Margur fréttamaður hefði gefið litla fingur fyrir að vera fluga á vegg þegar fyrrum innanríkisráðherra bað fyrrum lögreglustjóra afsökunar með umboðsmann Alþingis viðstaddan! Það hefði verið krassandi frétt og ósvikinn hápunktur á ferli rannsóknar blaðamanns sem allir vita að það orð er háð í munni valdamanna á Íslandi. Enda lífa þeir líklega í heimi þar sem engin spilling er til.
Við erum vön látum í stjórnmálum en ekki þessari allsherjar Sápu sem svokallað Lekamál endar í. Þó enn læðist að mörgum grunur að ekki hafi öll kurl komið til grafar í því ömurlega máli. Og verða líklega aldrei í andrúmslofti íslenskra stjórnmála.
Nú hefur umboðsmaður skilað skýrslunni, Alþingi tekið á móti, ábendingar um vinnubrögð sendar forsætisráðherra, en hvað gerist svo? Ekki mikið. Einn valdamikill stjórnmálamaður hefur misst æruna og á varla afturkvæmt í æðstu stöður. Karl á uppleið í stjórnmálum fær fangelsisdóm. Störf Umboðsmanns Alþingis færa mörgum sönnur á að embættiskerfið getur skilað heiðarlegu og góðu fólki, jafnvel þótt að við höfum mörg dæmi um hið gagnstæða.
Í sömu viku lýkur hinum sviplitla og dapurlega ferli fyrrum viðskiptaráðherra Hrunsins sem kastaði öllu á glæ fyrir nokkrar færslur af Kreditkorti og flýr inn á Vog til að geta horfst í augu við veruleikann vímulausan. Ráðherrann sem fékk aldrei að fást við embætti sitt vegna þess að fáir treystu honum, ekki einu sinni í eigin flokki. Þær eru margar harmsögur Hrunsins og eftirkasta þess. Það er ekki allra að vera í stjórnmálum, jafnvel þótt að vilji og metnaður sé fyrir hendi. Það þarf sterk bein og eitt sem ekki hefur verið hampað mikið í íslenskum stjórnmálum: Það er heiðarleiki og réttsýni.