mánudagur, 20. apríl 2015

Listasafn Íslands: Something is rotten...

Kíkti inn á Listasafn Íslands í gær á sunnudegi.  Þar var ekki mikið um að vera. 4 gestir auk okkar þriggja. 
2 sýningar í gangi.  Yfirlitssýning yfir konur fæddar 1940 og fyrr.  Ágætis sýning sem slík.  Það er ekki oft sem maður fær að sjá konur saman á sýningu í tveimur sölum.  Gott að rifja upp gamla klassíkera.  Kristínu Jónsdóttur, Nínurnar, Guðmundu Andrésdóttur, Barböru,  veflistakonur okkar, gaman að kíkja yfir á 19. öldina þótt fátæklegt sé.  Gaman að uppgötva eitthvað sem hefur farið fram hjá manni. Gunnfríði Jónsdóttur höggmyndara og Eyborgu Guðmundsdóttur abstraktmeistara. En einhvern veginn vantaði meira bit, fleiri myndir eftir suma.  Og af hverju 1940 sem aldursmið? Af því að safnið treystir sér ekki að leggja allt húsið undir konur?

Á neðri hætðinn nýjasta útgáfan af Carnegie Art Award kannski sú seinasta?  Þar sem svokallaður A Kassen hópur er allsráðandi.  Og áhorfendum gert eins erfitt fyrir að fá einhverja hugmynd hverjir eru þarna á ferðinni, allt gert tilgerðarlegt og líflaust.  Á mig virkuðu Carnegie sýningarnar langtum skemmtilegri í Gerðarsafni.  Svo er rætt um á kynningu listasafnsins :  Sýningin er heildartjáning hugtaka, sem undirstrikar ekki aðeins eina heldur margar merkingar: frumleika og framleiðslu listar; valdastöður í listaheiminum; hugmyndir um verðmæti og eignarrétt; höfundarréttarsamninga og hnattrænar stefnuskrár. Eitthvað bara fyrir innvígða?  

Enda var lítið um að vera í þessu húsi.  Engir erlendir ferðamenn á þessum degi.  Engin kynning í ferðþjónustunni á íslenskri list?  Er starfsfólkið ekki að vinna sína vinnu. Tóm kaffistofa, þar sem eru ágætis veitingar og ódýrara en á kaffihúsum miðbæjarins.  Allt tómt, ekkert um að vera.  Eitthvað er rotið í þessari stofnun.