miðvikudagur, 30. september 2015

Gyðingar: Rosenstrasse, þá og nú


Í fyrra gisti ég á hóteli í Berlín, Hotel Alexander Plaza.  Ágætu hóteli, alveg miðsvæðis í Berlín. Þessari miklu höfuðborg Þýskalands. 


Í nágrenni við hótelið var minnismerki um einn atburð tengdan sögu Gyðinga í þessari borg. Á hótelinu sjálfu var myndasýning sem sýndi þróun byggðar og sögu umhverfis hótelið.  Fróðleg og merkileg smásýning.  Þarna hafði Gyðingum sem voru giftir „ þýskum" mökum, verið
smalað og undirbúinn brottflutningur á þeim eitthvað í Austur eins og þeir sögðu sjálfir. Þessi söfnun átti eftir að verða harla óvenjuleg í sögu Nazismans. 

Í gær fór ég á viðtal og kynningu í Norræna húsinu á ævi og starfi þýska kvikmyndaleikstjórans Margarethe Von Trotta.  Við höfðum ekki ætlað að fara en sonur okkar Gísli fékk okkur að koma með sér.  Þetta var einstaklega skemmtileg kynning stjórnað af list af einum af okkar kvikmyndagerðarmönum Elísabetu Rónaldsdóttur.  Sem hefur getið sér gott orð sem snilldar klippari (editor) í kvikmyndaheiminum.  

Ég hef séð nokkrar myndir eftir Von Trotta.  Sú áhrifamesta var Die Bleiernde Zeit, sem fjallar um örlög terroristanna þýsku á 8. áratug seinustu aldar.  Svo hafði ég seinna séð í sjónvarpinu Rosenstrasse, sem ég tengdi ekki við þessa litlu götu í Berlín fyrr en núna.  Von Trotta kom inn á þessa mynd í spjallinu í gær, hún er sérfræðingur að stinga á viðkvæmum kýlum þýsku þjóðarinnar, terroristum, nazistum, kommúnistum og konum!  Svo við drifum okkur í Bío Paradís í gærkvöldi þar sem sýnd var einmitt þessi mynd, Rosenstrasse.  Það var merkilegt að sjá hana aftur í kvikmyndahúsi, það er allt annað en að sitja heima í stofu.  Að sjá örlög þessa fólks á stað sem maður hefur dvalið á.  Eftir að hafa komið á söfn og merkisstaði í borginni sem tengjast sögu Gyðinga. Sagan verður svo nær manni, nútíminn býður líka upp á svo fjölbreytilegar hugsanir, á tímum flóttamannabylgju og baráttu Palestínumanna fyrir frelsi undan áþján Ísraelsríkis.  Svo höfum við fengið smjörþefinn af þessum deilum, vegna viðskiptabanns Reykjavíkurborg.  

Svo lesendur góðir, ég hvet ykkur til að sjá þessa mynd og hugleiða þessa atburði sem enn eiga svo djúpan aðgang að hjörtum okkar.  Það er oft svo hættulegt að við tökum svo ógrundaðar skoðanir hér uppi á kalda klakanum í allsnægtunum.  

Ég hef alltaf lesið mikið af bókmenntum Gyðinga, ég rakst á Chaim Potok á unglingsaldri sem höfðaði mikið til mín.  Síðan eru ótal höfundar sem ég hef lesið, Bellow, Auster, Malmud, Roth, Heller, Doctorow og Spiegelman, svo ég nefni nokkra.  Merkastur er nú, Singer, Isak Basevus Singer.  Þegar við bjuggum í Uppsölum fyrir nær 40 árum.  Hittum við Singer í bókabúð þar í borg en hann áritaði bækur þar.  Það var merkilegt að sjá þennan háaldraða mann sem hafði augnaráð sem nam allt í kringum sig.  Hann sá að kona mín var ólétt svo hann óskaði henni heilla í fæðingunni.  Enda gekk allt vel. 

Það er gaman að hitta stór leikstjóra augliti til auglitis, í ár Von Trotta, í fyrra Mike Leigh.  Svo er Cronenberg einhvers staðar út í bæ um þessar mundir.  RIFF hátíðin kemur ýmsu góðu til leiðar.  Takk fyrir mig.