miðvikudagur, 7. mars 2018

Siðferðislegt hrun forystusveitar VG

Tvær fréttir:Siðferðislegt hrun forystusveitar VG. Stórsigur uppreisnarhreyfingar í Eflingu. Á sama degi. 

Ég yfirgaf Samfylkinguna  þegar svipað ástand  réð ríkjum þar og nú í VG og gekk til liðs við VG. Tók sæti á lista, var á öflugum landsfundi þar sem allt annað var upp á  borði en þjónkun við Íhaldið í landinu.  Nú er ég á förum. Flokkur sem lokar augum fyrir spillingu og heldur að hann geti verið bjargvættur landsins í samstarfi við XD og XB án þess að setja hnefann í borðið. Gefur grænt ljós á áframhaldandi óstjórn Dómsmálaráðherra, alræði Sjálfstæðisflokksins í dómsmálum, mannvonsku og skeytingarleysi í garð flóttamanna og útlendinga. Leyfir fjármálaráðherra að deila fé landsmanna til vina og vandamanna eftir geðþótta. Kemur í veg fyrir breytingar í sjávarútvegsmálum. Forsætisráðherrann verður fyrir vonbrigðum með 2 þingmenn sem leggja siðferðislegt mat á stjórnmál. Þvílík ósvinna!

Svo var það Efling. Ég bjóst svo sem ekki við kraftaverkum. En .... það kraumar víða. Svo sigur Sólveigar Önnu og félaga er í samræmi við það. En nú byrjar lífið hjá henni. Og baráttan .... Það er ekki auðvelt að vera Leiðtogi fólksins, kröfurnar eru miklar.

Já lesandi góður, ég er á förum, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki ríkisstjórn mín, ég beið eins og margir til að sjá hvað gerðist, hvort kraftaverk gerðust. En þau eru ekki algeng eins og við vitum. Og Jesúsar eru ekki á hverju strái.