Knéfiðla er merkilegt orð, en á vel heima í flokki strengjahljóðfæranna, Fiðla, Lágfiðla, en hvað orð er notað fyrir bassa, Kontrabassa? Ég man ekki eftir neinu orð, það gæti ef til vill verið Stórfiðla. Oftast notum við samt ekki orðið Knéfiðlu, við segjum bara Selló, alþjóðlega orðið.
Á sunnudagskvöldið voru merkilegir tónleikar í Norðurljósasal Hörpu, þar lék Bryndís Halla Gylfadóttir þrjár Sellósvítur nr. 3,4 og 5 eftir meistara Jóhann Sebastian Bach. Sellósvíturnar eru 6 og hinar 3 hafði hún leikið fyrir ári síðan í sama sal. Þetta var á vegum Kammermúsíkklúbbs Reykjavíkur sem er félagsskapur áhugamanna um kammermúsík eða Stofutónlist eins og það er oft kallað á íslensku. Klúbburinn efnir til tónleika 4-5 sinnum á ári.
Það er ekki sú sama tilfinning að hlusta á hin ýmsu hljóðfæri. Sellóið svona eitt og sér eins og í svítum Bachs er hljóðfæri sem skilar svo skrítinni tilfinningu, eitthvað sem nálgast guðdóm eða eilíbbð jafnvel fyrir trúlausa manneskju eins og mig. Hljómurinn er oft eins og heil hljómsveit, að horfa á eina manneskju glíma við þessi undraverk er líka eitthvað sem maður upplifir ekki svo oft. Meistari Halldór Laxness reyndi að svara þessari spurningu forðum þegar hann fjallaði um leik Erlings Blöndal Bengtsonar á svítunum þegar þær voru fluttar í Ríkisútvarpinu: "Hverju fá orð aukið við þetta verk? Hver tjáir þessi einfalda og stórbrotna tilraun í laglínu sem er um leið svo óhemjulega smágerð og nær
Þó grant sé hlustað æ ofaní æ, og þó undrun og aðdáun þess sem hlustar verði æ því meiri sem hann hlustar lengur, þá heldur þó aðalatriðið að vera jafn óuppgötvað og það er óumræðilegt. Menn geta sosum reynt að svara í orðum, og það hefur sjálfsagt oft verið gert, en ætli flest svörin verði öllu meira en endurtekning, að breyttu breytanda, á svörum við gömlu spurningunni: til hvers er sólin túnglið og stjörnurnar" Að hlusta á þessi verk er barátta við óendanleikann, tilvist mannsins í himingeiminum.
Á sunnudagskvöldið 25. janúar 2015 var troðfullur salur sem sá sér fært að koma og hlusta á dulmagnaða glímu Bryndísar Höllu við þennan hápunkt tónsköpunar. Það sem gerði þetta enn áhrifaríkara að listamaðurinn var auðsjáanlega veik þetta kvöldið, oft þurfti hún að snýta sér á milli þátta. Hún þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum. Og flutningur hennar var einstakur. Tónninn kraftmikill og sannur, valdið á hljóðfærinu algjört. Listamaðurinn var ákaft hyllt í lokin og allir fóru mettir heim. Það verður spennandi að hlusta á þetta heima þegar þetta verður gefið út á diskum og plötum. Ég hlakka til.