miðvikudagur, 16. maí 2018

Áhyggjur Guðlaugs Þórs og afstaða Íslands

Þær eru miklar áhyggjurnar hans Guðlaugs Þórs, spurningin hvort að þetta séu áhyggjur allrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur? Mínar eru sorgir þungar sem blý Kvað Oddaverji nokkur á raunastund. Eigi skal höggva sagði Snorri. Utanríkisráðherra er hófsamur maður, maður friðarins, talar um friðsamlegar lausnir, hann á langt í land að vera Trumpari í tweed stíl.

Leitað verði friðsamlegra lausna
fólk geti mótmælt með friðsamlegum hætti.

Segir hann.Hann er samt á því að það sé skelfilegt að það séu fleiri manns búnir að falla. Búnir að falla, þannig var það!Fólkið var ekki myrt, ekki drepið, ekki tekið af lífi án dóms og laga. Þessi víg vekja ekki slík hughrif  hjá Utanríkisráðherranum okkar. Og sjá þegar flett er upp á vefsíðu Utanríkisráðuneytis þá er ítarleg frásögn af fundi Guðlaugs Þórs og James Matís um hið góða samstarf Íslands og Bandaríkjanna. En ekki eitt orð um ummæli utanríkisráðherrans í seinni fréttum RUV í gærkvöldi. Þá voru helstu viðfangsefni á alþjóðavettvangi til umræðu, þ.m.t. málefni Miðausturlanda og staða mála á Gaza. Segir í frétt UtanríkisráðuneytisinsVoru þessi ummæli ef til vill aldrei sögð? Spyr sá sem ekki veit?


-—-------------------


Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti áhyggjum sínum af opnun bandaríska sendiráðsins í Jerúsalem á fundi með Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í dag. Hann sagði að fólk hefði rétt á því að mótmæla.
„Við lýstum yfir áhyggjum okkar yfir þeirri ákvörðun á sínum tíma að gera Jerúsalem að höfuðborg og leggjum áherslu á að leitað verði friðsamlegra lausna og við sjáum fyrir okkur lausn sem yrði byggð á tveggja ríkja leiðinni,“ sagði Guðlaugur Þór í viðtali í sjónvarpsfréttum klukkan 22:00.
Alþjóðasamfélagið hefur að miklu leyti fordæmt framferði Ísraelsmanna á Gaza en sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í dag að Ísraelsher hefði gengið fram af hófsemd. Hvar stillir Ísland sér í flokki?
„Við náttúrulega höfum mjög miklar áhyggjur af því þegar við sjáum þá hluti sem þarna eru á ferðinni. Það er skelfilegt að það séu fleiri, fleiri manns búnir að falla. Við leggjum mikla áherslu á að fólk geti mótmælt með friðsamlegum hætti.“ Guðlaugur Þór sagði að það hafi verið afstaða Íslandi lengi og að hún hafi ekki breyst.