fimmtudagur, 22. ágúst 2013

Gunnar Bragi: Reynum að gleyma honum


Það er meira gaman að horfa á fallegar myndir úr Húnavatnssýslu og Borgarfirði en að hugsa um furðulegasta afsprengi íslenskra stjórnmála sem ég man eftir.  Þar á ég við utanríkisráðherra stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Í dag lét hann sér ekki nægja að tilkynna að nú yrði allt starf í sambandi við ESB umsókn lagt í rúst, heldur ætlar hann þar að auki að ganga fram hjá Alþingi í þeim vinnubrögðum.  Alþingi samþykkti þessa tilhögun mála og það er Alþingis að ljúka því ferli.  Það er ekki hlutverk vankunnandi karls að norðan að ákveða það.  Þess vegna vona ég að fólkið í hans kjördæmi sjái með tímanum hverju þeir hafa útungað inn á Alþingi og í ríkisstjórn.  Og iðrist.  Vinnubrögðin eru þvílík að manni verður orða vant og það þarf mikið til þess hjá mér.  

Svo lesendur góðir njótum fegurðar landsins umhverfisins á Norðvesturlandi og gleðjumst yfir því sem við sjáum.  Víða er augnayndi, víða er gott fólk, en við þurfum ekki þingmenn sem utanríkisráðherrann.  Megi hann hverfa sem fyrst af vettvangi stjórnmálanna.  Gleymum honum. Njótum lífsins.  











Sigurður Már Jónsson; Rödd meistarans.

Það er þröng sýn ýmissa fjármála- efnahagsskríbenta, þeir halda að við lifum einöngruð í okkar eigin heimi sem við getum stjórnað, við ein, að öllu leyti.  Gott dæmi er Sigurður Már Jónsson, han fer mikinn í pistli um misheppnun fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.  Hann segir :

Allt er þetta heldur grátlegt þegar horft er til þess að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2008 var reiknað með að Ísland gæti rétt tiltölulega fljótt úr kútnum, væri rétt að verki staðið. Talið var raunhæft að hagvöxtur yrði 4,5% árin 2011 og 2012 og um 4,2% á þessu ári. Ef reyndin er sú að við megum þakka fyrir 1% hagvöxt hlýtur það að teljast áfall fyrir efnahagsstefnu síðustu ríkisstjórnar og ráðgjöf og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú er búinn að pakka saman hér á landi. Er vonandi að fleiri þurfi ekki að pakka saman og hverfa af landi brott.

Ef þetta væri nú andans maður með víðan sjóndeildarhring myndi hann skoða þetta út frá ástandinu í hinum alþjóðlega fjármálaheimi um þessar mundir.  Hvað er að gerast þar og hvernig speglast það við íslenskan fjármálaheim. Hvernig gengur öðrum löndum í þessum fjármálakreppubarningi?  Ég benti á fyrir nokkrum dögum hvernig Hagvöxtur væri í nokkrum löndum nálægt okkur.  Og það kemur í ljós að jafnvel á Norðurlöndum er bullandi óáran, enda þeir sem sitja við völd ekki vinsælir hjá kjósendum. Hér eru seinustu spár um Hagvöxt fyrir 2012 og 2013 frá OECD: 


Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Þýskaland höfuðríki Vesturlanda á í bullandi erfiðleikum, vinaþjóðir okkar Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru í erfiðleikum með útflutning sinn og framleiðslu.   Svo á Ísland bara að vera í einhverjum öðrum heimi!!!!

Stofnanir okkar reyna að greina og skoða framtíðina það gengur á ýmsu eins og hjá Seðlabankanum, eins og Sigurður Már bendir á: 


Auk þess sögðu Seðlabankamenn að vöxtur efnahagslífsins 2012 hafi aðeins verði 2,2%, sem er 0,3 prósentustigum minna en þeir reiknuðu með síðast. Nú hálfu ári seinna blasir við að þetta voru rangar tölur. Á síðasta ári var hagvöxtur 1,6% og horfurnar daprar fyrir þetta ár eins og áður sagði. Þetta hljóta að vera þær tölur sem horft er til þegar kjarasamningaviðræður hefjast.



Við ættum að vita núorðið að Hagfræði er ekki mjög nákvæm né spádómsrík vísindagrein.  Seinustu ár ættu að hafa kennt okkur það.  Þrátt fyrir alla tölfræðitækni og tölvuútreikninga risastofnanana og banka.  Hvorki þjóðlegar né alþjóðlegar stofnanir skora hátt um þessar mundir að skyggnast fram í tímann.  

Já það er erfitt að sjá allt fyrir á þessum óróatímum.  En að fara að kenna seinustu ríkisstjórn um alla óáran í heiminum er fáránlegt ef ekki heimskulegt. Hún reyndi sitt bezta við erfiðar aðstæður og náði ótrúlegum árangri  að mörgu leyti.  Sigmundur Davíð og Bjarni héldu sínar ræður í gríð og erg á seinasta þingtímabili um það hve auðvelt væri að gera betur.  Nú gefst þeim tækifæri á að sýna það, byrjunin lofar ekki góðu.  Hvað sem Sigurður Már Jónsson segir.  Vonandi segir Sigmurður Már okkur raunsannar fréttir af þeim félögum næstu árin.  En ég efa það.  Hann hlustar of mikið á rödd Meistarans. Og Meistarinn er Frjálshyggja á hverfanda hveli.