Einhvern veginn var lítill spenningur í mér í gær þegar við fóum í Þjóðleikhúsið að sjá Þingkonurnar, kannski eitthvað í blöðunum en ég er nú farinn að lesa ekki gagnrýni fyrr en eftir að ég hef séð sýninguna. En satt að segja kom þessi sýning mér á óvart. Hún var oftast skemmtileg, hæfileg blanda af upphaflegu leikriti Aristófanesar og leikstjórans Beneditkts Erlingssonar. Sviðið Alþingishússalurinn, söngvar og tónlist, dansar; allt hjálpaði þetta að skapa heild sem að mestu leyti gekk upp. Svo var fyndið að sjá klám og fíflagang í hæfilegum skammti eins og þótti eðlilegt í Aþenu forðum daga. Heilbrigt klám er ekki svo slæmt!!!
Ég er ekki að segja að þetta sé snilldarverk, langt í frá því, en þarna var samræða Grikkjanna fyrir tvöþúsund og eitthvað árum um lýðræði, jafnrétti, samskipti kynjanna og skipan stjórnmála. Þar sem við sjáum að fólkið í fornöld gat gert grín að sjálfu sér, blandað með alvöru og léttýðgi sem fékk mann til að labba út með glotti á vör. Tónlistin hans Egils textarnir hreyfing og dans, lyfta manni upp og nútímaþrællinn í meðferð Guðrúnar Snæfríðar var óborganlegur þar sem hún þeyttist um Alþingissalinn með vínkerruna og fjarstýringuna.
Það er gaman að fá öðru hverju eldgamla klassíkera, þar sem þeir eru matreiddir og kryddaðir passlega fyrir okkur nútímapakkið. En einhvern hafði maður á tilfinningunni að leikhúsið okkar allra hefði ekki haft trú á þessari uppsetningu, einstaklega fátæklegt prógramm sem boðið var upp á, það væri jafngott að setja uppýsingar um sýningarnar og valdar greinar um leikritin og fróðleik á netið. Það var líka gaman að sjá Heru Björk söngkonuna knáu þarna með leikurunum hún bar af í söng og gamli nágranni minn Þorsteinn Bachmann verður alltaf betri og betri leikari með árunum.
Að lokum nokkuð skemmtileg sýning sem fær mann til að brosa og pæla smá,um leið gegnir Þjóðleikhúsið skyldu sinni að sýna klassísk stykki. Það hefði verið hægt að gera beittari sýningu, en þarna fékk stór hópur leikkvenna tækifæri á að spreyta sig. Það er nú ekki oft sem svona stór hópur þeirra stígur á sviðsfjalirnar.