Það er sorglegt að sjá unga drengi eða karla sem sóa sínu lífi á unga aldri og eiga að öllum líkindum aldrei afturkvæmt í heim okkar hinna. Sem hafa brenglað svo siðferðisvitund sína, líklega með dópi og víni, að þeir halda að allt sé leyfilegt til að ná fram hefndum eða til að fá útrás fyrir girndir sínar og hvatir.
Allir eiga þessir menn fjölskyldur og kunningja sem eiga erfitt meða að horfa upp á þessa þróun. Þegar ekki er hægt að eiga samskipti við þá sem í hlut eiga. Þegar ekki er hægt að treysta neinu sem sagt er. Þetta er óhugnanlega erfitt fyrir alla umhverfis þessa menn að fylgjast með þessum umskiptum.
Er það nema vona að hvarfli að manni hvað hafi gerst? Hvernig getur 15 ára unglingur ákveðið að heimur glæpa og ofbeldis sé sá heimur sem hann vilji lifa í? Er þetta eitthvað sem samfélagið getur lagað? Til að koma í veg fyrir að horfa upp á endalausar ferðir í og úr Steininum. Í heimi þar sem ofbeldi og kúgun virðast vera ríkjandi lögmál. Engin iðrun og eftirsjá.
Hvað getum við gert gegn siðblindu og ranghugmyndum? Myndin í blöðunum af ungum hrottum sem hafa ekkert að fela. Þeir þurfa ekki að byrgja andlitin, þessir fjórir. Þeir segja; hér erum við So What? Svo erfitt, svo dapurlegt. Það eina sem við getum gert er að senda hlýjar hugsanir til aðstandenda og fórnarlamba, sem verða aldrei söm.
Gagnvart þessum heimi erum við orðlaus:
„Meintur brotaþoli í málinu, A, hafi lýst atvikum þannig að hann hafi verið að skemmta sér helgina 28.–30. júní ásamt ákærða. Að kvöldi sunnudagsins hafi hann svo tjáð ákærða, er þeir hafi verið staddir í gleðskap að [...] í Reykjavík, að B hefði átt í kynferðislegu sambandi með [...] ákærða. Við þær fréttir hafi ákærði reiðst mikið og ráðist að A með því að slá hann hnefahögg í andlitið. Því næst hafi A verið neyddur upp í bifreið og ekið með hann að [...] í Grafarvogi, þar sem ákærði hafi aftur tekið á móti honum með hnefahöggum og neytt hann upp í aðra bifreið sem hafi ekið með hann til baka að [...]. Á meðan á akstrinum hafi staðið segir hann ákærða hafa stungið hann nokkrum sinnum með eggvopni. Er hann hafi svo komið aftur í íbúðina að [...] segir hann ofbeldið hafa stigmagnast og að það hafi verið ákærði og meðákærði Y sem hafi haft sig mest í frammi. Hafi hann lýst því að hann hafi verið kýldur í andlitið nokkrum sinnum, laminn í hnéskeljar og handarbök líklega með hafnaboltakylfu. Þá hafi hann verið laminn með minni kylfu í andlitið, og telji sig hafa kinnbeinsbrotnað við það. Þá hafi þeir notað skæri og heimatilbúinn hníf eða rakvélablað til að stinga hann í höfuðið og klippa í eyrun á honum. Þá segi hann meðákærða Y hafa stungið sig 3-4 sinnum með notaðri sprautunál, á meðan ákærði hafi haldið honum niðri. Loks hafi ákærði skipað honum að fara í sturtu til að þrífa af sér blóð og í kjölfarið hafi hann farið með hópnum að [...] í Hafnarfirði. Það hafi svo verið mánudagsmorguninn sem hann hafi yfirgefið vettvang og leitað skjóls hjá vini sínum uns lögregla hafi haft samband við hann.“