Þáttur á Rás 1 núna Bak við stjörnurnar, þegar ég sit við tölvuna, líklega sá seinasti, stjórnandinn rekinn. Það hlustar enginn á klassíska músík. Ég hef hlustað mjög oft á þennan þátt, ég er þessi enginn. Oft ansi góð pianótónlist,og ýmislegt annað, í seinustu viku var það Jonas Kaufmann sem söng, Íslandsvinurinn góði, diskurinn sem ég hef spilað seinustu mánuði, Verdi. Í kvöld er það Britten en það er 100 ára minning hans núna. Ég gleymi aldrei þegar ég heyrði Stríðssálumessu hans, ég var unglingur, keypti plöturnar í pötubúðinni dásamlegu á Hverfisgötu. Ég man ekki lengur hvað hún hét, plötubúðin. Þar keypti ég margar góðar plötur og þroskaðist. Núna verður Arndís Björk Ásgeirsdóttir ekki lengur á vaktinni, hún kynnir ekki oftar Sinfoníutónleika, það eru engir sem fara á Sinfó, bara 1500 -3000 manns, henni var sagt upp í dag.
Karl kom til starfa í Kastljósi, hann var óþolandi svo Stöð 2 gat ekki notað hann, sannleikurinn var eitthvað sem hann tók alvarlega. En hann yljaði okkur í nokkra mánuði, ræddi um alvarleg mál og óþægileg, ég horfði á hann í gærkvöldi ræða um síld og K0lgröf. Nú er hann ekki lengur, honum var sagt upp í morgun. Það var enginn sem horfði og hlustaði á hann, eða hvað?
Ein kona hefur haldið uppi Djassinum seinustu árin í útvarpinu. Spilað Miles, Coltrane, Mingus,Mitchell, Blue Note, Horace Silver, íslenska snillinga, Sunnu, Óskar, Ómar, Sigga Flosa og svo framvegis. Nú spilar hún ekki oftar. Lana Kolbrún Eddudóttir var rekin. Ég hlusta oft á þáttinn hennar, ég er þessi enginn. Einu sinni sá ég hana skríða um gólf í Smekkleysu þegar hún var neðarlega á Laugaveginum beint á móti Mál og Menningu hinum megin við götuna og skoða diska. Hét hún þá Smekkleysa, búðin? Þetta var konan semég hafði bara heyrt í útvarpinu. Þekkti röddina. Mér þótti þetta stórmerkilegt. En nú verður hún ekki meira. Hún
var rekin.
Tvær konur hafa í mörg ár haldið uppi barna- og unglingaþætti á RUV 1. Önnur þeirra er gamall nemandi minn, skemmtileg og lifandi kona. Nú er engin þörf fyrir barnaefni í útvarpinu. Það er svo mikið um það á Bylgjunni! Og útvarp Saga. Brynhildur Björnsdóttir er ekki lengur í dagskrárgerð. Henni var sagt upp.
Það verður að reka fólk þegar það eru ekki til peningar. Jafnvel þótt fólkið sem útdeilir peningunum vilji ekki fá peninga frá þeim sem eiga peninga. Þeir sem eiga peninga eiga að ávaxta peninga sína, eins og þeir vilja. Þeir eiga og mega eins og Hannes Smára sagði. Við eigum ekki að taka peninga frá þannig fólki. Við sem erum engin eigum að gera ekki neitt. Við erum engin.