þriðjudagur, 3. desember 2013

Ríkisstjórnin: Holur og yndisarður

Það var hjákátlegt að sjá  ríkisstjórnina tekna á beinið í Þjóðleikhúsinu á sunnudagkvöldið frammi fyrir alþjóð, þar var listamanna og fræðimannaelítan mætt ásamt útvöldum harðjöxlum úr heimi stjórnmála og fjármála.  Tilefnið var 350 ára afmæli Árna Magnússonar okkar merkasta menningargjafa  sem fékk þá fáránlegur hugmynd að safna fornum skinnbókum okkar sem annars hefðu glatast í erli og eymd íslensku þjóðarinnar.  

Þetta gerist á sama hausti og ríkissstjórnin okkar klædd  í helbláa sokka fær þá hugmynd að hægt sé að bjarga fjárhag þjóðarinnar með því að skera niður við trog menningu þjóðarinnar, en ríkisstjórninni þar á undan hafði ekki þrátt fyrir hrun og mesta efnahagsáfall landsins  haft þann dug og þrótt að gera það,þótt ýmislegt yrði undan að láta.  Já,  fyrst var hætt við byggingu húss undir íslensk fræði og bækur Árna Magnússonar,  og skilin eftir stór hola á Melunum vestur.  Svo var helsta menninngarstofnun þjóðarinnar Ríkisútvarpið gerð óstarfhæf. Í fjárlögum er margt skorið niður á sviði lista og mennta.  Þetta var ríkisstjórnin sem vildi veg og vanda Þjóðmenningar sem mestan. 

Á fjölum Þjóðleikhússins lét forstöðumaður stofnunar Árna Magnússonar ráðherrana og skrautliðið velta því fyrir sér hvort það væri besta leiðin að fresta þeirr uppbygggingu sem snýr að menningu á meðan mesti vöxtur í landinu væri í menningarlegri og umhverfislegri  þjónustu og ferðamennsku.  Og kynnar kvöldsins enduðu kvöldið að ræða um holurnar í lífi okkar og allir vissu um hvað þeir voru að tala.  

Ég var að velta því fyrir mér hvernig þeim liði að sitja þarna ráðherrakindunum og fá ádrepur.  Eru þeir sannfærðir um að þessi stefna þeirra sé rétt?   Er þetta ekki leiðin til að skapa óró og fáækt hjá fólki þegar líf þeirra verður æ fátæklegra og einhæfara?  Það er til margs konar fátækt, ekki bara þessi efnahagslega, líf okkar verður eymdarlegt þegar við eigum eingöngu að fást við það sem snýr að brauði og kavíar.  Mér finnst það ekki uppbyggilegt þegar valdamönnum finnst það vera sitt aðalhlutverk að verja auðmenn fyrir sköttum og skyldum og er tilbúin að skera niður menningu og listir til þess. 

 Nú svara margir því eflaust að ríkisstjórnin standi í stórræðum að bjarga hag þjóðarinnar með því að berjast fyrir skuldalækkun heimilanna í landinu.  Ekki skal ég vanmeta það, en ávallt eru það merkustu valdamenn sem sjá yfir allan leikvöllinn, sem hafa sýn á sem flestum þáttum mannlífsins.  Það hefur ekki núverandi ríkisstjórn sýnt enn.  

Pétur Gunnarsson hélt ræðu í tilefni af afmæli Árna fyrr á árinu, þar minntist hann á orð Jónasar Hallgrímssonar um blinda menn sem „unna því lítt sem fagurt er/telja sér lítinn yndisarð/að annast blómgaðan jurtagarð.”  Já lesendur góðir það er þesssi yndisarður sem skiptir miklu máli í lífii okkar. Við þurfum húsaskjól, mat og yl.  En við þörfnumst líka yndisarðs.