hennar, við bíðum spennt eftir gullkornum hennar úr ræðustól Alþingis.  Það er ekki hægt að segja að Sigmundur Davíð og Bjarni fái mann til að grípa andann á lofti.  Það örlar varla á þeim leiftrandi hugmyndum sem koma frá Vigdísi.   Við áttum okkur á því að við söknum hennar. 

Vigdís komdu aftur, við iðrumst!!!