fimmtudagur, 20. mars 2014

Hornstrandaljóð: tileinkuð minningu Guðmundar Hallvarðssonar

Það er erfitt að missa vin til áratuga, það er enn erfiðara fyrir þau sem eru næst honum í fjölskyldu.  Maður er alltaf svo bjartsýnn að maður býst ekki við því að jafnaldri manns hverfi yfir móðuna miklu.  Foreldrar hans höfðu dáið ekki fyrir svo löngu og maður ætlast til þess að eiga allmörg ár eftir að mörkin eru tekin yfir í
löglega elli.  En svona er lífið, það er ekkert gefið, húsbóndi alls er harður og óútreiknanlegur, við sem höfum lifað saman, séð börnin alast upp saman, etið saman, gengið saman á fjöllum, hlaupið saman um götur Reykjvíkur, kvatt árið saman, við gerum ekkert meira saman. Það væri hægt að segja margt um þennan furðugrip sem Guðmundur var.  En ég læt mér nægja að láta nokkur Hornstrandaljóð sem tengjast ferðum okkur og upplifunum.  Eg vil einnig senda samúðarkveðju til allra hans nánustu. Lífið verður ekki eins, lífið er ekki alltaf réttlátt. Blessuð sé minning Guðmundar Jóns Hallvarðssonar.


Logarnir 

Logarnir í kestinum að sofna
sólin horfin og gnúpurinn er skuggi
maðurinn með kúrekahattinn
gengur upp að húsinu þar sem
söngurinn mun hljóma innan skamms
pallurinn fyllist af misfölskum söngfuglum
söngtrúðum logarnir
maðurinn með kúrekahattinn
í villta norðrinu þrammar uppeftir
í gljúpum sandinum með brimið að baki
kríurnar verja svæði sitt æstar reiðar
logarnir og söngurinn mun hljóma fram
eftir nóttinni og maðurinn með hattinn
mun detta út af falla í draumafljót með
hrotubrim í raddhafinu
logarnir slokkna deyja og árniðurinn
einn mun ríkja

Hælavík 

Eldavélin í gróðurhafinu
hvönnin safnar flugum og fjaran reka
þú ert fjarri en ég sé
sporin þín út að vatninu
þú sérð bátinn sigla inn víkina og
snýrð við

Fuglabreiðan þyrlast upp frá fletinum
er einhver hreyfing út við Ófæruna
goðviðrisskýin dansa yfir höfði þínu
þú greikkar sporin til að fagna gestum
þetta er síðsumardagi sólin glitrar á víkinni
og áin hvíslar að þér kynjasögum
en þú skeytir því engu
þú vilt fagn a gestum
þú veist að enn er aðeins að vænta
góðra gesta

Enn

Bjargbrúnin 

Þegar hann stóð á bjargbrúninni
eftir göngu erfiða upp Kambinn
niður hlíðina yfir mýrargróðri
skrýdda  víkina upp bjargið
fékk hann löngun til að
fleygja sér fram af fljúga
svífa niður horfa á fuglalíf fuglaheim
kynnast högum íbúanna vekja furðu
finna þyt loftsins svífa niður
að fletinum kljúfa hann kafa
mynnast við fisk sel og hval
hverfa koma aldrei upp aftur
finna nýjan heim svo fjarri öllu hér

Hverfa týnast

Júlíkvöld á Hesteyri

Kirkjan flutt í aðra sveit
leiðin ein síns liðs í garðinum
tófan bíður þögul leifanna
tómt hús tregar einsemdina
árniðurinn á seinasta orðið

Jarðnuminn 

brúnn safinn spýttist úr úr vitunum
hann samhverfðist jörðinni
hvarf inn í bjargið
moldarbrúnn safinn rann niður leggina
hann tók sér rótfestu í mýrinni
beið haustsins einverunnar
brúnn safinn rann úr augntóftunum
hann samsamaði sig jörðinni
hvarf mannabygg

horfinn týndur ummyndaður
klettaþurs þarakóngur stráfrík
einbúi


Þar sem fuglarnar ráða ríkjum 

Þar sem fuglarnir ráða ríkjum
hann var þar
þar sem fuglarnir ráða ríkjum
hann kom þar
niður kambinn með raddir
þúsundanna í eyrum
þar sem fuglarnæir ráða ríkjum
hvítt dritið dansar í augum
hvönnin þekur sjónhimnurnar
gróðurinn teyfir sig inn í sjóntaugarnar
svo óendanlega svo mikilfenglega
þar sem fuglarnir ráða ríkjum
hann var þar
hann kom þar

Lokadagurinn 

Reykurinn af glæðunum
morgnr pokarnir skórnir nestið
enn er lagt af stað seinasti
áfanginn reykurinn sem líður
upp í loftið svo mjúkt svo þýtt
seinasti dagurinn jökullinn kastar
kuldagjólu niður heiðina árnar
hjartakaldar og stingandi reykurinn
röðin seiglast upp skarðið grjótrikið
steinaveldið um kvöldið mannaríki
mannalíf pizzur orlý túborg cóte de rhón
reykurinn af glæðunum glæðum
minninga glæðum trega gnúpurinn
tignarlegur heilagur brimið svo eilíft
óhagganlegt jökullinn svo beinhvítur

lokadagur   reykur glæður
lokadagur þau lokast