fimmtudagur, 21. maí 2015

Sigmundur og Bjarni: Tómhentir með frekju

Enn kemur ekkert frá andvana ríkisstjórn.  Stórstirnin mæta á Alþingi í morgun og taka þátt í þrasinu af fullum þunga. En ekkert annað.  Engar hugmyndir, engar tillögur um lausn alvarlegustu kjarakreppu seinustu áratuga.  Meira að segja prúðasti maður norðan Alpafjalla, ríkissáttasemjari, er búinn að fá nóg.  

Fræðingar eru kallaðir til af fjölmiðlafólki, auðvitað er hætta á verðbólgu, auðvitað er hætta á töfum á lausn á stór efnahagsmálum, en það er ríkisstjórnar og stofnana að vinna að því að svo verði ekki. Það þarf vilja, ekki bara frekju. Það er þetta eina að viðurkenna að það þurfi að breyta skiptingu kökunnar, þegar milljarðar streyma í vasa örfárra einstaklinga, þegar
atvinnurekendur falsa gögn og kannanir þá er engin furða að hnefar fari á loft.  Það er hlutverk forsætis og fjármálaráðherra og lægja öldurnar og vera sáttaberar.  En þeir kunna það ekki, þeir þekkja bara frekju.  

Fræðingar eru sjaldséðir sem mæla með umhverfisáformum ríkisstjórnar, af hverju eru þeir ekki kallaðir í fjölmiðlana?  Er það furða að náttúran kveinki sér undan afglapahætti nefndarkjána.  


Jörðin - þessi allra dauðlegra sameiginlegi fararskjóti.Sagði Jónas. Hún á betur skilið af börnum sínum.

Ég óska hinum knáa Dalamanni Ásmundi Einari, góðs bata, netheimur er miskunnarlaus, en lygar og undansláttur ýmissa aðila bæta ekki þetta sorglega mál.