sunnudagur, 21. ágúst 2016

Flóttamenn: Hinn blái litur yfirvalda

Lítil frétt í blaði.  Fólk safnast saman til málsverðar í bakhúsi á Klapparstíg.  Safna í máltíð úrgangi og afgöngum matarmenningar okkar.  Í litla húsinu fyrir framan hangir klukkan sem telur tímann þeirra á Íslandi eða klukkustundirnar þangað til verðir laganna fylgja þeim út í flugvél. Þannig er hlutskipti flóttamanna og þeir eiga þar margt sameiginlegt með fátæklingum á Íslandi.  Þeir eru á röngum slóðum sem halda að það séu kjör Flóttamanna sem hindra það að líf öreiga hjá okkur séu ömurleg.  Nei, það verður að leita til yfirstéttar og auðmanna til að finna skýringuna. 

Allt eins og vera ber, segja sumir,  við höfum lög og reglur, laganna verðir fara eftir því. Við höfum meira að segja ný lög frá því í júnímánuði.  Samt eru allt of mörg dæmi um skrítin og kæruleysisleg vinnubrögð Útlendingastofnunar og annarra yfirvalda.  Sem hafa ekkert að gera með lögin sem slík heldur einlitan  bláan lit lögmanna og lögreglu.  Kannski getur næsta ríkisstjórn skapað annan anda. Anda sem býður upp á manngæsku og vinarþel.   Það er of margt daupurlegt í dag. Við eigum að lifa betur.