Á leið minni um bæinn sá ég fólk reyna að moka bílunum sínum út úr sköflum.
Hreinsunartæki borgarinnar taka eina bunu eftir götunum, svo ekkert meira. Ekki hugsað um aðferð til þess að hreinsa hryggina fyrir framan strætisvagnaskýli, ég nota strætó um þessar mundir svo ég sé ástandið. Ég gerði margar tilraunir á Langholtsveginum að komast yfir einn af þessum dásamlegu hryggjum ( ekki betra vegna veikra hnjáa). Mér tókst að klifra.Ég held að margt gamalmennið eigi í erfiðleikum. En líklega er það allt í lagi í Reykjavík. Þar verða menn gamlir 3 árum seinna en annars staðar.
Það virðist ekki þurfa mikið meiri snjó til þess að allt verði komið í kaos í henni Reykjavík. Ég hugsa að Akureyringar séu nú vanari erfiðum aðstæðum. Á þessum árstíma verða menn líka að komast á bíl sínum í jólaneysluna. Kaupa, kaupa meira. Ég sá það á götunni hjá mér að það voru ansi margir á ferð í fyrrdag í kófinu og hvassviðrinu.
Við erum eftir allt Víkingar (líka nýbúarnir) og látum ekki veður hamla okkur. Svo mætum við öll í Friðargönguna á Þórláksmessu. Ekki veitir af þegar maður lítur á ástandið í heiminum.