þriðjudagur, 8. desember 2015

Forsetinn: Hver þorir?

Nú eru margir hugsi, alvarlega pælandi. 
Hver á möguleika í Ólaf Ragnar, karlinn sem skipti um hest í miðri ánni og komst heilu höldu yfir ána.  Og hefur aldrei liðið betur en á þeim bakka.  Þar sem ótrúlega margt fólk sem fékk froðukast ef minnst var á Ólaf Ragnar áður fyrr fær gleðiglampa í augun ef það sér honum bregða fyrir í fjölmiðli eða einhvers  staðar á Íslandi.  Sem er kannski ekki svo oft.  Meira að segja að Óvinur númer eitt er hættur skítkast fyrir mörgum árum, þótt ég efist um að hann krossi við ÓRG í kjörklefanum. Það væri gaman að vera fluga á klefaveggnum í næstu kosningum. 

En hver kemur til greina? 
Sumir hafa bent á að sterkur leikur væri að fá konu inn á sjónarsviðið.  Sú sem helst hefur verið nefnd virðist ekki hafa áhuga.  Bísnesskona sem nýverið kom inn á leikvöllinn hefur tæplega burði gegn bragðarefnum útsmogna. Það er ekki auðvelt að glíma við hann. Eins og sannaðist með Þóru Arnórsdóttur.  Lokkurinn haggaðist ekki í þeirri baráttu! 

Ekki hafði ég ímyndað mér að Forsetinn yrði fjarri góðu gamni á Umhverfisráðstefnunni í París. Enda fer hann hamförum þar.  Enda fáir Íslendingar sem hafa fylgst betur með þeim málaflokki seinustu áratugi.  

Svo lesendur góðir, enn vitum við ekki hvort Forseti vor ætlar að fara aftur í framboð en framrás hans í fjölmiðlum seinustu vikurnar bendir til þess.  Þeir sem hafa lesið pistla mína vita að mér finnst komið nóg, hann hafi gengið of langt í persónulegri túlkun sinni á starfi embættisins og stjórnarskrárinnar.  

Við þurfum að fá einstakling sem Forseta sem fer mildari höndum um starfið, svo þurfum við nýja stjórnarskrá sem skýrir allt betur, en það er sjaldan minnst á það hversu stjórnlagaráð gekk illa frá þeim hluta. 

Þeir sem vilja koma ábendingum eða athugasemdum við bloggið gera það á Fesbókarsíðu mína. 

 

Ýmsir atburðir úr dagskrá forseta i desember í París

08.12.2015 Forseti flytur ræðu á málþingi um gagnaver og sjálfbærni sem Bellona umhverfisstofnunin efnir til á loftslagsráðstefnunni COP21 í París en aðalstöðvar stofnunarinnar eru í Noregi. Í ræðunni lýsti forseti uppbyggingu gagnavera á Íslandi, hinni sterku stöðu sem nýting hreinnar orku skapar þessari grein sem og þeim kostum sem fylgja varðveislu upplýsinga í frjálsu lýðræðissamfélagi. Hinn gríðarlegi árlegi vöxtur gagna í veröldinni knýr á um að gagnaver verði í vaxandi mæli knúin með hreinni orku.
08.12.2015 Forseti flytur ræðu á málþingi sem þingmannasamtökin Climate Parliament efna til í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 í París. Málþingið sækja þingmenn frá Evrópu, Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum. Í ræðunni lýsti forseti árangri Íslendinga við nýtingu hreinnar orku og fjölþættum atvinnugreinum sem byggðar væru á þeirri nýtingu. Einnig lýsti forseti framlagi Íslendinga til jarðhitaþróunar víða um heim, þjálfun sérfræðinga í Jarðhitaskólanum á Íslandi og orkuverkefnum í Asíu og Afríku. Að ræðunni lokinni svaraði forseti fjölmörgum fyrirspurnum. Mynd.
07.12.2015 Forseti ræðir við ýmsar sjónvarpsstöðvar og netmiðla í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 sem haldin er í París.
07.12.2015 Forseti flytur ræðu við upphaf málstofu um endurnýjanlega orku sem haldin er á Sustainable Innovation Forum sem m.a. er skipulagt af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og haldin er í tengslum við loftslagsráðstefnuna COP21 í París. Í ræðu sinni lýsti forseti orkuþróun Íslands frá olíu og kolum til hreinnar orku og hvernig Íslendingar hafa miðlað þekkingu sinni og tækni með því að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum og taka þátt í verkefnum m.a. í Asíu, Afríku og Evrópu. Að lokinni ræðu forseta fóru fram pallborðsumræður. Meðal þátttakenda voru Nicola Sturgeon forsætisráðherra Skotlands og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Myndir.
07.12.2015 Forseti flytur ávarp á sérstökum orkudegi sem haldinn er í tengslum við COP21 loftslagsráðstefnuna í París þar sem fagnað var stofnun alþjóðlegs bandalags um nýtingu jarðhita, Global Geothermal Alliance. Ísland hefur ásamt Frakklandi og IRENA haft forystu um stofnun Alþjóða jarðhitabandalagsins en nú þegar eru rúmlega 40 aðilar að bandalaginu, ríki, alþjóðasamtök, alþjóðlegar fjármálastofnanir og bankar. Aðrir ræðumenn voru m.a. Segoléne Royal umhverfis- og orkuráðherra Frakklands, Adnan Z. Amin framkvæmdastjóri IRENA, Börge Brende utanríkisráðherra Noregs og Rachel Kyte framkvæmdastjóri SE4All átaksins sem Alþjóðabankinn og Sameinuðu þjóðirnar standa saman að. Í ræðu sinni rakti forseti hvernig reynsla Íslendinga af því að nýta jarðhita gæti gagnast öðrum þjóðum til að þróa orkubúskap sinn til sjálfbærni og þannig orðið veigamikið framlag í baráttunni gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum. Um leið fagnaði forseti sérstaklega stofnun Jarðhitabandalagsins og þakkaði umhverfis- og orkumálaráðherra Frakklands fyrir framgöngu hennar og stuðning við stofnun bandalagsins.

06.12.2015 Forseti er viðstaddur verðlaunaathöfn Sustainia umhverfissamtakanna sem haldin er í tengslum við World Climate Summit í París. Frumkvöðlar á ýmsum sviðum sem og borgir og samtök voru tilnefnd til verðlaunanna og Ted Turner, stofnandi CNN sjónvarpsstöðvarinnar, var heiðraður fyrir fjölþætt framlag hans til umhverfismála og baráttunnar gegn loftslagsbreytingum á undanförnum áratugum. Mynd.
06.12.2015 Forseti ræðir við bandarísku sjónvarpsstöðina CNBC um loftslagsráðstefnuna í París og hvers vegna megi vænta meiri árangurs af henni en fyrri ráðstefnum vegna vilja ríkja heims sem og forystumanna í viðskiptum, vísindum og umhverfismálum að leggja nú grundvöll að umtalsverðum árangri. Þá var einnig fjallað um baráttu Íslendinga við afleiðingar fjármálakreppunnar og hve mikilvæg uppbygging hreinnar orku á fyrri áratugum hefði verið í viðspyrnu þjóðarinnar. Mynd.
06.12.2015 Forseti tekur við fyrsta eintaki viðamikillar skýrslu um áætlun stjórnvalda í Dubai um sköpun græns hagkerfis á næstu áratugum. Saeed Al Tayer, yfirmaður orkustofnunar Dubai, afhenti forseta eintakið ásamt Sultan Ahmed Al Jaber, ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Afhendingin fór fram að loknu ávarpi forseta á World Climate Summit í París. Ákveðið hefur verið að halda næsta haust í Dubai Heimsþing um hagkerfi grænnar orku. Mynd.
06.12.2015 Forseti flytur ávarp á ráðstefnu World Climate Summit sem haldin er í tengslum við COP21 loftslagsráðstefnuna í París. Á ráðstefnunni er áhersla lögð á að kynna margvíslegar lausnir, tækninýjungar og raunhæf viðbrögð við loftslagsbreytingum. Þátttakendur eru m.a. ráðherrar, borgarstjórar, vísindamenn og fjölmargir fulltrúar fyrirtækja. Í ræðu sinni fjallaði forseti um þá lærdóma sem draga mætti á heimsvísu af þróun íslensks orkubúskapar á undanförnum áratugum, frá olíu og kolum til þess að nú er húshitun og framleiðsla rafmagns að öllu leyti byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Mynd.
06.12.2015 Forseti situr hádegisverð í boði Miguel Arias Cañete, framkvæmdastjóra orku og  loftslagsmálefna hjá Evrópusambandinu, Adnan Amin framkvæmdastjóra IRENA og annarra forystumanna í orku- og umhverfismálum. Hádegisverðurinn er í tengslum við ráðstefnuna Re-Energising the Future, sem er haldin er í tengslum við COP21 loftslagsráðstefnuna í Paris. Á þessari ráðstefnu er lögð áhersla á afgerandi framlag endurnýjanlegra orkugjafa til baráttunnar gegn óafturkræfum loftslagsbreytingum. Myndir.
05.12.2015 Forseti á fund í París með Nick Dunlop framkvæmdastjóra alþjóðlegra samtaka þingmanna sem helguð eru eflingu hreinnar orku og baráttu gegn loftslagsbreytingum, Climate Parliament, um þróun orkukerfis milli landa og heimsálfa sem miðlaði hreinni orku um alla veröldina. Tillögurnar byggjast á því að nýta á hverjum tíma þá hluta veraldar þar sem sól skín hverju sinni og vindar blása og tengja þá við önnur lönd, jafnhliða því sem kerfið nýtti vatnsafl og jarðhita. Fundurinn var haldinn í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, COP21.














                                           
Forseti tekur við fyrsta eintaki viðamikillar skýrslu um áætlun stjórnvalda í Dubai um sköpun græns hagkerfis á næstu áratugum. Saeed Al Tayer, yfirmaður orkustofnunar Dubai, afhenti forseta eintakið ásamt Sultan Ahmed Al Jaber, ráðherra í ríkisstjórn Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Afhendingin fór fram að loknu ávarpi forseta á World Climate Summit í París. Ákveðið hefur verið að halda næsta haust í Dubai Heimsþing um hagkerfi grænnar orku.