mánudagur, 22. maí 2017

Vandamál Framsóknar: Hver man hvað gerðist?

Það er merkilegt hversu fólk getur velt sér upp úr vandamálum Framsóknarflokksins. 
Flokkurinn lendir í alræmdasta hneykslismáli lýðveldissögunnar, þar sem formaður flokksins og Forsætisráðherra verður að athlægi út um allan  heim, sér sjálfum og þjóðinni til skammar.  Ekki nóg með það heldur er ekkert fararsnið á honum úr flokknum þótt eðlilegt hefði verið að hann hyrfi úr stjórnmálum og elíta flokksins virðist alveg hafa gleymt þessum atburðum þó meirihluti kjósenda hafi yfirgefið hann. Einhverjir heiðarlegir menn eru þó til í flokknum en þeim virðist vera um megn að stugga við stóra barninu og fylgihnöttum hans. 

Það að veifa Lilju Alfreðsdóttur Þorsteinssonar framan í okkur.  Sem er jafn tunguliprari en Sigmundur Davíð og jafngóð og hann að  snúa út úr og svarar sjaldan því sem spurt erum um í viðtalsþáttum. Breytir litlu fyrir marga,  Siðferðiskompásinn er enn fastur á sama stað.  Með áttina stillta beint á Panamaborg.  Meðan svo er þá fer varla kjósendafjöldinn hærra.  Frekar að hann skríði niður á við.  Að það sé til fólk sem finnist það allt í lagi að fylkja sér að baki SDG sem finnst sjálfsagt að mæta ekki í vinnu sína en þiggur hálaun fyrir ekkert, sem enn hefur ekki lagt fram eðlilegar upplýsingar um spillingaraðkomu sína, er ótrúlegt. 

Það er sorglegt að horfa á stöðu þessa flokks sem einu sinni var flokkur bænda og alþýðu.  Sem vann að uppbyggingu samvinnufélaga og kaupfélaga sem áttu að vera láglaunafólki til gleði og hagsbóta. En sem breyttust í spillingarhít og þjófabæli.  Við fengum kennsludæmi í seinustu viku þegar Ólafur Ólafsson birtist á Alþingi, einn af þeim fjölmörgu starfsmönnum Sambandsins sem notuðu eigur þessarar hreyfingar til að auðgast og allt endaði í mesta hruni íslenska ríkisins og þjóðarinnar.