laugardagur, 3. ágúst 2013

Bítlarnir : Og heimurinn stöðvaðist

Var að lesa grein um byrjunina á Bítlaæðinu í Bretlandi.  Furðulegir tímar.  Önnur veröld.  Gaman að rifja þá upp svona í tilefni af  Verzlunarmannahátíðinni.  Sem örfáum árum seinna varð heimkynni íslensks bítlaæðis. Þegar Þórsmörk og Húsafell urðu svallstaðir íslensks bítlaæðis.  Hljómar, Tempó, Dátar, Trúbrot, Óðmenn, bara að nefna það. 

Þessi furðulegi tími, þegar þessir strákar, fyrst í Bítlunum, síðan Rolling Stones, Small Faces, Dave Clark Five, Kinks, Gerry and the Pacemakers, The Searchers, til að nefna nokkra, urðu draumapiltar stúlknaæðis sem öskruðu og veinuðu meðan strákarnir veltu fyrir sér hvernig þeir ættu að eignast gítar, læra hljóma og stofna hljómsveit. Þetta var kynskipt veröld.  

Bítlarnir voru að ferðast um Norðvesturhluta Englands, spiluðu og spiluðu 400 tónleika 1962, urðu góðir með því að spila og spila, það var trú Brians Epsteins umba þeirra.  Svo fóru þeir að semja lög í rútunum endalaust, Lennon og McCartney fyrst svo bættist Harrison við með einn og einn góðan smell.  Þeir ferðuðust um með Ameríkönum sem voru auðvitað aðalnúmerið, fyrst voru það Tommy Roe sem átti þá smell með Sheila, ég man það lag og raula það í huganum, og Chris Montes sem átti marga smelli, ég man að góð vinkona mína var með æði fyrir The more I see you, maður fékk alveg nóg af því. Lennon hellti yfir Montes bjórkönnu þegar Bítlarnir voru að halda upp á útkomu Please Please Me, það varð fjandskapur lengi á eftir.   Seinna var aðalnúmerið Roy Orbinson sem varð furðu lostinn yfir þessum öskrum sem fóru stigmagnandi þennan vetur og vor 1963.   En hann hélt sínu striki söng sín dramatísku lög, Only the lonely, Crying og auðvitað Pretty Woman. Á meðan þessu jókst alltaf æðið, strákarnir þurftu alltaf meir að einangra sig og verja sig fyrir æðinu. En enn í lok 63 voru ekki allir tilbúnir að viðurkenna að þetta væri eitthvað til að keppa við Presley.    

Á Íslandi varð hægt og hægt breyting í okkar íhaldssama þjóðfélagi, hlutirnir voru lengur að breiðast og ferðast á milli landa,  ég man að bróðir minn keypti  tvær plötur 1964, safnplötu með ýmsum breskum grúppum sem urðu til á því ári, ótrúleg flóra, strákar í hverfinu sem voru að mynda band voru mjög spenntir yfir henni fengu hana lánaða til að pikka upp lög, sérstaklega Maybelline, Chuck Berry lagið, sem einhver bresk hljómsveit hafði tekið í hraðri útsetningu.   

Og vorið 1964 var Bítlastemmningin í algleymingi, ég man að árgangur minn fór í ferð til Akureyrar og þá var ekkert spilað nema Bítlar, I saw her standing there og PS I love you.  Og ætli það hafi ekki verið það vor sem Tónabíó og Laugarásbíó spiluðu Bítla, Rolling Stones og Dave Clark Five sem aukamyndir í bíó.  Margir fjölmenntu þarna dag eftir dag til að læra stælana og herma eftir fatatískunniog greiðslunni. Þeir sem upplifðu ekki þennan tíma vilja stundum láta eins og þetta hafi verið frekar ómerkilegt, en merkilegt er að fylgjast með þróun þessara ungu manna og stökki þeirra úr eftirhermum yfir í nýsköpuði.   Heimurinn var aldrei samur.  

Eins atburðar minnist ég frá þessum tíma, ég snaraði fyrir mörgum árum saman ljóði um hann: 


Bítlarnir

Var það á Hrísateigi eða í Rauðagerði?
Fólk kom úr Naustinu. Loftið á Naustinu var staður
fólks sem þessa, ungt, lífsglatt, róttækt.  Húsráðendur og
gestir, þetta heitir víst partí. Við unglingar vorum
barnapíur,  börnin sváfu svo vært, við höfðum
hlustað á Túskildingsóperuna og Kvöld í Moskvu.
Svo fylltist allt gleði, pískur, fjör, tveir voru nýkomnir
frá London. Menn fóru 
líka 
til London í þá daga
og þeir veifuðu plötu..... þið vitið plötu, svona hljómskífu.
Ætli þetta hafi ekki verið sextíu og tvö eða þrjú?
Þeir drógu upp smáskífu, íslenskufræðingurinn
og ritstjórinn,smáskífu Bítlanna.
 Þetta er toppurinn hvísluðu þeir með aðdáun og undrun:
Allir hlusta á þetta allir.  
Og við hlustuðum á Please Please me  eins og            


heimurinn hefði stöðvast. Þeir dilluðu sér á
miðju gólfi, fræðingurinn og stjórinn.
Enda stöðvaðist veröldin  um skeið.
þeir voru óstöðvandi, þeir voru
ómennskir, þeir gátu allt, lifðu allt, náttúrukraftar,
 þangað til annað kom í ljós.  Byssukúla og krabbaæxli,
sannfærðu okkur um annað, þeir voru líka mennskir.
Og þeir hristu sig,  
Lundúnafararnir, skóku sig á
gólfinu með sælusvip:
Allir hlusta á þetta, allir.