mánudagur, 28. júlí 2014

Hnattræn hlýnun og steinbrjótarnir

Sumir elska að berja höfði í stein, aftur og aftur og aftur.Jafnvel þangað til blóðið gusast út. Þetta var rautt smágrín.Þetta er sérstaklega áberandi hjá körlum sem hafa þá heimssýn
að allt eigi að vera frjálst, hver okkar megi gera það sem okkur sýnist, hvar og hvenær sem er, með smátökmörkunum.  Einn málaflokkurinn sem þetta á svo vel við er þessi óhugnanlega framtíð okkar mannanna hér á jörðinni ef það er rétt sem nær allir vísindamenn heimsins álíta í dag, að hnattræn hlýnun eigi sér stað með hækkun sjávar og breytingu á veðurfari og loftslagi.  Sem er auðvitað ansi flókið vísindalegt spursmál, og ein röksemdin sem heyrist oft er að engin hlýnun hafi orðið í á annan áratug.  
Einn af þessu viskurembum er Jón Magnússon lögfræðingur og fyrrum stjórnmálamaður. Hann bloggar í dag og endar bloggið svona:  

Hvernig er hægt að skýra það með vitrænum hætti að um sé að ræða hnattræna hlýnun af mannavöldum vegna koltvísýringsmengunar þegar engin hlýnun hefur átt sér stað í 14 ár þrátt fyrir aukinn útblástur. Af hverju ekki skoða hlutina með opnum huga. Af hverju ekki að leggja meiri peninga í umhvefisvernd, hreinlæti og uppbyggingu og draga úr dansinum í kring um þessa pólítísku veðurfræðina. 

Nú er það þannig að hnattræn hlýnun hefur orðið á hverju ári, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað, á Heimskautasvæðunum með bráðnun íss og jökla, sem við eigum ekki eftir að sjá fyrir endann á.  Óveður verða sífellt sterkari og algengari, og óveður og flóð um miðbik jarðar meiri.  En það megum við ekki skoða.  Við eigum að skoða hlutina með opnum huga.  Svona svipað og nýfrjálshyggjumenn gerðu í kringum hrunið.  Og enn geta þeir ekki viðurkennt að hugmyndafræði þeirra sé alröng og þurfi að breyta kerfinu ef ekki eigi að endurtaka hildarleikinn og Hrunið. Því miður held ég að sama eigi við um loftslag okkar.

Nú er ég leikmaður í þessum málaflokki eins og Jón Magnússon.  Ég hef töluvert fylgst með þessum málaflokki og lesið greinar
og bækur með og á móti því að hitun aukist með ískyggilegum afleiðingum fyrir börn okkar og eftirkomendur, um áhrif koltvísýrings og alls kyns efnaflóru sem maðurinn skilur eftir sig í umhverfinu, á landi og í sjó.  En að draga á langinn að hefja víðtækar aðgerðir á jörðinn ef ekki á illa að fara endalaust sem einmitt áhrifamesti stjórnmálamaður jarðarinn hefur gert, en Jón var líka að skrifa árásargrein á hann á bloggi sínu og finna honum flest til foráttu, ég get tekið undir ýmislegt af gagnrýni hans þar.  

En það er skemmtilegra og meira gefandi að lesa álit vísindamanna sem hafa eytt ævi sinni að fást við þessa málaflokka.  Farið víða um heim og séð og heyrt ýmislegt.  Einn af þeim er Haraldur Sigurðsson okkar ágæti vísindamaður eldfjalla og hrauns.  Ég læt fylgja með tvær stuttar og góðar blogggreinar hans, hann er svo góður penni, þar sem hann ræðir um þrýstihópa sérstaklega í Bandaríkjunum sem eyða gífurlegu fé að halda fram skoðunum Jóns og annarra nýfrjálshyggjumanna að almenningi í gegnum fjölmiðla.   

Vatnsmelónan og hnattræn hlýnun

Ég hef fjallað töluvert um hnattræna hlýnun hér og fengið margskonar viðbrögð, sum beinlínis dónaleg.   Hvers vegna eru sumir svo harðir í afneitun á náttúrufyrirbæri sem er reyndar fremur augljóst?  Ef til vill er ein skýringin sú, að margir andstæðingar kenningarinnar um hnattræna hlýnun trúi á vatnsmelónukenninguna. Hún er sú, að allir þeir sem hafi áhyggjur af hnattrænni hlýnun séu umhverfisverndarsinnar: þeir eru grænir að utan en rauðir sósíalistar að innan. Að hnattræn hlýnun sé bara ein aðferðin í viðbót til að leiða yfir okkur sósíalismann. Svo eru þeir, sem trúa að hnattræn hlýnun sé aðeins tískufyrirbæri, sem vísindamenn hafi gert mikið úr til þess að fá meira fé til rannsókna sinna.  Nú, svo eru það þeir, sem eru tengdir við, eða hafa fjárfest í olíubransanum á einn veg eða annan og vija af þeim sökum alls ekki viðurkenna að hér sé mikið vandamál á ferðinni fyrir allan heiminn. 

Hvað heldur þú um orsök hnattrænnar hlýnunar? 


Hnattræn hlýnun er staðreynd, en hverjar eru orsakir hennar?  Rúmlega 97% af vísindamönnum telja hlýnun vera af manna völdum. Hinir halda að hlýnun sé náttúrufyrirbæri og óháð mengun mannkyns á lofthjúpnum.  Meðal almennings í heiminum er svarið nokkuð annað, en það er misjafnt milli landa, eins og meðfylgjandi línurit sýnir fyrir tuttugu lönd.   Það er í enskumælandi löndum (Bandaríkjunun, Bretlandi og Ástralíu) sem efasemdir eru mestar um áhrif mannsins á hlýnun jarðar.  Það er í Kína, sem flestir trúa að hlýnun sé af manna völdum.  Hið síðara kemur ekki á óvart, því hvergi í heiminum er mengun meiri en í Kína.  Hvers vegna er almenningur í enskumælandi löndum svo tortrygginn á að hlýnun sé af manna völdum?  Er það tilviljum, eða er það tengt tungumálinu?  Eða er það vegna pólitísks þrýstings og áróðurs í þessum löndum?  Í Bandaríkjunum eru til dæmis 91 stofnanir sem eru vel fjármagnaðar af yfir $900 milljón sem eru í afneitum, eða vinna gegn þeirri skoðun á hlýnun sé af manna völdum. Þessar stofnanir eru styrktar af olíufélögum og álíka fyrirtækjum.   Í þessu löndum er ný-frjálshyggja nú mjög ríkjandi, þar sem margir hallast að þeiri skoðun að hinn frjálsi markaður eigi að ríkja en að draga þurfi úr áhrifum hins opinbera.   Einnig er bent á, að fjölmiðlar í þessum þremur löndum séu að miklu leyti í höndum eins einstaklings: Roberts Murdoch.  Hann er þekktur fyrir þá skoðun að hlýnun sé á engan hátt tengd starfsemi mannkyns.  En þessar skýringar eru reyndar eins og að klóra í bakkann: enginn veit hversvegna hinn enskumælandi heimur hagar sér þannig.

Hér er könnun sem Haraldur birtir um skoanir alemnning í 20 löndum: