laugardagur, 21. desember 2013

Pistlar, blogg og tónlist

Ég held að ég verði að segja eitthvað skemmtilegt í dag, Þótt mörgum sé ekki gaman í huga.  Að fá aftur íhaldsstjórn af gamla nýfrjálshyggjuskólanum, sem vill færa ótal hluti aftúr á bak í tímanum.  Þar sem hugmyndafræði Chicago skólans ræður ríkjum.  Sem stefnir að því að hinir ríku verði ríkari og aðrir fátækari. Það þýðir samt ekki að sökkva í kviksyndi depurðinnar þá verður fljótlega allt búið.  Það verður að takast á við þess djöfla!!! 

En, hlustendur góðir ég ætla að ræða um pistlahöfunda og bloggara sem ég hef gaman að.  Lokst svolítið um tónlist sem gleður mig. Í morgun las ég pistil Pavels í Fréttablaðinu um Útkastarann en þeir halda sig á fleiri stöðum en á börunum. Sérstaklega fá útkastararnir í Útlendingastofnuninni sinn skammt, ef  það er satt sem hann segir um stjórnsýsluna þar þá er kominn tími til að gera eitthvað.  Varla verður það í ráðherratíð Hönnu Birnu.   Pavel er dæmi um pistlahöfund sem er skemmtilegur og fær mann til að pæla í vanahugsunum manns, samt er ég ekki sammála um dýpstu gildi samfélagsins. En það er allt í lagi, maður tekst á við hann í huganum um leið og maður les hann.  Þeir eru fáir orðnir góðir pistlahöfundar í Fréttablaðinu, þeir þurftu að losa sig við ein skemmtilegasta sem kom manni oft á óvart, Einar Má Jónsson, bróður Megasar. Gunnar Smári er oft góður í Fréttatímanum og sumir fréttamenn DV eru ígildi góðra pistlahöfunda.  Það er eini fjölmiðillinn sem er beittur í gagnrýni á spillingu og sora íslensks þjóðfélags.Ég vona að þeir fái tækifæri til að halda því áfram. Kastljósið beinir birtunni að mörgu óhugnanlegu en auðvitað er reynt að kippa tönnunum úr því og Fréttir og Spegillinn eru allt í einu 30 mínútur búið að skera niður 20 mínútur. Það verður að skera niður til að borga 15 milljónirnar hans Páls M.      

Bloggflóran er æði misjöfn og höfundarnir ætla sér ýmislegt með skrifum sínum.  Sumir vilja bara vekja athygli á sjálfum sér, aðrir á einhverjum málstað, þriðju vilja spúa sorpi yfir landsmenn.  Maður nær svona einhverri leikni að fletta þessu án þess að bíða tjón á sálu sinni.  Svo er alltaf eitt og eitt gullkorn inn á milli.  

Jónasi Kristjáns tekst alltaf að æsa einhverja landsmenn svo er hann sérfræðingu í ýmsum eins og Vigdísi Hauks.  En honum tekst aðdáanlega misseri eftir misseri að vera FÚLL Á MÓTI. Svo er það Egill sem ætlar alltaf að vera með sömu skoðun og margir aðrir og við vitum hvernig þá fer.  Svo er það hópur af skoðanamyndurum, Illugi J., Karl Th., Teitur A., og svo framvegis, æ ekkert sérstakir en með einn og einn góðan. Og Eva Hauks og Einar S. sem elska að vera með öðru vísi skoðanir en þau eru orðin ansi þreytandi.  Björn Valur fer oft í spor Jónasar enda víða illa liðinn en samt vinsæll með hnútukastið.  Loks vil ég nefna Ingimar K.H. sem er sannur og eflaust oft með svipaðar skoðanir og ég, það er ekki svo slæmt!!!   

Loks lofaði ég einhverju um tónlist á árinu.  Bestu tónleikar sem ég var á var flutningur á Goldberg tilbrigðunum í strengja útsetningu í Reykholti, þar sem svitinn lak af spilurunum á heitasta degi ársins, það var ógleymanleg stund.  Svo kom snillingurinn rússneski Rozhdestvensky 
og stjórnaði Sinfó einu sinni enn líklega í 3 skiptið eða 4.   Og kona hans spilaði píanókonsert Rimsky- Korsakoff.  Hann stjórnaði 10. Shostakovitsch ef ég man rétt. Það var líka magnað.   Svo man ég eftir flutningi á 2. strengjakvartett Bela Bartoks í flutningi Camerarctica sveitarinnar, það snart mig ansi mikið, svo og J. Brahms:          Strengjakvartett nr. 1 í c-moll op. 51,1, í kvartett Sigrúnar Eðvaldsdóttur, þar var frábær spilamennska með líklega okkar besta fólki.  Kammermúsíkklúbburinn skilar góðu starfi í Hörpunni í vetur, og í Janúar ætlar Bryndís Halla Gylfadóttir að spila Cellósónötur Bachs, það verður spennandi. Úr því að ég minnist á Bryndísi tengdadóttur mína verð ég að minnast á disk stjúpsonar míns Þórðar Magnússonar La Poesie sem inniheldur fjögur verk, Kvartett fyrir klarinett, fiðlu, selló og píanó.Það mótlæti þankinn ber, sem er umritun á sinfoníu fyrir 2 píanó,  
 Rapsódía fyrir kontrabassa og píanó svo og Saxófónkvartett. Þetta er yndislegur diskur sem verður betri við hverja hlustun. Það var geðvonskulegur dómur um þennan disk í Fréttablaðinu sem lítið er að marka.  Tryggið ykkur eintak og hlustið og sannfærist um gæðin!!! 
Í rokk tónlist hefur ýmislegt gott verið á ferðinni, ég hef lært að meta Hjaltalín sem er magnað band, svo hreif Emiliana Torrini mig með nýja diskinum.  Tónvefurinn Spotify gerir mann mögulegt að hlusta endalaust á góða tónlist, fyrir lítinn pening, og rifja upp gamlar perlur.  Ég hef kynnst á árinu Kurt Vile, Magnolia Electrical Co., Vampire Weekend og Grizzly Bear. Af eldri meisturum var nýi diskur David Bowies góður og endurútgáfa Bob Dylans á Self portrait, Another Selfportrait var besti diskur ársins hjá mér.  

Svo óska ég ykkur gleðilegra jóla, lesendur góðir, etið og drekkið í hófi og komið endurnærð til lífsins á ný...... það ætla ég að gera!!!