sunnudagur, 21. júlí 2013

Brynjar Níelsson: Einkavæðing eða ekki?

Brynjar Níelsson virðist hafa skapað sér sess sem helsti talsmaður einkaframtaks eftir að Hannes Hólmsteinn varð uppvís að alls kyns prettum svo að fáir taka hann alvarlega.    

Brynjar vantar rök fyrir tilvist RÚV, segir að það hafi fáir komið með haldbær rök: Um leið virðist hann einblína á það sem hann kallar fréttamiðil:

Útvarpstjóri spurði hvort ég vildi að allir fréttamiðlar væru undir stjórn Davíðs Oddssonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Afskaplega eru það nú klén rök fyrir tilvist RÚV á kostnað skattgreiðenda. Ekki eru nú fréttamiðlar þeirra kumpána lakari en sá sem heyrir undir útvarpsstjóra. Þar að auki mætti gera ráð fyrir fleiri fréttamiðlum kæmu fram hætti ríkið að reka RÚV.


Nú er það þannig í skoðanakönnunum um traust á fréttaflutningi hefur RÚV árum ef ekki áratugum saman skarað fram úr að mati landans.  Svo gæðarökin í sambandi við fréttaflutning standast ekki. Og ef fleiri fréttamiðlar kæmu til sögunnar myndu þeir telja sig hafa tækifæri að vera með vandaðri fréttaflutning?    

Við höfum reynslu af einkareknum fréttamiðlum að þeir treysta sér á engan hátt að vera með þá fjölbreytni í efni sem tíðkast hefur hjá RÚV.  Fréttskýringar, fréttir um listir og menningu, fréttamenn víða um heim og svo framvegis.   En ég ætla að taka hér að neðan nokkra þætti sem þarf að ræða í samhengi við rekstur ríkisfjölmiðils.   Auðvitað er hægt að hætta með RÚV, þá verða menn að greiða afnotagjöld annars staðar, það erum við sem höfum ákveðið að hafa öll okkar viðskipti við RÚV.  Svo það er ekki beinn sparnaður við fjölskyldur í landinu.  En sumir kalla þetta frelsi, að fá að velja sjálfur.

Hér fyrir neðan tek ég nokkra þætti sem mér finnst skipta máli í rekstri ríkisfjölmiðlis:  

Menningarlegir, Þjóðlegir,Efnislegir, Öryggislegir, Sögulegir:  


Reynslan hefur sýnt okkur að fjölbreytt menningarumfjöllun og ræktun, tónlist (allar tegundir), bókmenntir, myndlist, kvikmyndir, hefur ekki átt sér stað á einkreknum fjölmiðlum.  Þetta hafa stærri þjóðir en við séð og hafa haldið áfram að reka ríkisreknar stöðvar.  Við þurfum ekki að líta á annað en RÚV  1 hjá okkur. Slík stöð yrði ekki rekin í einkarekstri.  Í heimi alþjóðavæðingar þegar við höfum aðgang að öllum heiminum í gegnum netið þá á margt sem einkennir bara okkur Íslendinga undir högg að sækja, það verðum við að hafa í huga  og ekkert skammast okkur fyrir þótt sumir vilji beita þessum þætti í annarlegum tilgangi.  Það er margt sem á erindi til minnihlutahópa og á aldrei tækifæri í einkageiranum, öryggisþátturinn hefur oft verið í umræðunni og að lokum tek ég þann sögulega.  Ríkisútvarp hefur verið farsælt hjá okkur frá upphafi og því eru ákveðin söguleg rök fyrir rekstri sterks ríkismiðils.  Þar sem ríkir meira frelsi í dagskrárgerð .  Ríkisútvarpið stefndi í þá átt með því að minnka þátt stjórnmálamanna og flokka í stjórnun og í staðinn að hafa í stjórn fulltrúa þeirra  sem koma að rekstri og dagskrárgerð og flutningi. En nýja stjórnin þurfti auðvitað að eyðileggja þá hugmynd með afsökun um eignarhald.  Að eiga er að mega.

En þegar upp er staðið verður afstaða okkar alltaf á þann veg hvort við eigum að láta alla þætti lífs okkar stjórnast af peningum og eignarhaldi. Við getum skorið niður alla þætti sem hafa að gera með listir og menningu.  Svo verður hver og einn að ákveða hvort það geri okkur hamingjusamari og þjóðfélag okkar gæfuríkara. Er það ríki fullkomnast þar sem minnstir skattar og gjöld eru lögð á almenning.  Til reksturs, heilbrigðisþjónustu, velferðar og menningar.  

Það er stóra spurningin.