miðvikudagur, 11. mars 2015

Hagtölur og Hagvöxtur: Erum við á réttri leið? Réttar Tölur?

 Hagtölur streyma inn núna og ýmislegt gengur vel en sumt ekki eins vel og forsvarsmenn stjórnarinnar hafa haldið á lofti, oft til að koma höggi á fyrrverandi ríkisstjórn sem glímdi við erfiðleika af allt annarri stærðargráðu. Samt er það nú þannig, að frá Hruninu hefur hægt og
sígandi þokast í rétta átt eftir að aðgerðir byrjuðu að bera árangur, með hagvexti 2011 til 2014.  Hvað sem nú stjórnmálamenn belgja sig þá eru engin stór stökk á milli ára, það sem vantar eru agaðri og vandaðari vinnubrögð. Þá gætum við verið á grænni grein. 
Nr. 42/2015
 
 
 
 

 

Hagvöxturinn árið 2014 var 1,9%

Landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,9% á árinu 2014 og hefur ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Innanlandsneyslan dregur hagvöxtinn áfram en þjóðarútgjöld jukust um 5,3%.
Einkaneysla jókst um 3,7%, samneysla um 1,8% og fjárfesting jókst um 13,7%. Útflutningur jókst um 3,1% á sama tíma og innflutningur jókst 9,9% þannig að þrátt fyrir verulegan afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 128 milljarða króna, dró utanríkisverslun hagvöxtinn niður.
Fara þarf aftur til ársins 2006 til að sjá meiri vöxt í  fjárfestingu en á síðasta ári. Hún jókst um 13,7% - þar af var um 15% vöxtur bæði í íbúðafjárfestingu og hjá atvinnuvegunum.
Halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum er fremur lítill, annað árið í röð, samkvæmt bráðabirgðatölum sem Seðlabankinn hefur nú birt. Það ásamt  afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar á árinu 2014. Hann nam rúmum 88 milljörðum króna, 4,4% af landsframleiðslu á árinu. Til samanburðar var viðskiptajöfnuður jákvæður um 125 milljarða árið 2013.
Viðskiptakjör bötnuðu um 1,9% á árinu 2014. Það ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði varð til þess að þjóðartekjur jukust meira en sem nam vexti landsframleiðslu eða um 3,3%. Árið 2013 jukust þjóðartekjur um 11,7%.

Nr. 40/2014

3,3% hagvöxtur árið 2013

Landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,3% á árinu 2013. Hagvöxtur hefur ekki verið meiri frá árinu 2007 og hefur landsframleiðsla ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Utanríkisverslun dregur hagvöxtinn áfram því þjóðarútgjöld á árinu 2013 jukust lítillega eða um 0,1%.
Einkaneysla jókst um 1,2% og samneysla um 1,3% en fjárfesting dróst saman um 3,4%. Útflutningur jókst um 5,3% á sama tíma og innflutningur dróst saman um 0,1% þannig að verulegur afgangur varð af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 132 milljarðar króna.
Samdrátt í  fjárfestingu á síðasta ári má að miklu leyti rekja til minni innflutnings skipa og flugvéla sem kemur með beinum hætti fram í fjárfestingu ársins en jafnframt til frádráttar sem innflutningur og hefur því lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu ársins. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst atvinnuvegafjárfesting á síðasta ári um 2,8% og fjárfesting alls um 5,8%. 
Halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum minnkaði verulega á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðatölum sem Seðlabankinn hefur nú birt. Það ásamt afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar í fyrsta sinn frá árinu 2002. Hann nam tæpum 82 milljörðum króna án rekstrarframlaga, 4,6% af landsframleiðslu á árinu 2013 og hefur afgangurinn sem hlutfall af landsframleiðslu aldrei verið meiri. Árið 2012 var hann neikvæður um rúma 80 milljarða eða 4,7% af landsframleiðslu.
Landsframleiðslan 2013  - Hagtíðindi
Nr. 44/2013

1,6% hagvöxtur árið 2012

Landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,6% árið 2012 og er það annað árið í röð sem landsframleiðsla eykst, en hún jókst um 2,9% árið 2011 eftir mikinn samdrátt tvö ár þar áður.
Þjóðarútgjöld á árinu 2012 jukust nokkru meira en nam vexti landsframleiðslu, eða um 1,9%. Einkaneysla jókst um 2,7% og fjárfesting um 4,4% en samneysla dróst saman um 0,2%. Útflutningur jókst um 3,9% og innflutningur nokkru meira, eða um 4,8%. Þrátt fyrir þessa þróun varð verulegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2012, eða 108 milljarðar króna.
Aukna fjárfestingu á síðasta ári má að miklu leyti rekja til innfluttra skipa og flugvéla en slík fjárfesting hefur lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu ársins. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum dróst fjárfesting á síðasta ári saman um 4,7% og munar þar mestu um minni fjárfestingu í stóriðju- og orkuverum.

3,1% hagvöxtur árið 2011

Landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,1% á árinu 2011 samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands. Þessi vöxtur kemur í kjölfar mikils samdráttar tvö ár þar áður, 4% árið 2010 og 6,8% árið 2009.
Þjóðarútgjöld á árinu 2011 jukust nokkru meira en nam vexti landsframleiðslu, eða 4,7%. Einkaneysla jókst um 4% og fjárfesting um 13,4% en samneysla dróst saman um 0,6%. Útflutningur jókst um 3,2% og innflutningur nokkru meira, eða um 6,4%. Þrátt fyrir þessa þróun varð verulegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2011, eða 133 milljarðar króna.
Aukna fjárfestingu á síðasta ári má meðal annars rekja til mikils innflutnings á skipum og flugvélum en slík fjárfesting hefur lítil sem engin áhrif á landsframleiðslu. Að frádreginni fjárfestingu í skipum og flugvélum jókst fjárfesting á síðasta ári um 7,4%. (Fréttir frá Haststofunni 2012-2015)


 En við þurfum ekki að kvarta, miðað við ýmsa aðra samkvæmt OECD .  Svo með sameiginlegu átaki gætum við náð ennþá lengra.  Er það vit í því að hlífa hinum tekjuhæstu, og eignamestu?  Við gætum styrkt innviði, heilbrigðis, húsnæðis og velferðarkerfis með skilvirkari skatttöku.  Er vit í því að styrkja ekki mannréttindi og rétt hinna lítt megandi?  Er vit í því að æða áfram í beislun náttúru, selja rafmagn í 3 óþrifalegar kísilmálmverksmiðjur, kljúfa þjóðina í fylkingar umhverfis og náttúruvina og hatara.




 Stjórnarfylgjendur hrósa sér af Hagvexti 2013, þó ekki væri skipt um stjórn fyrr en í lok maí, mest af því sem gert var á árinu unnið á árinu 2012.  Svo er spurning um rétta tölu var 2013 3.6 eða 3,3?  Var talan 2014 1,9 eða 2,5?