föstudagur, 27. desember 2013

Biskup: Þakklæti og mannkostir

Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi sem lýtur stjórn þeirra sem gert hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, landi lýðræðisins. Því þó margt megi betur fara erum við þó hamingjubörn miðað við margar aðrar þjóðir. Við getum líka þakkað fyrir líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin og beðið Guð að líkna þeim sem þjást og stríða og stefna í faðm hans að leiðarlokum.

Þetta sagði biskupinn okkar á aðfangadagskvöld, góð ræða að mörgu leyti,og víða komið vð,  en þessi orð hennar sem ég vitna hér í  eru ansi óljós að mínu mati.  Vist erum við hamingjubörn að mörgu leyti, en hamingja felst ekki aðeins í því að hafa það gott.  Það felst líka í því að taka ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, hugsa um aðra og láta af hendi rakna það sem við getum, sýna rausn og átta sig á því að við getum gert mun meira en við gerum í dag.  Margir þeir sem hafa gerti Jesúm Krist að leiðtoga lífsins eru því miður oft fullir af hræsni og fordómum í garð þeirra sem minna mega sín eða tilheyra öðrum hópum en þeir. .  Það eru ekki trúarbrögð sem skera úr um mannkosti og siðprýði.



Það er fjöldi þátta í fari hvers manns sem skapar heilsteypta og  góða manneskju. Oft eru það ólíklegustu menn sem sýna þá eðliskosti þegar á reynir. Í Njálu var Bergþóra kölluð drengur góður.  Ætli höfundur Njálu  hafi ekki verið að hugleiða slíkt, og eflaust var ýmislegt í fari Bergþóru sem við mundum ekki samþykkja í dag.  Hver tími býður upp á ný sjónarmið.