föstudagur, 16. ágúst 2013

Ameríski draumurinn og íslenska þjóðkirkjan

Við eigum von á gesti,  einn af ótal prédikurum vestursins, Bandaríkjanna Norður-Ameríku, Franklin Graham, ætla heiðra okkur, í boði svokallaðs Friðrikskappelluhóps. Ekki efast ég um að í útlöndum séu til margir andans menn sem tilheyri kirkjunni.  Þar væri hægt að nefna mörg nöfn en varla er Franklin Graham í þeim flokki.  Helst er það að hann er sonur Billys Graham.  Líklega frægasta prédikara seinustu aldar. 

Faðir hans var þekktur fyrir að umgangast valdsmenn beggja flokka í Bandarikjunum.  Hann kunni líka að maka krókinn svo Franklin tók við góðu búi. GBEA en svo er skammstöfun stofnunarinnar, hefur 16 manna stjórn, 15 karla og eina konu (dóttur Billy Graham) og heiðursmeðlimir eru 11, 10 karlar og 1 konu.  Billy forðaðist að láta kenna sig við stjórnmál eða blanda sér í flokkaþrætur.  
Sonur hans er aftur á móti þekktur fyrir glannalegar yfirlýsingar sem hljóta að túlkast sem pólitísk afstaða; um islam, um Obama forseta og kristna trú, um samkynhneigð.  Svo hafa fjármál hans verið í sviðsljósinu eins og annarra stórprédikara vestra.    
Hann var tvöföldum launum framan af bæði yfir Billy Graham stofnuninni og Pyngju Samverjans.  Það var mikil gagnrýni á hann hvernig hann gat sinnt þessum tveimur störfum auk þess sem launin voru há.   Hann hefur verið nátengdur Teboðshreyfingunni og Repúblikanaflokknum og stutt þann flokk, er þar á ysta hægri væng.  



Lífsgildi hans og afla sem hann styður eru ansi fjarlæg flestum Íslendingum. Þar sem trúarbrögð og stjórnmál tengjast á ógeðfelldan hátt. Því er það ansi skrítið að bjóða Graham að koma hingað og halda hátíð eins og hann kallar það þegar hann heldur sefjunarræður sínar. 

Ég þekki nú ekki mikið til Friðrikskapelluhópsins en samkvæmt netsíðu kapellunnar er margt skondið í mínum augum hvernig hann varð til. Þótt allt sé gert af góðum hug.  Lesið þetta: 

Dökkt ský yfir Íslandi: Biðjið







Bænasamfélagið í Friðrikskapellu varð til árið 2008 eftir mjög sérstakan aðdraganda. Tildrög þess voru þau að Ómar Kristjánsson, trúaður athafnamaður í Reykjavík, var í viðskiptaferð í Þýskalandi einu sinni sem oftar um vorið þetta ár og heimsótti þá Maríusystur í Darmstadt sem er lúthersk nunnuhreyfing er leggur mikla áherslu á bæn. Honum er mjög hlýtt til Maríusystranna og heimsækir þær oft á ferðum sínum.
kerti
Þegar hann var hjá systrunum í þetta sinn tjáði ein þeirra honum að Svissneskur maður sem var staddur hjá þeim vildi tala við hann. Ómar hafði aldrei séð manninn áður og vissi engin deili á honum. Hann reyndist vera athafnamaður eins og Ómar að nafni Willie Oehninger, mikill bænamaður með spádómsnáðargáfu sem fyrir löngu hafði sýnt sig að vera af Guði gefin enda naut hann mikils trausts hjá nunnunum. Þegar fundum þeirra bar saman sagðist Willie hafa mjög alvarlegan boðskap til hans og íslensku þjóðarinnar. Guð hafði sýnt honum að mjög dökk ský væru yfir Íslandi. Þau táknuðu að miklir erfiðleikar vofðu yfir þjóðinni vegna hroka hennar og sjálfsupphafningar sem myndu leiða til mikilla efnahagsþrenginga. Hann sagði Ómari að fara heim til Íslands og kalla saman leiðtoga í kirkjum landsins til að koma saman og biðja fyrir þjóðinni og ákalla Guð að hann sneri við hag hennar.
Síðar þegar Willie kom í heimsókn til Íslands sagðist hann að hann hafi átt mjög erfitt með að ganga til Ómars og segja honum þessar fréttir. Fyrst þegar honum fannst Guð minna sig á þetta reyndi hann að bægja því frá sem ómerkri hugdettu en hann fékk ekki frið fyrir því. Hann þekkti Ísland ekki neitt og hafði aldrei komið þangað. Til að gera þetta auðveldara bað hann Maríusystur um að hafa milligöngu um að hafa samband við Ómar.


Bænastundir hefjast


Mikilvægt er að hafa í huga að þetta samtal átti sér stað vorið 2008, áður en bólaði á efnahagsþrengingum á opinberum vettvangi á Íslandi og hagur þjóðarinnar virtist standa í miklum blóma. Ómar varð undrandi á boðskapnum en skynjaði strax alvöru hans af því hvernig Willie talaði við hann og skynjaði að honum var mikið niðri fyrir. Ómar einsetti sér strax að hlýðnast því boði að kalla saman leiðtoga kirkjunnar þegar heim kæmi og hafði samband við yfir tuttugu manns og bauð þeim á skrifstofuna sína til að segja þeim frá boðskap Willies og öllum málsatvikum. Sat hann með hverjum og einum í meira en klukkutíma og spurði þá hvort þeir vildu taka þátt í að koma saman sex sinnum og biðja fyrir þjóðinni og enda á því að koma fram á sjónvarpsstöðinni Ómega þar sem beðið yrði fyrir þjóðinni í beinni útsendingu. Allir brugðust vel við þessari málaleitan. Ákveðið var að bænastundirnar færu fram í Friðrikskapellu við Hlíðarenda því að hún var talin mjög hlutlaus staður.
Friðrikskapella
Fyrsta bænastundin fór fram þriðjudaginn 14. ágúst. Fyrstu samverurnar hófst með dýrindis hádegisverði frá veitingahúsi úti í bæ sem Ómar bauð upp á.
Vel var mætt á bænastundirnar sem voru alvöruþrungnar. Flestir voru undrandi á boðskap Ohningers og sennilega voru sumir í vafa hvort hann væri örugglega ekta. En fólk tók ekki áhættuna á að hann væri ósannur og skella skollaeyrum við honum. Það kom saman og bað af hjartans einlægni fyrir þjóðinni. Og svo kom hrunið! Ég held að enginn hafi átt von á því að spádómurinn myndi rætast svo bókstaflega og að afleiðingarnar yrðu svo miklar sem raun bar vitni. Mikil eining myndaðist fljótt í hópnum og bræðralag og þegar sá tími var liðinn sem samið var um í upphafi vildi fólk halda áfram að hittast og biðja fyrir þjóðinni og sumarið 2011 átti samfélagið þriggja ára afmæli.

Já, lesendur góðir, það er ýmislegt sem maður skilur ekki í störfum kirkjunnar, eins og dæmin sanna seinasta áratuginn.  Hvort þessi hópur sem stendur að þessu boði til Bill Graham stofnunarinnar tilheyrir einhverjum öfgahópi innan kirkjunnar veit ég ekki. En það að velja svo umdeildan prédikara til að koma hingað sýnir ákveðna þröngsýni eða vankunáttu. Það þarf nú ekki nema að blogga í klukkutíma til að sjá að meginþorri kristinna manna hérlendis getur ekki fallist á skoðanir þessa manns.  Harða bókstafstrú þar sem Biblían er tekin sem heilagur sannleikur í einu og öllu þar sem ekki er viðurkennd nútíma túlkun á þeim atburðum og hugmyndum sem þar er sagt frá.   Það eru líka til aðrir heimshlutar þar sem trúin er ekki gerð að skemmtiatriðum og fjárplógsstarfsemi. Væri ekki eðlilegra að sækja erlenda fyrirlesara og prédikara þangað? Mér finnst að frjálslyndir trúaðir kristnir menn eigi ekki að láta valta yfir sig með þessum hætti.  Eða eru þeir kannski ekki til?