miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Tvær byssur: Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð

Ég sá að forsetinn okkar mætti á frumsýninguna hjá Balthasar Kormáki á Tvo Guns, nú verða flestar myndir að heita amerískum nöfnum í hinum alþjóðlega heimi .  Ég er nú hissa á Forsetanum að láta sjá sig á svona B-mynd.  Allir alvöruforsetar horfa bara á svona myndir í kvikmyndasalnum sínum heima í bústaðnum eins og í Hvita húsinu eða Bessastöðum. Það er helst breska konungafólkið sem fær að fara á svona sýningar, sem eru sagðar þá vera í góðgerðarskyni, en svo finnst því ekki gaman að neinu öðru en hasar eða billegum gamanmyndum.  Ekki  má gleyma Stalín sem var með eigin sýningarmann sem varð að vera tilbúinn allan sólarhringinn alla daga allt árið til að skoða myndir.  Það má heldur ekki gleyma að uppáhaldsmyndir hans voru amerískar söngva og dansmyndir með yfirgengilegum hópatriðum. Og um örlög kvikmyndasýningarmannsins var gerð ágæt mynd fyrir mörgum árum The Inner Circle, með Tom Hulce þeim sem lék Mozart um árið í Amadeus. 

Ég veit nú ekki hvort Sigmundur Davíð hafði tíma til að láta sjá sig á þessari frumsýningu ársins. Enda í mörgu að snúast,  menn verða að njóta þess að vera forsætisráðherra, ferðalög, skrúðgöngur, skrautbílar, gamalt wiskí, kampavín og ostrur.  Svo tekur alvaran við,  ég sá í Fréttablaðinu í morgun að enn er ekki búið skipa nefndina sem á að ráða úrslitum þessarar stjórnar.  Nefndir um almenna skuldaniðurfellingu.  Það er merkilegt að það er ekki búið að fá það úrvalslið til starfa.  Sem átti að vera höfuðverkefni stjórnarinnar en er nú höfuðverkur hennar.  En kannski hefur ekki verið svo auðvelt að skipa þá nefnd.  Flestir sérfræðingar landsins hafa tjáð sig um erfiðleikana í sambandi við leysa úr þessari fléttu óðaverðbólgu, verðtryggingar og ofurfasteignaskulda.  Aðrir hafa verið að vinna að því svo sem starfsfólk Seðlabankans og hafa ekki traust forráðamanna stjórnarinnar.  Ekki er heldur auðvelt að stíga þarna inn í ormagryfju  meirihlutans þar sem aðaltalsmaður stjórnarinnar um efnahagsmál er hin alræmda og vanhæfa Vigdís Hauksdóttir.  

Einn er sá maður sem hefur lagt mikið undir með því að skipa þessa stjórn.  Það er forseti vor, Ólafur Ragnar Grímsson.  Hann er Guðfaðirinn og vill varla sjá allt leysast upp og verða að hjómi einu.  Ég hugsa að það fari oft um hann óhugur þegar hann sér og hlustar á fréttir, yfirlýsingar og glópaspjall talsmanna stjórnarinnar. Ég vona að hann hafi hringt í Sigmund vin sinn og beðið hann að sussa á suma.  Því það er þessar tvær byssur sem eiga mest undir.  Ólafur Ragnar og Sigmundur Davíð.  Og væntanlega vilja þeir halda áfram að munda byssurnar galvaskir frekar en að ríða og hverfa inn í blóðrautt sólarlag öllum gleymdir eins og Davíð Oddsson.