sunnudagur, 12. október 2014

Jón Steinar gefur út bók og aðrar furðusögur



Ég hlustaði á skemmtilegt viðtal á föstudagsmorgun við Helgu Völu Helgadóttur, lögfræðing og báráttukonu.  Það var ansi lífgandi, viðtölin hjá Sigurlaugu Jónasdóttur er misgóð, svo virðist hún svo oft ræða við fólk sem ég hef lítinn áhuga á að heyra, stundum eitthvað sem tilheyrir einhverjum nýaldarhugmyndum, ekki beint mitt svið.  Oft eitthvað sem ég átta mig varla á hvers vegna sumir eru komnir í viðtal í RUV1.

En þetta spjall við Helgu Völu, vakti mann upp á föstudagsmorgni.  Hún virðist koma til dyranna eins og hún er klædd.  Talaði óvægilega um agaleysi okkar Íslendinga.  Þótti skrítið, þegar hún byrjaði lögfræðinám á fertugsaldri, hve samnemendur voru oft tillitslausir, mættu seint í tíma.  Sama virðist vera að gerast í starfi hennar sem lögfræðingur.  Margir mæta seint, gleyma jafnvel að girða upp um sig.  Það er viða agaleysið.

Svo má ekki gleyma að Helga Vala hefur vakið athygli fyrir starf sitt fyrir lítilmagnann, flóttamenn sem koma hingað og fá óblíðar móttökur af stirðu og þvermóðskulegu kerfi sem lítur oft á sig hafa þann eina tilgang að koma í veg fyrir að fólk fái landvistarleyfi hjá okkur.   Það eru ekki margir lögfræðingar sem vilja vera þekktir sem talsmenn þessa hóps.  Því kunnum vi mörg að meta það starf.  Sem betur fer. 

Annar lögfræðingur kom sér fyrir í Kastljósinu í seinustu viku:  Jón Steinar Gunnlaugsson, nýútkomin bók þar sem hann á að vera með óvæga gagnrýni á Hæstarétt fyrrum vinnustað sinn í 10 ár. Ég get ekki sagt það að lögfræðiferill Jóns valdi mér svo sem einhverri hrifningu.  Hann var fylginn sér sem verjandi fólks fyrir dómi, vann þar marga sigra.  Ekki hef ég neina vitneskju um hvaða fólk leitaði til hans.  En seinni árin hefur hann haldið uppi skoðunum og hugmyndum sem eru fjarri mínum hugmyndaheimi.  Ég gef ekki mikið fyrir mann sem skrifar nafnlaust bréf til að rægja og gagnrýna samstarfsfólk sitt í Hæstarétti, þeirri stofnun sem maður gerir kröfu til að sé vammlaus að öllu leyti.   Starfsvettvanguf þar sem siðfesta og virðing á að vera allsráðandi.

Nú er það svo að óprúttnir stjórnmálamenn hafa viljað hafa tök inn í Hæstarétt þar sem tekið er á ýmsum grundvallarmálum samfélags okkar í dómum hans.  Samanber val á Dómurum um hríð.  Þar sem vinavæðing og ætterni skipti máli. 
Ég verð að viðurkenna það ég hugsa alltaf um Jón Steinar í þeim anda. Þótt það blandist saman við að hafa kynnst honum í fótbolta í fram á unga aldri þar sem hann er oft á tíðum afskaplega viðfelldinn maður. En hann virðist ekki geta gert greinarmun á vináttu sinni við einstaklinga og starfssviði sínu sem Hæstaréttardómari.   Ef maður stendur frammi fyrir slíku, þetta gildir um fjölmörg störf þá á maður að vikja til hliðar ef starf   manns snertir  kunningja. Þarna virðist baráttuandi, keppnisskap hans leiða hann á ranga braut.  Þegar þetta blandast saman við hæfilegan skammt af íhaldssemi þá er útkoman ekki góð. 

En lesandi góður,  í mörgum störfum er það þannig að grundvallarhugmyndir manns um mannlífið leiði mann til að velja sér starfsvettvang  þar sem maður tekur afstöðu.  Þá speglast hvort manngildi eða þröng eiginhagsmunahyggja og sérhagmunir ráða ferðinni.  Það speglast í því sem maður skrifar og talar um.

Þess vegna held ég að bók Jóns Steinars verði ekki eina af jólabókum mínum í ár.