Það eru sumir sem halda að það þurfi lítið til að ná valdi á því að spila klassíska tónlist, jazz eða verða meistarar í samningu góðra dægurlaga eða ná valdi að meistaraspilamennsku í rokktónlist.
Í allt þetta þarf endalausa æfingu og lærdóm út ævina. Samt halda margir eða segja það þótt þeir viti betur að þetta fólk eigi að stunda þessar listir í frístundum og vera í almennilegri vinnu á daginn. Oft er þetta sagt í pólitískum loddaraskap til að koma með billegar lausnir á erfiðum efnahagslegum og fjármálalegum vandamálum. Eða þetta er sagt af kjánaskap og heimsku.
Ég var að hugsa þetta þegar ég kom heim af tónleikum Kammermúsíkklubbsins í Hörpunni í gærkvöldi. Kammermúsíkklúbburinn er klúbbur áhugamanna um stofutónlist og var stofnaður fyrir nokkrum áratugum af þeim sem þóttu þeir heyra of sjaldan hágæðaflutning af slíkri tónlist hér á landi. Það gera þeir sem stýra þessu af áhuganum einum og þiggja engin laun. En þeir þurfa flytjendur sem ráða við þessa oft á tíðum erfiðu tónlist, það getur verið ótrúlega erfitt að spila þetta.
Við sáum það í gærkvöldi að svo er. Við heyrðum verk eftir Spánverja sem lifði og dó (allt of fljótt) á fyrri hluta 19. aldar. Arriaga heitir hann og samdi kvartetta sína 16 ára gamall, ofsafín verk, leiftrandi eins og Mozart og leikandi. Það er eitt hlutverk klúbbsins að vekja athygli á tónskáldum sem sjaldan eða aldrei hafa verið spiluð á Íslandi. Á eftir Arriaga voru svo spilaðir stórmeistarar kammermúsíkurinnar, Beethoven og Brahms. Og ekki það sísta, fyrir hlé var fluttur kvartett ópus 132. Sem ég held ég geti fullyrt sé ein af erfiðustu og mögnuðustu tónsmíðum sögunnar. Að eiga listamenn sem geta spilað þetta í heimsklassa eins og við heyrðum í gærkvöldi, sunnudag, er nokkuð sem smáþjóð getur verið stolt af. Allir meðlimir kvartettsins, Sigrún Eðvaldsdóttir, Zibignew Dubik, Ásdís Valdimarsdóttir og Bryndís Halla Gylfadóttir eru meistarar á sín hljóðfæri. Í svona spilamennsku þarf áratuga þjálfun og vinnu, þetta er ekkert til að skvera svona út úr erminni eins og sumir halda. Það er ekki hægt að koma nær guðdóminum heldur en að hlusta á svona verk og túlkun. Meira að segja Brahms, Strengjakvartett númer 1, sem ég kann vel að meta, hljómaði fölur eftir Beethoven keyrsluna (konan mín var nú ekki sammála um það), en hann á eftir að hljóma vel í annað sinn.
Já lesendur góðir, það er ýmislegt heilarót sem fer af stað eftir að hafa verið í Hörpunni sem sumir vilja bara rífa svona einn tveir og þrír, þannig var í þetta sinn. Það kostar peninga að halda uppi tónlistarskólum, listaháskólum og húsakynnum til að flytja þessi verk. En það gefur í staðinn svo ótrúlega mikið. Þetta er líka einn af þáttunum sem útlendingar tala um í sambandi við landkynningu, það er tónlist myndlist og bókmenntir. Það er skrítið að upplifa það að íslenskur rithöfundur sem hefur lítið selst heima á Íslandi en selst allt í einu í tugum og jafnvel hundruðum þúsunda eintaka í Frakklandi. Björk, Emilíana Monsters of Men og Sigurrós fara víða um heim, við eigum ótrúlegan hóp tónlistarmanna, í klassík, jazz, dægurlagatónlist. Myndlistarmenn okkar vekja víða athygli fyrir frumleik og sköpunargáfu. Handiðnaðarfólk skín. Kvikmyndafólk okkar er meira að segja komið til Hollywood (ef það er það sem skiptir mestu máli) !!!!! Þeir sem horfa á þetta að utan furða sig á þessum 350000 manna eyjarskeggjum sem virðist ekkert vera ómögulegt.
Mikið væri skemmtilegra að heyra frá valdamönnum og almenningi ánægjuorð og gleði yfir því sem listamenn okkar gera. Láta það hljóma hátt. Þrasið og kveinið verður oft svo slítandi. Það myndi gera heiminn bjartari og sólríkari.