þriðjudagur, 13. ágúst 2013

Ísland: Dómdagsspár og veruleiki

Bregst ekki við  dómsdagsspám segir sjálfur Fjármálaráðherrann.  Það eru ekki margir mánuðir síðan hans líf gekk út á að dæla út endalausum dómdagsspám í sama anda og kemur fram í ummælum pistlahöfundar CNN .  Honum tókst meira að segja að fá landsmenn til að trúa að hann hefði lausnirnar sem gerði allt betra og ótrúlega margir ginu við þeim málflutningi.

En nú eru aðrir tímar, erfiðir tímar, segir hann, það sagði hann ekki fyrir skömmu síðan.  Þá var allt seinustu ríkisstjórn að kenna.  En hver er staða okkar?   Hefur eitthvað áunnist?   Er þetta bara allt blekking?  

Við getum borið okkur saman við aðra.  Þar höfum við OECD, hvað segja sú stofnun um okkur?  Hér að neðan eru helstu niðurstöður sem eru teknar beint af vef Fjármálaráðuneytisins.   Þar eru ábendingar og farið yfir stöðuna.  Ýmislegt hefur áunnist en margt eftir að gera.   Ríkisfjármál eru á réttri leiðMikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt. Segir í skýrslunni.  
Þar er líka talað um  gjaldeyri og fjárhagshömlur, verðbólgu og verðtryggingu. Grænn hagvöxtur hefur verið á réttri leið. 

Svo getum við líka borið okkur saman við helstu viðskiptaþjóðir okkar, hver er aukning eða minnkun Landsframleiðslu okkar miðað við þær.  Það eru margir sem halda að allt sé í blóma í kringum okkur á Norðurlöndum en svo er nú ekki. Við lifum í heimshluta stöðnunar.  Ég tek tölur fyrir 2012 og 2013.

Ísland                         1.6     1.9
Austurríki                  0.8     0.5
Þýskaland                   0.9     0.4 
Danmörk                   -0.5     0.4
Noregur                     3.2      1.3 
Finnland                    -0.2     0.0
Bretland                      0.3     0.8
Frakkland                   0.0    -0.3
Lúxemborg                 0.3      0.8

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig nýju valdamennirnir takast á við þennan veruleika.  Ég er nú ansi smeykur.   

    


Helstu niðurstöður (lausleg þýðing úr skýrslu OECD)


Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu

  • Slaki er viðvarandi í peningastefnunni þótt framleiðsla sé aftur að ná langtímaleitni og verðbólga sé enn yfir markmiði.
  • Innlend eftirspurn hefur dregist saman á aðlögunartímabilinu, sérstaklega fjárfesting fyrirtækja og heimila, á sama tíma og útflutningur hefur stóraukist. Heildareftirspurn er nú í meiri takt við heildarframboð og samsetning hennar er ásættanlegri.
  • Skuldir heimilanna hafa lækkað en eru enn miklar í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir meiriháttar afskriftir. Vanskil hafa minnkað en mörg tekjulág heimili, þ.m.t. þau sem ekki eiga húsnæði sitt, eiga enn í erfiðleikum með að sjá fyrir nauðþurftum og borga af skuldum. Frekari endurútreiknings gengistryggðra lána er að vænta.
  • Bankarnir eru að auka útlán sín til heimila (sem eru að hluta til að endurfjármagna lán frá Íbúðalánasjóði) en fyrirtæki telja sig eiga í erfiðleikum með að fjármagna sig.

Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki

  • Þjóðhagsvarúð er ekki beitt nægilega til að tryggja fjármálastöðugleika.
  • Þess eru merki að fjármagnshöft valdi efnahagslegu misvægi.
  • Verðbólgumarkmið hefði skilað betri árangri ef því hefði verið fylgt eftir með skilvirkum varúðarreglum og eftirliti.
  • Ekki er nægileg samræming og samskipti meðal aðila er móta peningamálastefnuna og þeirra er sinna eftirliti með fjármálakerfinu þar sem ábyrgðarhlutverk og umboð eru ekki nægilega vel skilgreind.

Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs

  • Mikið hefur áunnist í að koma ríkisfjármálum í jafnvægi. Hlutfall ríkisskulda af vergri landsframleiðslu hefur lækkað, en er enn hátt.
  • Áhersla hefur til þessa verið á að auka tekjur og skera niður opinberar fjárfestingar í stað almennra rekstrarútgjalda. Slík áhersla eykur hættu á að jafnvægi náist ekki til lengri tíma.
  • Ráðgert er að leggja frumvarp um opinber fjármál fyrir þingið fyrir lok þessa árs en það á að stuðla að auknum aga í ríkisfjármálum og bæta umgjörð fjárlagaferlisins.
    Skilvirkni ríkisútgjalda
  • Ríkið endurskoðar ekki útgjöld sín á kerfisbundinn hátt, þótt slík endurskoðun gæti verið gagnleg við að auka skilvirkni og hagkvæmni í ríkisrekstri.
  • Mest er hægt að auka skilvirkni á sviði menntunar, þar sem uppsöfnuð útgjöld á nemanda eru mjög há en árangur í meðallagi, og í heilbrigðisþjónustu þar sem þjónusta sérfræðinga og notkun greiningartækja er mikil.

Grænn hagvöxtur

  • Ísland er á réttri leið við að ná settum markmiðum varðandi Kyoto-skuldbindingar, en verðmyndun á losunarheimildum er of veikbyggð til að hún nái að mæta framtíðarmarkmiðum.
  • Raforkuframleiðslugeta hefur verið aukin til að mæta þörfum aukins útflutnings (aðallega á áli) en auka þarf arðsemi og tekjur af raforkusölu.

Helstu ábendingar

Endurheimt jafnvægis í efnahagslífinu

  • Auka aðhald í peningastefnu eftir því sem efnahagslífið nær sér til þess að ná verðbólgumarkmiði og til að draga úr verðbólguvæntingum.
  • Beina aðgerðum í skuldamálum heimilanna að heimilum í fjárhagserfiðleikum til að draga úr vanskilaáhættu á sem skilvirkastan hátt. Leggja niður vaxtabætur og taka þess í stað upp niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði fyrir tekjulág heimili til að draga enn frekar úr fjármálastreitu, draga úr mismunun í búsetuúrræðum og hvetja íbúðaeigendur til að auka eiginfé.
  • Afnema ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði þegar fjármál heimilanna eru aftur komin í jafnvægi og draga þannig úr hvata til aukinnar skuldsetningar.
  • Halda hárri eiginfjárkröfu á viðskiptabankana og stuðla þannig að áframhaldandi endurskipulagningu skulda fyrirtækja.

Gjaldeyrishömlur, rammi peningamálastefnu og fjárhagsstöðugleiki

  • Beita þarf þjóðhagsvarúðartækjum, svo sem veðþaki á útlánastarfsemi, til að tryggja fjármálastöðugleika, draga úr útlánasveiflum og styðja við peningastefnuna.
  • Miða áætlun um losun fjármagnshafta við aðstæður.
  • Verðbólgumarkmiði verði fylgt eftir losun hafta með flotgengi. Dregið verði úr sveiflum með inngripi á gjaldeyrismarkaði.
  • Styrkja samstarf og samhæfingu eftirlitsstofnana. Skýra ábyrgð og umboð þeirra til að sinna skyldum sínum að viðhalda fjármálastöðugleika.

Endurheimt á jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs

  • Tryggja þarf að jöfnuður náist 2014 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og að 2% afgangur verði árið 2015 til að skapa svigrúm fyrir niðurgreiðslu skulda. Skapa þarf svigrúm til aukinnar fjárfestingar hins opinbera með auknu aðhaldi í rekstri.
  • Gera tímasetta áætlun um niðurgreiðslu skulda til að auka gagnsæi og trúverðugleika.
  • Ný lög um opinber fjárlög verði samþykkt á þingi til að auka aga í ríkisfjármálum.

Skilvirkni ríkisútgjalda

  • Endurskoða útgjöld ríkisins til að ná fram aukinni hagkvæmni og skilvirkni. Tryggja þannig betri nýtingu fjármuna.
  • Stytta skólagöngu á grunnskólastigi og á framhaldsskólastigi, til að auka hagkvæmni og skilvirkni í menntakerfinu.
  • Efla heilsugæslustigið og taka upp tilvísanakerfi til að draga úr sérfræðikostnaði og kostnaði við rannsóknir með dýrum greiningartækjum.

Grænn hagvöxtur

  • Breikka stofninn fyrir kolvetnisskatt og hækka hann til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Auka raforkuvæðingu til útflutningsgreina (sérstaklega til orkufrekra greina) ef viðunandi arðsemi næst. Skattleggja skal auðlindarentu.
  • Draga úr áætlaðri hækkun á sérstöku auðlindagjaldi á sjávarútveginn, sérstaklega botnfiskveiðar, þannig að atvinnugreinin standi undir því.