föstudagur, 30. ágúst 2013

ESB : Æ, mér er illt

Enn á ný opinberast hvernig ríkisstjórnin ætlar að hunsa meirihluta þjóðarinnar.  Eftir nokkurra ára ferli finnst fleiri að það eigi að klára viðræðurnar svo við sjáum hvað okkur býðst. Það væri ansi gott að sjá samning þar sem maður getur sagt já eða nei.

Þá getum við séð hvað það er sem fáum eða ekki.  Ég er jákvæður sem Evrópusinni en um leið kýs ég ekki hvaða samning sem er.  Hann verður að vera góður.  EF hann verður góður fáum við jafnari lífskjör og meiri festu í grundvallarmálum okkar.   Þar eigum við að bera okkur saman við Norður og Vestur -Evrópuþjóðir sem hafa líkari þjóðfélagsbyggingu en Suður og Austur- Evrópa.  Við höfum svo margt að vinna  með því að ná meiri tengingu en í dag.  Það er ansi margt sem er í ólagi hjá okkur.  Reglufesta, seinustu daga hafa komið dæmi um það hversu fyrirtækjum finnst allt í lagi að hafa ótryggða bílaleigubíla, ótryggða flutningabíla og rútur, fyrirtæki sem borgar ekki skatta og þykir sjálfsagt og eðlilegt að hafa fólk á svörtu.  Við þurfum betra samfélag.  Ekki þetta þegar smámál verða að risamálum eins og Hofsvallagötuævintýrið.  Ekki flugvallarmálið þegar menn neita að ræða það sem skiptir máli.  Hvað gerist í kringum okkur næstu hundrað árin hækkar sjór fer allt á kafa, þurfum við nokkuð að ræða það? Skipta umhverfismál einhverju?   

Við erum svo ginkeypt fyrir rugli.  Og stjórnmálamenn spila okkur upp í það.  Þeir sem vilja halda loforð og samninga eru fífl eins og dæmin sanna.  Í seinustu ríkisstjórn þá var gerður samningur um ESB viðræður og meiri hluti  VG hélt það sem var skrifað undir, hinn hlutinn reyndi að skemma tefja og eyðileggja.  Þeir fá ekki á baukinn fyri það.  Þeim er hampað af stærsta dagblaði landsins.  Það eru þeir sem efndu heit sín sem eru látnir gjalda fyrir það.  Svona erum við, svo tekur við ný stjórn og strax á að svíkja það sem var lofað.  xD gleymir öllu hinir eru í vanda fyrir loforð.  Niðurstaðan verður líklega gleymska þjóðarinnar. Eða ný hrunbylgja. Við verðum að taka okkur á við gerum það ekki með eylandsmennsku af verstu tegund. 

Æ, mér er illt.  



Og það haustar 

miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Stóra Hofsvallagötumálið og skandinavíski umhverfisfasisminn

Óvart fór ég í bæinn um kvöldmatarleytið og ekki vissi ég fyrr en ég var kominn á Hofsvallagötu, svona óvart!!  Og sjá þar sá litfagrar og vel merktar hjólaleiðir þar sem um leið var þrengt að bílaumferð allt gert skrautlega of lifandi.  Auk þess sem þetta dregur úr hraða á þessari götu, þetta er leið í skóla og sund  fyrir fjölmarga og ansi mikill hraði á umferð fyrir breytinguna.    En ekki sá ég neitt sem réttlætti það uppþot  sem hefur átt sér stað í Vesturbænum. Hvað þá andþrengsl sem háir suma.  Ég rakst á íhaldsblogg in extremo í dag.  Það lá við að ég fengi andnauð. Þar fer mikinn Ivar nokkur Pálsson og er fljótlega kominn í flokkspólitískan hráskinnaleik af verstu tegund:

Svona byrjar hann: 

Fundurinn í dag um Hofsvallagötu- ævintýrið tók aðeins í hnakkadrambið á þeim sem ráða borginni núorðið og hafa lýst yfir stríði gegn bílandi þegnum sínum. Íbúarnir hafa strax fengið nóg af þessu tugmilljóna króna tilræði gegn öryggi borgaranna og umferðarflæði sem þessi vanhugsaða tilraun er. Framkvæmdin öll er lýsandi dæmi um það hvernig stjórn borgarmála á ekki að fara fram, allt frá svokölluðu samráði (sem ekkert er) til skortsins á skilvirkni, markmiða og sanngjarns tilgangs í aðgerðunum.

Eflaust hefur skort á samráð en spurningin getur líka verið við hverja á að hafa samráð?  Það væri þá öll borgin ef rétt að þetta er svona mikill búlevarður.  Og svo heldur hann áfram: 


Facebook- lýðræði? 
Á Hofsvallagötunni kristallast baráttan á milli ídealistanna sem ráða en voru aldrei í raunverulegu kjöri eða kosningabaráttu (ss. Páll Hjaltason skipulagsstjóri) og íbúanna hins vegar, sem vilja fá frið fyrir þessum tilraunum Besta flokksins, Samfylkingar og Gísla Marteins & Co. Ráðist er á flest það sem virkar vel, án hugsunar um afleiðingarnar. Hofsvallagatan, bílastæði, bílaflæði, flugvöllur osfrv. Til hvers var þetta fólk (ekki) kosið? Er þetta afleiðing Facebook- lýðræðisins, þar sem hvaða Lúkasar- della sem er getur rokið upp, eignast sjálfstætt líf og jafnvel endað með óhæfri borgarstjórn eins og við sitjum uppi með í dag?


Svo mörg voru þau orð, ekki ætla ég nú að verja allar framkvæmdir og ákvarðanatökur Páls Hjaltasonar og kó, ævintýrið þeirra í Miðborginni er þeim til skammar. Allt í einu er Facebook lýðræðið orðið svo slæmt, er það ekki eitt slíkt ævintýri sem við sjáum í histeríunni um flugvallarsvæðið um þessar mundir.  Ég veit ekki hver á þar verri afleiki, andstæðingar eða meðreiðarsveinar Flugvallarins.  En það sem virðist skipta máli hjá umræddum Ivari er ótakmörkuð bílaumferð sem er nú þegar komin yfir öll mörk í borginni. Hofsvallagatan hefur verið hættuleg og nýja skipulagið lífgar upp á gráan Vesturbæinn.  En hjá mörgum íhaldsjálkinum er það malbikið og steinsteypan sem eru guðirnir. 

Í lokin klikkir hann út með áróðurshrópi þess sem þráir að fá íhaldið aftur til valda.  Ætli hann vilji ekki komast í framboð þessi hugumstóri bílaunnandi.  


En ofangreindir aðilar ætla ekki að sitja auðum höndum við það að tefja borgarbúa til frambúðar, minnka öryggi, auka stress og ala á andúð manna í milli: nei, þessi skandinavíski umhverfis- fasismi á víst að vera varanlegur um alla borg eftir 16. september 2013, þegar fresturinn til andmæla við glataðar aðalskipulags- tillögurnar rennur út.
Komum í veg fyrir að þessi ólög verði staðfest út um alla borg og frestum öllum meiriháttar aðgerðum til kosninganna næsta vor. Það er eina vonin til þess að eitthvað vit verði í breytingum á skipulagi borgarinnar, ef einhverjar ættu að vera.

Já það er líklega mesta hættan sem steðjar að okkur Íslendigum skandinavískur umhverfisfasismi.  Það er margt vitlaust skrifað á bloggi um þessar mundir.  En þetta er eitthvert það versta sem ég hef lesið. EF þessi maður fengi að ráða yrði malbikað yfir landið allt!!! Og túristum boðið að keyra á rennisléttu malbikinu allan ársins hring.   Ég held ég þurfi áfallahjálp!!!




  





þriðjudagur, 27. ágúst 2013

Jón Gnarr: Hrekkjavakan nálgast.....

Jón Gnarr ber af, hann gerir það ekki endasleppt. Hann ætlar að láta okkur vita á Hrekkjavökunni hvað hann ætlar að gera
með sinn pólitíska frama.  Við bíðum spennt, þegar hann stígur fram í sviðsljósið íklæddur alvöru Hrekkjavökubúningi:  Kufl og gríman fræga.  Eins og í góðri hryllingsmynd.   Við bíðum spennt þetta verður uppákoma Haustsins.  Og auðvitað vill hann gleðja okkur áfram.
 „Ég er alvarlega að íhuga málið," sagði Jón í samtali við fréttastofu í dag.
Og borgarbúar munu fagna eins og vera ber. Þeim finnst gott að hafa borgarstjóra sem hugsar alvarlega um málin, ekkert grín.  Og þeir verðlauna með sjóheitum atkvæðum. Vonandi verða örlög hans ekki eins og margra persóna í góðum Hrekkjavökumyndum.  Hann á það nú ekki skilið.   

Við hlökkum til Hrekkjavökunnar.  Við bíðum spennt eftir úrskurði Jóns, eins og skáldið sagði: Each player must accept the cards life deals him or her: but once they are in hand, he or she alone must decide how to play the cards in order to win the game. 

Hver þátttakandi verður að sætta sig við spilin sem lífið veitir honum; en þegar hann hefur þau á hendi þá er það hans að ákveða hvernig hann spilar úr þeim til að vinna.



 


mánudagur, 26. ágúst 2013

Utanríkisráðherra: Vindmyllur og kattarleikir


Það eru skrítnar heilaselluferðir utanríkisráðherra.   Hann hefur aldrei hugsað sér að leggja ekki fyrir Alþingi tillögu um frestun á umsókn en þá er spurningin af hverju þurfti hann lögfræðiálit til að tjá sig um.  
Þetta segir hann í dag:  
Ég hef aldrei mótmælt því að þingið þurfi að taka endanlega ákvörðun. Það sem ég hef hins vegar sagt er að það megi lesa það út úr álitinu að þess þurfi ekki. Ég hef líka sagt að ég muni ekki eiga frumkvæði að því að leggja það til að svo verði gert. Við Bjarni erum algjörlega að tala í takt varðandi þetta mál.
Það að leysa upp samningahópa eða nefndir, þýðir ekki slit á aðildarviðræðum. Það hefur einnig komið fram í máli ESB. Tal um annað er í raun útúrsnúningur.
Gunnar Bragi hefur einnig látið hafa það eftir sér að til stæði að leysa upp samninganefnd Íslands.

Þetta sagði hann í seinustu viku: 
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að taka til skoðunar að leysa upp samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum að Evrópusambandinu.
Hann kynnti á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun lögfræðiálit vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að gera hlé á viðræðunum. Í álitinu komi fram að þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri lagaheilmild eða stjórnarskrá, bindi ekki stjórnvöld umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir. Ríkisstjórnin sé því ekki talin bundin af fyrri ályktun þingsins um að sækja um aðild að ESB. (RUV)


Hér er bréf ráðherra til utanríkismálanefndar:
  
http://www.mbl.is/media/77/6677.pdf

Það er sjaldgæft að ráðherra fái tiltal bæði frá formanni sínum, forsætisráðherra, og formanni meðflokks í stjórn.  Ég held að það sé mjög einstakt, helst að eini samanburður sé Jón Bjarnason.  Ráðherratíð Skagfirðingsins hugumstóra byrjar ekki vel.  Eins og skáldið sagði sem skrifaði um bardaga við vindmyllur: Þeir sem leika við ketti geta fengið skrámu .....




sunnudagur, 25. ágúst 2013

Sameining vinstri flokka: Vonlaus?

Enn á ný hefst umræða um sameiningu vinstri flokkanna tveggja.  Sem gátu ekki farið í eitt fyrir, hvað voru það tólf árum síðan.  Breyttir tímar krefjast breyttra áherslna. Og aðrir eru nú við stjórnvölinn.  

Árni Þór þingmaður VG lætur hafa eftir sér:

Það sé miklu meira sem þeir eiga sameiginlegt í svona grundvallarsýn á uppbyggingu samfélagsins og að þeir hagsmunir eigi að vera ríkjandi og hinir að víkja,“ segir Árni.


Hann telur möguleika á kosningabandalögum víða í stærri sveitarfélögum og jafnvel sameiginlegum framboðum. „Ég tel sömuleiðis möguleika á að vinna að slíku í stærri sveitarfélögum, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víðar um land.“

Hvað er það sem hefur komið í veg fyrir náið samstarf ?  Í upphafi voru það ólíkar áherslur í sambandi við þætti svo sem :  ESB, NATO, þjóðfrelsi, Frjálshyggju; svo hefur eflaust örlað á valdabaráttu einstaklinga sumir voru hræddir um sín vé.  

En hins vegar getur maður hugsað sér að hið nána samstarf flokkanna í ríkisstjórn hafi fært mörgum sanninn um það væri ekki svo margt sem aðskildi og að andstæðingurinn væri svo hatrammur að hætta væri á þjóðarhruni ef auðhyggjustefna hans eigi að ráða ríkjum næstu árin, ef hann fengi að böðlast áfram óáreittur eins og hann gerir núna. 


Ég er einn af þeim sem töldu að sameingin allra vinstri manna ætti að vera möguleg í upphafi, hafði ekki svo ákveðna afstöðu um ESB, vildi bíða eftir að sjá samning til að geta myndað mér endanlega skoðun, þó að í grunninn sé ég Evrópusinni, þar eru okkar hugmyndarætur og markaðir; helst var ég andstæður SF út frá friðarmálum, en vissi samt að NATO hafði aldrei verið bitbein stjórnarmyndunar á lýðveldistímanum; og Hrunið hefur fært flesta vinstrimenn saman í sambandi við efnahagsmál og Frjálshyggju.  Svo hefur þjóðrembustefna framsóknarmanna sýnt hversu slík stefna er vafasöm og ekki hefur umhverfisbarbarismi þeirra hjálpað til.  Svo núna er töluvert meiri grundvöllur fyrir samvinnu og jafnvel sameiningu. Þótt eflaust séu til menn í báðum flokkum sem sjá rautt við þá tilhugsun.   

Svo vonandi verður þetta rætt í rólegheitum í haust því í húfi er þjóðarhagur er í veði að láta ekki xD og xB taka yfir sveitarstjórnarmálin í kosningunum næsta vor.   Ég tel sameiningu ekki vera vonlausa undir stjórn vinsæls leiðtoga Katrínar Jakobsdóttur með Katrínu Júl eða Guðbjart sér við hlið. 

EF vinstri menn bera þá gæfu þá er öruggt að það er land framundan. 

 


laugardagur, 24. ágúst 2013

Auðlegðaskattur og ráðgjafaráð: Sama sagan

Ríkisstjórnin gerir það ekki endasleppt.  Nú er það fjármálaráðherrann sem leggur af um auðlegðarskattinn.  Frjálshyggjuhugmyndafræðin skiptir meira máli en fjárhagur ríkisins.  Í staðinn verða auðvitað þeir tekjulægstu sem verða fórnarlömbin, með verri þjónustu og niðurskurð.  Þeir tekjuhæstu geta auðvitað komið sér góðri þjónustu í skjóli peninga, í útlöndum eða meða breytingum á heilsugæslukerfinu.  Ætli það verði ekki næst á dagskránni????????? 

Svo höfum við fengið nýja nefnd ekki efnd, ráðgjafaráð hagfræðinga.  Með aðalráðgjafa LÍÚ í broddi fylkingar.  Ragnar Árnason.  Og ýmsa meðreiðarsveina.  Allir sanntrúaðir á bláu höndina.  Allt fer í rétta átt.   Fólkinu á að blæða. Ég er ekki sammála Gauta Eggertssyni um jákvæðu hliðarnar.  Þarna er verið að setja niður nýja nefnd til skera niður. Við þekkjum skoðanir Ragnars sem eflaust fá hlýjar móttökur hjá stjórninni......

Það er myrkt framundan í göngunum......

Reykjavík: Hátíð í bæ

Það er gaman þegar fólk getur sameinast um það að einn ákveðinn dagur sé hátíðardagur. Eins og 17. júní, 1. maí, Verzlunarmannafrídagurinn.  Fólkið sýnir það með því að mæta, taka þátt og njóta. Hafa gaman að. Þannig er með Menningarnótt.  Sem hefur orðið tvöföld hátíð með Reykjavíkurmaraþoni á sama degi.   Þetta er eitt skemmtilegast fyrirbrigði seinustu áratuga víða um heim.   Fjölskyldur, Hjón, börn skella sér í bæinn ráfa um, eru búin að ákveða vissa atburði, fá sér eitthvað að eta og drekka.  Svo eru stórtónleikar um kvöldið og flugeldasýning sem stundum er misheppnuð en ekki alltaf.  

Það viðrar ekki í dag vel til hlaups og útiveru.  Mikill úði og regn.  En það eru 14000 manns sem hafa skráð sig, ótrúleg tala. Enda var algjört kaos umhverfis Laugardalshöllina síðdegis í gær þegar afhent voru gögn.  Konan mín ætlar að hlaupa hálfmaraþon þannig að við vorum á ferli og enduðum með að fara bara í Nóatún að versla.  Svo hljóp kona mín og náði í dótið sitt.  Það tók engan tíma.  Það er ákveðin þversögn í því að fólk sem stundar holla útiveru og hreyfingu þarf að koma hvert á sínum bíl í Laugardalinn.  Það voru nokkur þúsund bílar þarna í gær.  Martröð.  

Ég hef tekið mismikinn þátt í þessari hátíð.  Bjó úti á landi í mörg ár, var ekki alltaf í bænum á þessum tíma.  En ég hef yfirleitt farið í Gallerí Fold þar eru yfirleitt nýjar áhugaverðar sýningar.  Nú eru þar Tryggvi Ólafs og Bragi Ásgeirs. Og Kristján Davíðs ef ég man rétt.  Svo hef hugað að því ef ættingjar koma við sögu, fólk mitt er í tónlist.  Svo er gott að fá eitthvað að borða þó erfitt sé að koma því við í tröðinni.  Ég hef aldrei verið svo fyrirhyggjusamur að panta borð á veitingastað. En svo hef ég bara verið heima um kvöldið og horft á flugeldana af svölunum.  Ég kann ekki vel við mig í kraðaðkinu hjá stórhljómsveitunum.  Ég sé að Sinfonían er með tvenna tónleika í Hörpunni þar væri gaman að vera, vöfflukaffin eru mörg þau koma til greina, Amnesty í Þingholtsstræi, Fjölskyldan í Ingólfsstræti bak við Aðventukirkjuna, Dagur Eggerts, Ólöf Arngríms.  

Svo lesendur góðir við hittumst kannski í dag, eða ekki.  Reynið að njóta dagsins, þótt sólin sé ekki í heiði.  Ekki fara í kerfi. Ráðist hvorki á ríkisstjórnina né borgarstjórn þau ráðu engu um þetta.  Kannski Davíð Oddsson!!!! Þetta er brandari.  

Gleðilega hátíð!!








Smásýning dagsins:  Skyssubæku Erlings .........

fimmtudagur, 22. ágúst 2013

Gunnar Bragi: Reynum að gleyma honum


Það er meira gaman að horfa á fallegar myndir úr Húnavatnssýslu og Borgarfirði en að hugsa um furðulegasta afsprengi íslenskra stjórnmála sem ég man eftir.  Þar á ég við utanríkisráðherra stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Í dag lét hann sér ekki nægja að tilkynna að nú yrði allt starf í sambandi við ESB umsókn lagt í rúst, heldur ætlar hann þar að auki að ganga fram hjá Alþingi í þeim vinnubrögðum.  Alþingi samþykkti þessa tilhögun mála og það er Alþingis að ljúka því ferli.  Það er ekki hlutverk vankunnandi karls að norðan að ákveða það.  Þess vegna vona ég að fólkið í hans kjördæmi sjái með tímanum hverju þeir hafa útungað inn á Alþingi og í ríkisstjórn.  Og iðrist.  Vinnubrögðin eru þvílík að manni verður orða vant og það þarf mikið til þess hjá mér.  

Svo lesendur góðir njótum fegurðar landsins umhverfisins á Norðvesturlandi og gleðjumst yfir því sem við sjáum.  Víða er augnayndi, víða er gott fólk, en við þurfum ekki þingmenn sem utanríkisráðherrann.  Megi hann hverfa sem fyrst af vettvangi stjórnmálanna.  Gleymum honum. Njótum lífsins.  











Sigurður Már Jónsson; Rödd meistarans.

Það er þröng sýn ýmissa fjármála- efnahagsskríbenta, þeir halda að við lifum einöngruð í okkar eigin heimi sem við getum stjórnað, við ein, að öllu leyti.  Gott dæmi er Sigurður Már Jónsson, han fer mikinn í pistli um misheppnun fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.  Hann segir :

Allt er þetta heldur grátlegt þegar horft er til þess að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í október 2008 var reiknað með að Ísland gæti rétt tiltölulega fljótt úr kútnum, væri rétt að verki staðið. Talið var raunhæft að hagvöxtur yrði 4,5% árin 2011 og 2012 og um 4,2% á þessu ári. Ef reyndin er sú að við megum þakka fyrir 1% hagvöxt hlýtur það að teljast áfall fyrir efnahagsstefnu síðustu ríkisstjórnar og ráðgjöf og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nú er búinn að pakka saman hér á landi. Er vonandi að fleiri þurfi ekki að pakka saman og hverfa af landi brott.

Ef þetta væri nú andans maður með víðan sjóndeildarhring myndi hann skoða þetta út frá ástandinu í hinum alþjóðlega fjármálaheimi um þessar mundir.  Hvað er að gerast þar og hvernig speglast það við íslenskan fjármálaheim. Hvernig gengur öðrum löndum í þessum fjármálakreppubarningi?  Ég benti á fyrir nokkrum dögum hvernig Hagvöxtur væri í nokkrum löndum nálægt okkur.  Og það kemur í ljós að jafnvel á Norðurlöndum er bullandi óáran, enda þeir sem sitja við völd ekki vinsælir hjá kjósendum. Hér eru seinustu spár um Hagvöxt fyrir 2012 og 2013 frá OECD: 


Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Þýskaland höfuðríki Vesturlanda á í bullandi erfiðleikum, vinaþjóðir okkar Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru í erfiðleikum með útflutning sinn og framleiðslu.   Svo á Ísland bara að vera í einhverjum öðrum heimi!!!!

Stofnanir okkar reyna að greina og skoða framtíðina það gengur á ýmsu eins og hjá Seðlabankanum, eins og Sigurður Már bendir á: 


Auk þess sögðu Seðlabankamenn að vöxtur efnahagslífsins 2012 hafi aðeins verði 2,2%, sem er 0,3 prósentustigum minna en þeir reiknuðu með síðast. Nú hálfu ári seinna blasir við að þetta voru rangar tölur. Á síðasta ári var hagvöxtur 1,6% og horfurnar daprar fyrir þetta ár eins og áður sagði. Þetta hljóta að vera þær tölur sem horft er til þegar kjarasamningaviðræður hefjast.



Við ættum að vita núorðið að Hagfræði er ekki mjög nákvæm né spádómsrík vísindagrein.  Seinustu ár ættu að hafa kennt okkur það.  Þrátt fyrir alla tölfræðitækni og tölvuútreikninga risastofnanana og banka.  Hvorki þjóðlegar né alþjóðlegar stofnanir skora hátt um þessar mundir að skyggnast fram í tímann.  

Já það er erfitt að sjá allt fyrir á þessum óróatímum.  En að fara að kenna seinustu ríkisstjórn um alla óáran í heiminum er fáránlegt ef ekki heimskulegt. Hún reyndi sitt bezta við erfiðar aðstæður og náði ótrúlegum árangri  að mörgu leyti.  Sigmundur Davíð og Bjarni héldu sínar ræður í gríð og erg á seinasta þingtímabili um það hve auðvelt væri að gera betur.  Nú gefst þeim tækifæri á að sýna það, byrjunin lofar ekki góðu.  Hvað sem Sigurður Már Jónsson segir.  Vonandi segir Sigmurður Már okkur raunsannar fréttir af þeim félögum næstu árin.  En ég efa það.  Hann hlustar of mikið á rödd Meistarans. Og Meistarinn er Frjálshyggja á hverfanda hveli.



  

þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Bjarni Benediktsson: Svei attan

Já, svona eru stjórnmál á Íslandi.  Bjarni Benediktsson: 

í kosningastefnuskrá :  

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan  Evrópusambandsins en innan-
þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu

í dag: 

Það er hins vegar mín skoðun, og ég ræddi það fyrir kosningar að það gæti farið vel á því að við efndum einhvern tímann á fyrri hluta kjörtímabils, eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum, til þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálin.

Hugsið ykkur orðalagið „það gæti farið vel á því" og       „ eða þá að það gæti orðið á seinni hlutanum".  Svona talar hjartahreinn og einlægur foringi sema allir eiga að treysta.  Svei attan.




mánudagur, 19. ágúst 2013

Ríkisstjórn: Sólódans og padödö


Þetta er allt að verða svo skemmtilegt, dásamlegur
utanríkisráðherra sem heldur það að vera ráðherra sé að geta sagt ÉG, flokkur sem treystir á minnisleysi þjóðarinnar, flokkar sem talast ekki við, ráðherrunum finnst svo gaman að stjórna.  Þetta er að verða alvörustjórn.  Formennirnir þekkja ekki hvor annan í sjón !!!!!   Maður þarf bara að vitna í til að koma með prýðisgrein!!!!! En auðvitað kunna  allir landsmenn
stjórnarsáttmálann utanað.  Og ég skil ekki í þessum 3200 sem vilja að Vigdís H. segi af sér, þá yrði ekkert gaman á Alþingi.  

...... Einn heimildarmaður fréttastofu orðaði það þannig að utanríkisráðherrann væri að „fljúga sóló með ummælum sínum og óvíst hvernig sú flugferð endar." Stjórnarþingmaður sagði að stefna ríkisstjórnarinnar í málinu væri í raun „glundroðakennd.“ Þetta væri heimatilbúinn vandi sem ætti rætur að rekja til þess að stjórnarsáttmáli væri ekki skýr um þetta atriði. Það er athyglisvert að slík skoðun komi fram hjá stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar.

Það liggur fyrir núna að stefna ríkisstjórnarinnar í málinu er óviss þar sem hún hefur ekki verið mótuð. Alþingi mun vinna úttekt á stöðunni innan ESB og í kjölfarið verður tekin ákvörðun í ríkisstjórn um hvort eða hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin.



...... Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. (Stjórnarsáttmáli)

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan -
þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðargreiðslu á kjörtímabilinu


Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum 2013


Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins myndi ekki styðja þingsályktunartillögu um að slíta viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún vill að slík atkvæðagreiðsla fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum næsta vor.


Kosningar 2013

Um 3.200 manns hafa nú skráð sig á undirskriftarlista þar sem skorað er á Vigdísi Hauksdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og formann fjárlaganefndar, að segja af sér formennsku í fjárlaganefnd Alþingis og víkja úr hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar

Þeir sem þekkja ekki padödö þurfa að lesa greinar Flosa heitins Ólafssonar en þar fjallar hann um fyrirbærið Padödö 

Hamingja

Ég var að hugsa um hamingju í gær.  Það er svo sjaldan að fólk gerir það svona yfirleitt.  Og flestir skammast sína að nefna slíkt á nafn opinberlega.  Ég var á gangi í Laugardalnum eins og oft áður, ég bý svo vel að búa við hliðina að þeim sælureit.  Þar sem gróður og mannlíf hefur stöðugt meira vaxið og þróast frá því að ég flutti í bæinn aftur fyrir 11 árum.  Ég var líka með eitt barnabarnið með mér en þau eru 7, varla er nokkurt meira verðmæti en þau.  Í fjarska drundi í áhorfendum á bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu. Það komu hávaðadrunur frá æstum og glöðum áhorfendum öðru hverju.  Ég hugsaði með sjálfum mér að voðaleg truflun þetta væri.  En svo fór ég á hug í dýpri hugsanir.

Þess vegna fór ég að hugsa um hamingju.  Hversu oft þarf lítið til að gleðjast í lífinu. Keppni tveggja liða veitir ómælda gleði og um leið jafnvel sársauka.  Að þramma út í garð í góðu veðri með barnabarni er sæla.  Á einhvern óljósan hátt sem erfitt er skilgreina nema með orði eins og hamingja.  Þetta er svo sem ekki djúp speki.  En þetta er nokkuð að hafa í huga þessa dagana. 

Það er vert að velta fyri sér hvað gefur lífinu gildi.  Eflaust hefur maður gert mistök í því.  Hver gerir það ekki? En hvað er það sem vekur slíkar kenndir í dag.  Þegar maður lítum um öxl.   Á maður að spyrja svona?   Hjá mér er það fjölskyldan, listir, tónlist og bókmenntir hafa alltaf haft djúpstæð áhrif á mig. Líka myndlist þótt ég hafi vanrækt oft að fylgjast með sem skyldi.  Seinustu dagar hafa verið sæludagar hjá mér.  Heimsmeistaramót í Frjálsum íþróttum hefur verið í gangi og ég hef setið rígnegldur yfir sjónvarpinu.  Algjör sæluhrollur oft í vikunni.  Hlaup, köst, stökk.  Litlar þjóðir geta orðið að stórveldum þar.  Eins og Jamaica. Ótrúlegt er hversu hreyfingar líkamans geta komið af stað spennu og róti á hugann.  

En það er margt sem veldur óró.  Hjá mér eru það oft og tíðum stjórnmál og opinber mál. Mér finnst ótrúlegt hvaða menn fólk kýs yfir sig. Hversu vanhæft fólk velst til þessara starfa.  Því þetta fólk  á að ráða skipan okkar samfélags um margra ára skeið.  En um leið er ég kominn á þá skoðun að maður eigi ekki að látta þetta setja líf manns úr skorðun. Lífið er of mikilvægt til þess.  Eitt er það sem skiptir líklega mestu máli, það er heilsa og heilbrigði.  Þegar fólk er komið á sama aldur og ég þá er það lykilatriði lífsins.  Það þarf ekki mikið að bregða út af til að kollvarpa lífi manns.  Í hverri fjölskyldu þarf fólk oft og mörgum sinnum að horfast í augum við sláttumanninn.  

Því er þýðingarmikið að halda jafnvægi og sjá það sem gefur lífinu mest gildi.  Ekki ný vísindi en þó sem alltaf er vert að skoða. Jafnvel í slæmu skyggni og við erfiðar aðstæður. Og auðvitað á ég ekki að vera að ræða þetta.  Maður gerir það ekki í bloggi.




Eða hvað?   

föstudagur, 16. ágúst 2013

Ameríski draumurinn og íslenska þjóðkirkjan

Við eigum von á gesti,  einn af ótal prédikurum vestursins, Bandaríkjanna Norður-Ameríku, Franklin Graham, ætla heiðra okkur, í boði svokallaðs Friðrikskappelluhóps. Ekki efast ég um að í útlöndum séu til margir andans menn sem tilheyri kirkjunni.  Þar væri hægt að nefna mörg nöfn en varla er Franklin Graham í þeim flokki.  Helst er það að hann er sonur Billys Graham.  Líklega frægasta prédikara seinustu aldar. 

Faðir hans var þekktur fyrir að umgangast valdsmenn beggja flokka í Bandarikjunum.  Hann kunni líka að maka krókinn svo Franklin tók við góðu búi. GBEA en svo er skammstöfun stofnunarinnar, hefur 16 manna stjórn, 15 karla og eina konu (dóttur Billy Graham) og heiðursmeðlimir eru 11, 10 karlar og 1 konu.  Billy forðaðist að láta kenna sig við stjórnmál eða blanda sér í flokkaþrætur.  
Sonur hans er aftur á móti þekktur fyrir glannalegar yfirlýsingar sem hljóta að túlkast sem pólitísk afstaða; um islam, um Obama forseta og kristna trú, um samkynhneigð.  Svo hafa fjármál hans verið í sviðsljósinu eins og annarra stórprédikara vestra.    
Hann var tvöföldum launum framan af bæði yfir Billy Graham stofnuninni og Pyngju Samverjans.  Það var mikil gagnrýni á hann hvernig hann gat sinnt þessum tveimur störfum auk þess sem launin voru há.   Hann hefur verið nátengdur Teboðshreyfingunni og Repúblikanaflokknum og stutt þann flokk, er þar á ysta hægri væng.  



Lífsgildi hans og afla sem hann styður eru ansi fjarlæg flestum Íslendingum. Þar sem trúarbrögð og stjórnmál tengjast á ógeðfelldan hátt. Því er það ansi skrítið að bjóða Graham að koma hingað og halda hátíð eins og hann kallar það þegar hann heldur sefjunarræður sínar. 

Ég þekki nú ekki mikið til Friðrikskapelluhópsins en samkvæmt netsíðu kapellunnar er margt skondið í mínum augum hvernig hann varð til. Þótt allt sé gert af góðum hug.  Lesið þetta: 

Dökkt ský yfir Íslandi: Biðjið







Bænasamfélagið í Friðrikskapellu varð til árið 2008 eftir mjög sérstakan aðdraganda. Tildrög þess voru þau að Ómar Kristjánsson, trúaður athafnamaður í Reykjavík, var í viðskiptaferð í Þýskalandi einu sinni sem oftar um vorið þetta ár og heimsótti þá Maríusystur í Darmstadt sem er lúthersk nunnuhreyfing er leggur mikla áherslu á bæn. Honum er mjög hlýtt til Maríusystranna og heimsækir þær oft á ferðum sínum.
kerti
Þegar hann var hjá systrunum í þetta sinn tjáði ein þeirra honum að Svissneskur maður sem var staddur hjá þeim vildi tala við hann. Ómar hafði aldrei séð manninn áður og vissi engin deili á honum. Hann reyndist vera athafnamaður eins og Ómar að nafni Willie Oehninger, mikill bænamaður með spádómsnáðargáfu sem fyrir löngu hafði sýnt sig að vera af Guði gefin enda naut hann mikils trausts hjá nunnunum. Þegar fundum þeirra bar saman sagðist Willie hafa mjög alvarlegan boðskap til hans og íslensku þjóðarinnar. Guð hafði sýnt honum að mjög dökk ský væru yfir Íslandi. Þau táknuðu að miklir erfiðleikar vofðu yfir þjóðinni vegna hroka hennar og sjálfsupphafningar sem myndu leiða til mikilla efnahagsþrenginga. Hann sagði Ómari að fara heim til Íslands og kalla saman leiðtoga í kirkjum landsins til að koma saman og biðja fyrir þjóðinni og ákalla Guð að hann sneri við hag hennar.
Síðar þegar Willie kom í heimsókn til Íslands sagðist hann að hann hafi átt mjög erfitt með að ganga til Ómars og segja honum þessar fréttir. Fyrst þegar honum fannst Guð minna sig á þetta reyndi hann að bægja því frá sem ómerkri hugdettu en hann fékk ekki frið fyrir því. Hann þekkti Ísland ekki neitt og hafði aldrei komið þangað. Til að gera þetta auðveldara bað hann Maríusystur um að hafa milligöngu um að hafa samband við Ómar.


Bænastundir hefjast


Mikilvægt er að hafa í huga að þetta samtal átti sér stað vorið 2008, áður en bólaði á efnahagsþrengingum á opinberum vettvangi á Íslandi og hagur þjóðarinnar virtist standa í miklum blóma. Ómar varð undrandi á boðskapnum en skynjaði strax alvöru hans af því hvernig Willie talaði við hann og skynjaði að honum var mikið niðri fyrir. Ómar einsetti sér strax að hlýðnast því boði að kalla saman leiðtoga kirkjunnar þegar heim kæmi og hafði samband við yfir tuttugu manns og bauð þeim á skrifstofuna sína til að segja þeim frá boðskap Willies og öllum málsatvikum. Sat hann með hverjum og einum í meira en klukkutíma og spurði þá hvort þeir vildu taka þátt í að koma saman sex sinnum og biðja fyrir þjóðinni og enda á því að koma fram á sjónvarpsstöðinni Ómega þar sem beðið yrði fyrir þjóðinni í beinni útsendingu. Allir brugðust vel við þessari málaleitan. Ákveðið var að bænastundirnar færu fram í Friðrikskapellu við Hlíðarenda því að hún var talin mjög hlutlaus staður.
Friðrikskapella
Fyrsta bænastundin fór fram þriðjudaginn 14. ágúst. Fyrstu samverurnar hófst með dýrindis hádegisverði frá veitingahúsi úti í bæ sem Ómar bauð upp á.
Vel var mætt á bænastundirnar sem voru alvöruþrungnar. Flestir voru undrandi á boðskap Ohningers og sennilega voru sumir í vafa hvort hann væri örugglega ekta. En fólk tók ekki áhættuna á að hann væri ósannur og skella skollaeyrum við honum. Það kom saman og bað af hjartans einlægni fyrir þjóðinni. Og svo kom hrunið! Ég held að enginn hafi átt von á því að spádómurinn myndi rætast svo bókstaflega og að afleiðingarnar yrðu svo miklar sem raun bar vitni. Mikil eining myndaðist fljótt í hópnum og bræðralag og þegar sá tími var liðinn sem samið var um í upphafi vildi fólk halda áfram að hittast og biðja fyrir þjóðinni og sumarið 2011 átti samfélagið þriggja ára afmæli.

Já, lesendur góðir, það er ýmislegt sem maður skilur ekki í störfum kirkjunnar, eins og dæmin sanna seinasta áratuginn.  Hvort þessi hópur sem stendur að þessu boði til Bill Graham stofnunarinnar tilheyrir einhverjum öfgahópi innan kirkjunnar veit ég ekki. En það að velja svo umdeildan prédikara til að koma hingað sýnir ákveðna þröngsýni eða vankunáttu. Það þarf nú ekki nema að blogga í klukkutíma til að sjá að meginþorri kristinna manna hérlendis getur ekki fallist á skoðanir þessa manns.  Harða bókstafstrú þar sem Biblían er tekin sem heilagur sannleikur í einu og öllu þar sem ekki er viðurkennd nútíma túlkun á þeim atburðum og hugmyndum sem þar er sagt frá.   Það eru líka til aðrir heimshlutar þar sem trúin er ekki gerð að skemmtiatriðum og fjárplógsstarfsemi. Væri ekki eðlilegra að sækja erlenda fyrirlesara og prédikara þangað? Mér finnst að frjálslyndir trúaðir kristnir menn eigi ekki að láta valta yfir sig með þessum hætti.  Eða eru þeir kannski ekki til?     

  

miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Tvær byssur: Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð

Ég sá að forsetinn okkar mætti á frumsýninguna hjá Balthasar Kormáki á Tvo Guns, nú verða flestar myndir að heita amerískum nöfnum í hinum alþjóðlega heimi .  Ég er nú hissa á Forsetanum að láta sjá sig á svona B-mynd.  Allir alvöruforsetar horfa bara á svona myndir í kvikmyndasalnum sínum heima í bústaðnum eins og í Hvita húsinu eða Bessastöðum. Það er helst breska konungafólkið sem fær að fara á svona sýningar, sem eru sagðar þá vera í góðgerðarskyni, en svo finnst því ekki gaman að neinu öðru en hasar eða billegum gamanmyndum.  Ekki  má gleyma Stalín sem var með eigin sýningarmann sem varð að vera tilbúinn allan sólarhringinn alla daga allt árið til að skoða myndir.  Það má heldur ekki gleyma að uppáhaldsmyndir hans voru amerískar söngva og dansmyndir með yfirgengilegum hópatriðum. Og um örlög kvikmyndasýningarmannsins var gerð ágæt mynd fyrir mörgum árum The Inner Circle, með Tom Hulce þeim sem lék Mozart um árið í Amadeus. 

Ég veit nú ekki hvort Sigmundur Davíð hafði tíma til að láta sjá sig á þessari frumsýningu ársins. Enda í mörgu að snúast,  menn verða að njóta þess að vera forsætisráðherra, ferðalög, skrúðgöngur, skrautbílar, gamalt wiskí, kampavín og ostrur.  Svo tekur alvaran við,  ég sá í Fréttablaðinu í morgun að enn er ekki búið skipa nefndina sem á að ráða úrslitum þessarar stjórnar.  Nefndir um almenna skuldaniðurfellingu.  Það er merkilegt að það er ekki búið að fá það úrvalslið til starfa.  Sem átti að vera höfuðverkefni stjórnarinnar en er nú höfuðverkur hennar.  En kannski hefur ekki verið svo auðvelt að skipa þá nefnd.  Flestir sérfræðingar landsins hafa tjáð sig um erfiðleikana í sambandi við leysa úr þessari fléttu óðaverðbólgu, verðtryggingar og ofurfasteignaskulda.  Aðrir hafa verið að vinna að því svo sem starfsfólk Seðlabankans og hafa ekki traust forráðamanna stjórnarinnar.  Ekki er heldur auðvelt að stíga þarna inn í ormagryfju  meirihlutans þar sem aðaltalsmaður stjórnarinnar um efnahagsmál er hin alræmda og vanhæfa Vigdís Hauksdóttir.  

Einn er sá maður sem hefur lagt mikið undir með því að skipa þessa stjórn.  Það er forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson.  Hann er Guðfaðirinn og vill varla sjá allt leysast upp og verða að hjómi einu.  Ég hugsa að það fari oft um hann óhugur þegar hann sér og hlustar á fréttir, yfirlýsingar og glópaspjall talsmanna stjórnarinnar. Ég vona að hann hafi hringt í Sigmund vin sinn og beðið hann að sussa á suma.  Því það er þessar tvær byssur sem eiga mest undir.  Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð.  Og væntanlega vilja þeir halda áfram að munda byssurnar galvaskir frekar en að ríða og hverfa inn í blóðrautt sólarlag öllum gleymdir eins og Davíð Oddsson.   

þriðjudagur, 13. ágúst 2013

Ísland: Dómdagsspár og veruleiki

Bregst ekki við  dómsdagsspám segir sjálfur Fjármálaráðherrann.  Það eru ekki margir mánuðir síðan hans líf gekk út á að dæla út endalausum dómdagsspám í sama anda og kemur fram í ummælum pistlahöfundar CNN .  Honum tókst meira að segja að fá landsmenn til að trúa að hann hefði lausnirnar sem gerði allt betra og ótrúlega margir ginu við þeim málflutningi.

En nú eru aðrir tímar, erfiðir tímar, segir hann, það sagði hann ekki fyrir skömmu síðan.  Þá var allt seinustu ríkisstjórn að kenna.  En hver er staða okkar?   Hefur eitthvað áunnist?   Er þetta bara allt blekking?  

Við getum borið okkur saman við aðra.  Þar höfum við OECD, hvað segja sú stofnun um okkur?  Hér að neðan eru helstu niðurstöður sem eru teknar beint af vef Fjármálaráðuneytisins.   Þar eru ábendingar og farið yfir stöðuna.  Ýmislegt hefur áunnist en margt eftir að gera.   Ríkisfjármál eru á réttri leiðMikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt. Segir í skýrslunni.  
Þar er líka talað um  gjaldeyri og fjárhagshömlur, verðbólgu og verðtryggingu. Grænn hagvöxtur hefur verið á réttri leið. 

Svo getum við líka borið okkur saman við helstu viðskiptaþjóðir okkar, hver er aukning eða minnkun Landsframleiðslu okkar miðað við þær.  Það eru margir sem halda að allt sé í blóma í kringum okkur á Norðurlöndum en svo er nú ekki. Við lifum í heimshluta stöðnunar.  Ég tek tölur fyrir 2012 og 2013.

Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig nýju valdamennirnir takast á við þennan veruleika.  Ég er nú ansi smeykur.   

    


Helstu niðurstöður (lausleg þýðing úr skýrslu OECD)


Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu

  • Slaki er viðvarandi í peningastefnunni þótt framleiðsla sé aftur að ná langtímaleitni og verðbólga sé enn yfir markmiði.
  • Innlend eftirspurn hefur dregist saman á aðlögunartímabilinu, sérstaklega fjárfesting fyrirtækja og heimila, á sama tíma og útflutningur hefur stóraukist. Heildareftirspurn er nú í meiri takt við heildarframboð og samsetning hennar er ásættanlegri.
  • Skuldir heimilanna hafa lækkað en eru enn miklar í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir meiriháttar afskriftir. Vanskil hafa minnkað en mörg tekjulág heimili, þ.m.t. þau sem ekki eiga húsnæði sitt, eiga enn í erfiðleikum með að sjá fyrir nauðþurftum og borga af skuldum. Frekari endurútreiknings gengistryggðra lána er að vænta.
  • Bankarnir eru að auka útlán sín til heimila (sem eru að hluta til að endurfjármagna lán frá Íbúðalánasjóði) en fyrirtæki telja sig eiga í erfiðleikum með að fjármagna sig.

Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki

  • Þjóðhagsvarúð er ekki beitt nægilega til að tryggja fjármálastöðugleika.
  • Þess eru merki að fjármagnshöft valdi efnahagslegu misvægi.
  • Verðbólgumarkmið hefði skilað betri árangri ef því hefði verið fylgt eftir með skilvirkum varúðarreglum og eftirliti.
  • Ekki er nægileg samræming og samskipti meðal aðila er móta peningamálastefnuna og þeirra er sinna eftirliti með fjármálakerfinu þar sem ábyrgðarhlutverk og umboð eru ekki nægilega vel skilgreind.

Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs

  • Mikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt.
  • Áhersla hefur til þessa verið á að auka tekjur og skera niður opinberar fjárfestingar í stað almennra rekstrarútgjalda. Slík áhersla eykur hættu á að jafnvægi náist ekki til lengri tíma.
  • Ráðgert er að leggja frumvarp um opinber fjármál fyrir þingið fyrir lok þessa árs en það á að stuðla að auknum aga í ríkisfjármálum og bæta umgjörð fjárlagaferlisins.
    Skilvirkni ríkisútgjalda
  • Ríkið endurskoðar ekki útgjöld sín á kerfisbundinn hátt, þótt slík endurskoðun gæti verið gagnleg við að auka skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstri.
  • Mest er hægt að auka skilvirkni á sviði menntunar, þar sem uppsöfnuð útgjöld á nemanda eru mjög há en árangur í meðallagi, og í heilbrigðisþjónustu þar sem þjónusta sérfræðinga og notkun greiningartækja er mikil.

Grænn hagvöxtur

  • Ísland er á réttri leið við að ná settum markmiðum varðandi Kyoto-skuldbindingar, en verðmyndun á losunarheimildum er of veikbyggð til að hún nái að mæta framtíðarmarkmiðum.
  • Raforkuframleiðslugeta hefur verið aukin til að mæta þörfum aukins útflutnings (aðallega á áli) en auka þarf arðsemi og tekjur af raforkusölu.

Helstu ábendingar

Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu

  • Auka aðhald í peningastefnu eftir því sem efnahagslífið nær sér til þess að ná verðbólgumarkmiði og til að draga úr verðbólguvæntingum.
  • Beina aðgerðum í skuldamálum heimilanna að heimilum í fjárhagserfiðleikum til að draga úr vanskilaáhættu á sem skilvirkastan hátt. Leggja niður vaxtabætur og taka þess í stað upp niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði fyrir tekjulág heimili til að draga enn frekar úr fjármálastreitu, draga úr mismunun í búsetuúrræðum og hvetja íbúðaeigendur til að auka eiginfé.
  • Afnema ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði þegar fjármál heimilanna eru aftur komin í jafnvægi og draga þannig úr hvata til aukinnar skuldsetningar.
  • Halda hárri eiginfjárkröfu á viðskiptabankana og stuðla þannig að áframhaldandi endurskipulagningu skulda fyrirtækja.

Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki

  • Beita þarf þjóðhagsvarúðartækjum, svo sem veðþaki á útlánastarfsemi, til að tryggja fjármálastöðugleika, draga úr útlánasveiflum og styðja við peningastefnuna.
  • Miða áætlun um losun fjármagnshafta við aðstæður.
  • Verðbólgumarkmiði verði fylgt eftir losun hafta með flotgengi. Dregið verði úr sveiflum með inngripi á gjaldeyrismarkaði.
  • Styrkja samstarf og samhæfingu eftirlitsstofnana. Skýra ábyrgð og umboð þeirra til að sinna skyldum sínum að viðhalda fjármálastöðugleika.

Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs

  • Tryggja þarf að jöfnuður náist 2014 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og að 2% afgangur verði árið 2015 til að skapa svigrúm fyrir niðurgreiðslu skulda. Skapa þarf svigrúm til aukinnar fjárfestingar hins opinbera með auknu aðhaldi í rekstri.
  • Gera tímasetta áætlun um niðurgreiðslu skulda til að auka gagnsæi og trúverðugleika.
  • Ný lög um opinber fjárlög verði samþykkt á þingi til að auka aga í ríkisfjármálum.

Skilvirkni ríkisútgjalda

  • Endurskoða útgjöld ríkisins til að ná fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni. Tryggja þannig betri nýtingu fjármuna.
  • Stytta skólagöngu á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi, til að auka hagkvæmni og skilvirkni í menntakerfinu.
  • Efla heilsugæslustigið og taka upp tilvísanakerfi til að draga úr sérfræðikostnaði og kostnaði við rannsóknir með dýrum greiningartækjum.

Grænn hagvöxtur

  • Breikka stofninn fyrir kolvetnisskatt og hækka hann til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Auka raforkuvæðingu til útflutningsgreina (sérstaklega til orkufrekra greina) ef viðunandi arðsemi næst. Skattleggja skal auðlindarentu.
  • Draga úr áætlaðri hækkun á sérstöku auðlindagjaldi á sjávarútveginn, sérstaklega botnfiskveiðar, þannig að atvinnugreinin standi undir því.