þriðjudagur, 8. mars 2016

Sigurður Nordal: „Týndi" tíminn í ævi hans

Víða um heim er íslensk menning rædd, kennd, rannsökuð og ýmislegt efni gefið út varðandi hana.  Í Uppsölum í Svíþjóð kemur út tímariti Scripta Islandica.  Í ritinu 2015 kennir ýmissa grasa, en það sem ég hygg að veki mestan áhuga flestra er grein Lars Lönnroths, hins kunna sænska fræðimanns um íslenskar bókmenntir; Sigurður Nordals brev till Nanna, um týnda tímann í ævi Sigurðar Nordal, tímann sem hann dvaldist í Kaupmannahöfn og skrifaði doktorsritgerð sína um Ólafs Helga.  Þar átti hann í stormasömu sambandi við sænska konu, sem var gift og þriggjabarna móðir, Nanna Boëthius, sem skildi við mann sinn út af þessu sambandi. Þau höfðu kynnst á baðströnd á Skáni þar sem kviknaði funheit ást.

Þau giftust síðan í október 1914 í Kaupmannahöfn og skildu ekki fyrr en 1921 en ári seinna kvæntist hann Ólöfu Jónsdóttur. Það merkilega er að Sigurður virðist hafa séð til þess að þetta hjónaband varð aldrei opinbert nema fyrir nokkra hans nánustu vini í Kaupmannahöfn. Sigurður var í bréfaskiptum við Nanna til 1919. Hann húðskammaði hana í bréfi þegar minnst var á hjónaband þeirra í VeckoJournalen. Í æviágripi hans á vefsíðu Stofnunar Sigurðar Nordals er þessa hjónabands ekki getið. 

Þessi tími í ævi Sigurðar, sem að mörgu leyti var mótunartími í ævi hans, hann var í Kaupmannahöfn, ferðaðist til Berlínar í miðju stríði og seinna til Oxford í Englandi, hefur verið okkur hulinn, hann sjálfur skrifaði ekkert um hann, en í bréfskrifum þeirra kemur fram að þessi sænska kona sem var 8 árum eldri en hann og mikið lífsreyndari, hafði djúp áhrif á hugmyndir hans um heiminn.  Þetta var tími frelsis í samskiptum kynjanna, tími þar sem fólk vildi frelsa sig úr viðjum hlekkja og móta líf sitt eftir heimspekilegum hugmyndum.  Allt þetta átti sér stað í skugga Fyrri heimsstyrjaldarinnar. 

Með þessari litlu ritgerð sem byggir á aðgangi að bréfum frá fjölskyldu Nönnu, tekst að bregða nýju ljósi á ævi Sigurðar Nordals, ef til vill gera hana meira spennandi.  Eflaust er hægt að ræða þetta út frá kvennafræðum, og skoða samband þeirra Sigurðar og Nönnu á annan hátt.  En sá sem skrifar Stóru ævisöguna um Sigurð Nordal, um þennan menningarfursta fyrri hluta seinustu aldar fær ýmislegt að moða úr.  Ber að þakka Lars Lönnroth fyrir þessa grein.   Hún er skemmtileg og áhugaverð fyrir okkur sem finnst bókmenntasaga skemmtileg. Alltaf er hægt að draga eitthvað út ur myrkri tímans. Svartholin opnast stundum.