miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Stóra Hofsvallagötumálið og skandinavíski umhverfisfasisminn

Óvart fór ég í bæinn um kvöldmatarleytið og ekki vissi ég fyrr en ég var kominn á Hofsvallagötu, svona óvart!!  Og sjá þar sá litfagrar og vel merktar hjólaleiðir þar sem um leið var þrengt að bílaumferð allt gert skrautlega of lifandi.  Auk þess sem þetta dregur úr hraða á þessari götu, þetta er leið í skóla og sund  fyrir fjölmarga og ansi mikill hraði á umferð fyrir breytinguna.    En ekki sá ég neitt sem réttlætti það uppþot  sem hefur átt sér stað í Vesturbænum. Hvað þá andþrengsl sem háir suma.  Ég rakst á íhaldsblogg in extremo í dag.  Það lá við að ég fengi andnauð. Þar fer mikinn Ivar nokkur Pálsson og er fljótlega kominn í flokkspólitískan hráskinnaleik af verstu tegund:

Svona byrjar hann: 

Fundurinn í dag um Hofsvallagötu- ævintýrið tók aðeins í hnakkadrambið á þeim sem ráða borginni núorðið og hafa lýst yfir stríði gegn bílandi þegnum sínum. Íbúarnir hafa strax fengið nóg af þessu tugmilljóna króna tilræði gegn öryggi borgaranna og umferðarflæði sem þessi vanhugsaða tilraun er. Framkvæmdin öll er lýsandi dæmi um það hvernig stjórn borgarmála á ekki að fara fram, allt frá svokölluðu samráði (sem ekkert er) til skortsins á skilvirkni, markmiða og sanngjarns tilgangs í aðgerðunum.

Eflaust hefur skort á samráð en spurningin getur líka verið við hverja á að hafa samráð?  Það væri þá öll borgin ef rétt að þetta er svona mikill búlevarður.  Og svo heldur hann áfram: 


Facebook- lýðræði? 
Á Hofsvallagötunni kristallast baráttan á milli ídealistanna sem ráða en voru aldrei í raunverulegu kjöri eða kosningabaráttu (ss. Páll Hjaltason skipulagsstjóri) og íbúanna hins vegar, sem vilja fá frið fyrir þessum tilraunum Besta flokksins, Samfylkingar og Gísla Marteins & Co. Ráðist er á flest það sem virkar vel, án hugsunar um afleiðingarnar. Hofsvallagatan, bílastæði, bílaflæði, flugvöllur osfrv. Til hvers var þetta fólk (ekki) kosið? Er þetta afleiðing Facebook- lýðræðisins, þar sem hvaða Lúkasar- della sem er getur rokið upp, eignast sjálfstætt líf og jafnvel endað með óhæfri borgarstjórn eins og við sitjum uppi með í dag?


Svo mörg voru þau orð, ekki ætla ég nú að verja allar framkvæmdir og ákvarðanatökur Páls Hjaltasonar og kó, ævintýrið þeirra í Miðborginni er þeim til skammar. Allt í einu er Facebook lýðræðið orðið svo slæmt, er það ekki eitt slíkt ævintýri sem við sjáum í histeríunni um flugvallarsvæðið um þessar mundir.  Ég veit ekki hver á þar verri afleiki, andstæðingar eða meðreiðarsveinar Flugvallarins.  En það sem virðist skipta máli hjá umræddum Ivari er ótakmörkuð bílaumferð sem er nú þegar komin yfir öll mörk í borginni. Hofsvallagatan hefur verið hættuleg og nýja skipulagið lífgar upp á gráan Vesturbæinn.  En hjá mörgum íhaldsjálkinum er það malbikið og steinsteypan sem eru guðirnir. 

Í lokin klikkir hann út með áróðurshrópi þess sem þráir að fá íhaldið aftur til valda.  Ætli hann vilji ekki komast í framboð þessi hugumstóri bílaunnandi.  


En ofangreindir aðilar ætla ekki að sitja auðum höndum við það að tefja borgarbúa til frambúðar, minnka öryggi, auka stress og ala á andúð manna í milli: nei, þessi skandinavíski umhverfis- fasismi á víst að vera varanlegur um alla borg eftir 16. september 2013, þegar fresturinn til andmæla við glataðar aðalskipulags- tillögurnar rennur út.
Komum í veg fyrir að þessi ólög verði staðfest út um alla borg og frestum öllum meiriháttar aðgerðum til kosninganna næsta vor. Það er eina vonin til þess að eitthvað vit verði í breytingum á skipulagi borgarinnar, ef einhverjar ættu að vera.

Já það er líklega mesta hættan sem steðjar að okkur Íslendigum skandinavískur umhverfisfasismi.  Það er margt vitlaust skrifað á bloggi um þessar mundir.  En þetta er eitthvert það versta sem ég hef lesið. EF þessi maður fengi að ráða yrði malbikað yfir landið allt!!! Og túristum boðið að keyra á rennisléttu malbikinu allan ársins hring.   Ég held ég þurfi áfallahjálp!!!