þriðjudagur, 31. desember 2013

Sinead O´Connor og Nýárskveðja ......

Sinead O´Connor á RÚV á gamlársdagsmorgni, það hefð nú verið flottara að sjá hana taka Prinsinn en það er Grant sem er tengdasonur Íslands svo hann fær að ráða. 

En mikið var gaman að sjá hana með dóttur sinni og tattúunum. Sinead hefur tekið marga skrítna lífsspretti, trúar ástar og hugmynda, hún er engum lík. 

 Á mínu heimili sameinuðust allir í aðdáun okkar á henni og Prince líka. Ætli þetta hafi ekki verið um 1990.  Hér fyrir neðan eru þrjú lög: Nothing Compares to You, lag Johns Grant Queen of Denmark og Silent night. 

Svo óska ég öllum gleðilegs nýárs.  Megið þið lifa í sátt við ykkur sjálf og aðra.  Ég hugsa að Sinead geti tekið undir þetta. Góðar stundir. 



Össur fær Framsóknarveiruna

og þá er ekki langt í genið.  Ég hef heyrt að fólk af Fremri-Hálsaætt sé ekki mjög veikt fyrir því.  Veit ekki hvað hefur komið fyrir þennan indæla dreng.  Það er eins og Framsóknarveiran herji
á hann með öllum sínum afleiðingum og krankleikum.  Hann er kominn í virkjanaliðið, hann elskar Sigmund Davíð, sver af sér að hann hafi verið í seinustu ríkisstjórn, ef hann var þar þá hlustaði bara hann á aðra með opinn munn.  Það er auðséð að það er engin Jóhanna til að halda í ólina á honum lengur Það væri fyndið að sjá Árna Pál draga hann á eftir sér!  Meira að segja næturbloggin gleðja mann ekki lengur enda ansi fá!!!. 

Það var nú munur á eitursmakkandi bloggum frá því í sumar eins og Prinsessan á bauninni þar sem ummælin um bakhluta Framsóknarflokksins fengu kílóin á manni til að dilla sér sjúklega. 

Skammur ferill nýrrar ríkisstjórnar hefur leitt í ljós þá gagnmerku staðreynd að í pólitísku tilliti virðist bakhluti nýs forsætisráðherra vera viðkvæmasta líffæri hans – og þar sem miðstöð tilfinningalífsins er staðsett. Einsog prinsessan á bauninni má hann ekki tylla sér niður þar sem arða er undir án þess að rjúka upp með kveinum yfir illri meðferð – og er þá gulur, blár og marinn.Sigmundur Davíð er líklega fyrsti forsætisráðherrann í 69 ára sögu lýðveldisins sem ekki má anda á án þess að hann hlaupi sífrandi í fjölmiðla með grátstafinn í kverkunum.


eða þetta 

Mér hló hugur í brjósti þegar Sigmundur var búinn að flytja kveinstafi sína af heimasíðu og feisbók yfir í Morgunblaðið, málgagn stórútgerðarinnar. Þar hæfði skel kjafti. Gagnkvæmar ástir enda vel staðfestar með tíu milljarða gjafabréfi ríkisstjórnar hans til stórútgerðarinnar sem henni þótti brýnna að ganga fyrr frá en uppfylla loforðin um skuldaniðurfærslur og líkn við þrautir leigjenda.

Hvað er að gerast á Vesturgötunni, Össur ????? Við heyrum
væmnar og ræfilslegar ellismellayfirlýsingar með yfirbragði Guðna Ágústssonar, Davíðs bankamilljarðalánanauts og Ólafs Ragnars Norðurpólsforseta.  Satt að segja er ég  bara miður mín, líf mitt er táradalur. Ég vil minn Össur til baka.   Og enga Framsóknarfjósslykt.  

sunnudagur, 29. desember 2013

Maður ársins: Hverjum ber heiðurinn??

Maður ársins.  Þetta hljómar alltaf eitthvað svo vafasamt.  Hvernig er hægt að kjósa slíkt eða velja slíkt. Samanborið þegar Obama fékk friðarverðlaun Nóbels eða Churchill fék bókmenntaverðlaun nóbels. 

Nú segir merkir menn að maður ársins hjá okkur sé formaður eins stjórnmálaflokks landsins.  Um leið eigum við að gleyma öllu sem þessi maður hefur gert seinustu árin.  Hvernig á að meta??? 

Hann stóð við loforð, ætli það þyki merkilegt af stjórnmálamanni, þótt það hafi ekki verið í samræmi við það sem hann hann hafði lofað. Hann fékk samstjórnarflokk sinn til að lúffa með smámál sem stjórnarandstaða hafði haldið fram. Hann var með fallegasta skópar ársins.  Þetta eru plússarnir.  

En við eigum að gleyma öllu öðru, frammistöðu hans fjögur seinustu árin stanslaus illyrða og glamuryrðaflaumur, kvart og kvein við gagnrýni, skipulagsleysi í ráðuneyti hans, vafasamt samstarf við forsetann sem er utan við ramma stjórnarskrár, draumaheimur ráðherrans utan veruleikans, eins og Walter Mitty. Hefur fært framsóknarflokkinn langt yfir á hægri vænginn.  Leyfir útlendingahatri og menningarfjandskap að vaða upp í flokk sínum. Nokkrir mínusar. 

Ég held að við eigum að hvíla stjórnmálamenn á þessu sviði.  Þótt Jón Gnarr sé sá eini sem kæmi til greina.  Maður sem þorði að fara nýjar leiðir.  Hugsar óhefðbundið.  Hefur ekkert tengst Hruninu sem ekki er hægt að segja um þann fyrrnefnda.  

En það er fjöldi fólks utan þessa geira sem á skilið að verða menn ársins.  Anita Hinriksdóttir , sem sveiflaði sér inn í þjóðarsálina, eins og forsetinn myndi segja.  Benedikt Erlingsson sem dansar um menningarsviðið eins og enginn annar, hneggjar og fær sér sopa úr pytlunni.  Starfsfólkið  á RÚV sem var sparkað, varð fyrir barðinu á menningarleysi Ríkisstjórnarinnar og þrælslund Páls Magnússonar.Sjúklingarnir á Ríkisspítalanum sem hafa ekki komist í aðgerð á árinu. Atvinnuleysingjarnir sem þurftu að bíða eftir desemberuppbótinni. Fréttamennirnir í Kastljósinu sem hleyptu af stað umræðunni um Kynlífsmisnotkunina sem var þagnarmál hjá okkur.  

Já, lesendur góðir, það væri gaman ef landinn gæti sýnt það sem hann hefur oft gert að velja sannkallaður alþýðuhetjur sem menn ársins.  Það væri gott í skammdeginu.


 
   

föstudagur, 27. desember 2013

Biskup: Þakklæti og mannkostir

Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi sem lýtur stjórn þeirra sem gert hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins, landi lýðræðisins. Því þó margt megi betur fara erum við þó hamingjubörn miðað við margar aðrar þjóðir. Við getum líka þakkað fyrir líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin og beðið Guð að líkna þeim sem þjást og stríða og stefna í faðm hans að leiðarlokum.

Þetta sagði biskupinn okkar á aðfangadagskvöld, góð ræða að mörgu leyti,og víða komið vð,  en þessi orð hennar sem ég vitna hér í  eru ansi óljós að mínu mati.  Vist erum við hamingjubörn að mörgu leyti, en hamingja felst ekki aðeins í því að hafa það gott.  Það felst líka í því að taka ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, hugsa um aðra og láta af hendi rakna það sem við getum, sýna rausn og átta sig á því að við getum gert mun meira en við gerum í dag.  Margir þeir sem hafa gerti Jesúm Krist að leiðtoga lífsins eru því miður oft fullir af hræsni og fordómum í garð þeirra sem minna mega sín eða tilheyra öðrum hópum en þeir. .  Það eru ekki trúarbrögð sem skera úr um mannkosti og siðprýði.



Það er fjöldi þátta í fari hvers manns sem skapar heilsteypta og  góða manneskju. Oft eru það ólíklegustu menn sem sýna þá eðliskosti þegar á reynir. Í Njálu var Bergþóra kölluð drengur góður.  Ætli höfundur Njálu  hafi ekki verið að hugleiða slíkt, og eflaust var ýmislegt í fari Bergþóru sem við mundum ekki samþykkja í dag.  Hver tími býður upp á ný sjónarmið.  



miðvikudagur, 25. desember 2013

John Grant: Okkur til sóma

Íslandsvinurinn góði, John Grant, er okkur aldeilis til sóma. Diskur hans Pale Green Ghost er víða í tölu bestu diska ársins hjá ekki ómerkilegri tímaritum en Mojo, Guardian og Uncut.  Með honum eru líka íslenskir tónlistarmenn, snillingurinn Guðmundur Pétursson. Jakob Smári bassaleikari, Arnar Ómarsson og Sigurður Bjarki sellóleikari  og  hljóðblandarinn góði, Biggi Veira!!

Já, lesendur góðir, þessir nýbúar koma mörgu góðu til leiðar, sumir halda að þetta séu bara óalandi sílepjandi sníkjudýr  Það er öðru nær.  Atvinnuhlutfall þeirra er yfirleitt hærra en landanna í löndum umhverfis okkur. Þar sem fólk hittist af ótal þjóðum þar er bjart og hlýtt !!!! Fjölmenningin blívur.

Það er gaman að lesa jákvæðar og lífgandi fréttir, listageiri okkar er lifandi sem aldrei fyrr.  Hvað sem yfirvöld gerar!!!  

þriðjudagur, 24. desember 2013

Jólakveðja

Kolniðamyrkur, vindurinn hvín, ljósin í blokkinni fyrir norðan húsið okkar lýsa upp, Aðfangadagur, skrítið að minnast fæðingar barns fyrir rúmlega 2000 árum.  

Við fáum enn eina vissu um smæð okkar í heiminum. Lægðir hamast í kringum okkur, margir verða lítið á ferðinni í dag.  Lengra í burtu ganga menn með byssur og drepa. Risastór vatnstankur safnast upp undir Grænlandsjökli.  Lífið er tilviljunum háð. 

Á svona degi er gott að hugsa til þess að eiga vini og ættingja.  Án þess erum við litil og hrædd. Á degi sem þessum er maður væminn og meir.  Ég óska öllum Gleðilegra jóla, etið ekki yfir ykkur, gætið hófs, njótið lífsins eins og hægt er.  


mánudagur, 23. desember 2013

Kjarasátt og Gylfinn er reiður. Skál !!!!

Það birtir af degi, 2. dagur hækkandi sólar, við gleðjumst. Eins og vera ber.  Nýir kjarasamningar líta dagsins ljós og Gylfinn er reiður, þvílíkt vanþakklæti.  Hann skilur ekki að ef menn semja um 2,8% eða 5% fyrir þá verst settu, verður eitthvað feitara að vera á beininu.  Það er varla núna.  Það þýðir ekki að semja um 10% það hefur eingöngu í för með sér grimma verðbólgu þar sem lánin okkar bólgna út.  Það verður að gera eitthvað annað og meira.

Fólkið vill eitthvað meira, sérstaklega þegar útgerðarmenn fitna og fitna, fá hálfan milljarð til að leika með.  Kaupa sumarbústaði og snekkjur handa börnunum.  Skilanefndir fá þrjátíu og eitthvað þúsundir á tímann.  Allir eiga að vera glaðir.  Það birtir af degi, Gylfinn er reiður, við eigum að taka SDG og BB í guða tölu. Olafur forseti mátar kórónu.  

Það verður að fyrirgefa þótt ég spili bara Nick Drake og sökkvi í depurð.  En það eru jól næstu daga, hangikjöt, kalkún og hryggur með öllu.  Bráður kemur  betri tíð, með hreindýrakjöti og skoskri rjúpu, og góðu rauðvíni sem sérfræðingarar fjölmiðlanna mæla með enda eru þeir sérfræðingar ríkisstjórnarinnar. .  

Gleymum því samt ekki að xD var með 50% í skoðanakannanafylgi árið 2000 nú er það 25%, breytingar geta gerst.  Það birtir af degi, mesta lægð aldarinnar er framundan. 

Skál landar skál.




sunnudagur, 22. desember 2013

Gylfi, Sigmundur og Bjarni dansa valdadansinn


Menn, misvitrir, keppast við að hrósa ríkisstjórninni að hafa náð samningi.  Það má segja það að það er gott ef samningur næst.  Það losar ýmsa við brjóstsviða og magabólgur.  En auðvitað er það Gylfi sem er Il Maestro.  Hann gat aldrei samið af viti við Jóhönnu og Steingrím, hann hafði sjúklegt hatur í þá átt. Ristilbólgur þjáðu hann á þeim árum. 

En það er allt í lagi að semja við íhaldið í landinu.  Það sem skiptir mestu máli að Lífeyrissjóðirnir komist sæmilega úr út þessum samningum.  Þess vegna eru engar kröfur um verðtrygginguna, Lífeyrissjóðir elska verðtryggingu.  Verkalýðshreyfingin þarf ekki að minnast á útgerðarmenn, nei, þeir eru góðir eins og Samherjamenn kasta hálfri milljón í liðið.  Þá er allt í lagi.  Og að semja fyrir flesta undir verðbólgu, það er flott. 

Svo Gylfi hjálpar xD og xB að dansa áfram valdadansinn,  Gylfi er svo góður, þjóðin elskar Gylfa.  Og kýs Sigmund Davíð mann ársins. 

Eða hvað????

laugardagur, 21. desember 2013

Pistlar, blogg og tónlist

Ég held að ég verði að segja eitthvað skemmtilegt í dag, Þótt mörgum sé ekki gaman í huga.  Að fá aftur íhaldsstjórn af gamla nýfrjálshyggjuskólanum, sem vill færa ótal hluti aftúr á bak í tímanum.  Þar sem hugmyndafræði Chicago skólans ræður ríkjum.  Sem stefnir að því að hinir ríku verði ríkari og aðrir fátækari. Það þýðir samt ekki að sökkva í kviksyndi depurðinnar þá verður fljótlega allt búið.  Það verður að takast á við þess djöfla!!! 

En, hlustendur góðir ég ætla að ræða um pistlahöfunda og bloggara sem ég hef gaman að.  Lokst svolítið um tónlist sem gleður mig. Í morgun las ég pistil Pavels í Fréttablaðinu um Útkastarann en þeir halda sig á fleiri stöðum en á börunum. Sérstaklega fá útkastararnir í Útlendingastofnuninni sinn skammt, ef  það er satt sem hann segir um stjórnsýsluna þar þá er kominn tími til að gera eitthvað.  Varla verður það í ráðherratíð Hönnu Birnu.   Pavel er dæmi um pistlahöfund sem er skemmtilegur og fær mann til að pæla í vanahugsunum manns, samt er ég ekki sammála um dýpstu gildi samfélagsins. En það er allt í lagi, maður tekst á við hann í huganum um leið og maður les hann.  Þeir eru fáir orðnir góðir pistlahöfundar í Fréttablaðinu, þeir þurftu að losa sig við ein skemmtilegasta sem kom manni oft á óvart, Einar Má Jónsson, bróður Megasar. Gunnar Smári er oft góður í Fréttatímanum og sumir fréttamenn DV eru ígildi góðra pistlahöfunda.  Það er eini fjölmiðillinn sem er beittur í gagnrýni á spillingu og sora íslensks þjóðfélags.Ég vona að þeir fái tækifæri til að halda því áfram. Kastljósið beinir birtunni að mörgu óhugnanlegu en auðvitað er reynt að kippa tönnunum úr því og Fréttir og Spegillinn eru allt í einu 30 mínútur búið að skera niður 20 mínútur. Það verður að skera niður til að borga 15 milljónirnar hans Páls M.      

Bloggflóran er æði misjöfn og höfundarnir ætla sér ýmislegt með skrifum sínum.  Sumir vilja bara vekja athygli á sjálfum sér, aðrir á einhverjum málstað, þriðju vilja spúa sorpi yfir landsmenn.  Maður nær svona einhverri leikni að fletta þessu án þess að bíða tjón á sálu sinni.  Svo er alltaf eitt og eitt gullkorn inn á milli.  

Jónasi Kristjáns tekst alltaf að æsa einhverja landsmenn svo er hann sérfræðingu í ýmsum eins og Vigdísi Hauks.  En honum tekst aðdáanlega misseri eftir misseri að vera FÚLL Á MÓTI. Svo er það Egill sem ætlar alltaf að vera með sömu skoðun og margir aðrir og við vitum hvernig þá fer.  Svo er það hópur af skoðanamyndurum, Illugi J., Karl Th., Teitur A., og svo framvegis, æ ekkert sérstakir en með einn og einn góðan. Og Eva Hauks og Einar S. sem elska að vera með öðru vísi skoðanir en þau eru orðin ansi þreytandi.  Björn Valur fer oft í spor Jónasar enda víða illa liðinn en samt vinsæll með hnútukastið.  Loks vil ég nefna Ingimar K.H. sem er sannur og eflaust oft með svipaðar skoðanir og ég, það er ekki svo slæmt!!!   

Loks lofaði ég einhverju um tónlist á árinu.  Bestu tónleikar sem ég var á var flutningur á Goldberg tilbrigðunum í strengja útsetningu í Reykholti, þar sem svitinn lak af spilurunum á heitasta degi ársins, það var ógleymanleg stund.  Svo kom snillingurinn rússneski Rozhdestvensky 
og stjórnaði Sinfó einu sinni enn líklega í 3 skiptið eða 4.   Og kona hans spilaði píanókonsert Rimsky- Korsakoff.  Hann stjórnaði 10. Shostakovitsch ef ég man rétt. Það var líka magnað.   Svo man ég eftir flutningi á 2. strengjakvartett Bela Bartoks í flutningi Camerarctica sveitarinnar, það snart mig ansi mikið, svo og J. Brahms:          Strengjakvartett nr. 1 í c-moll op. 51,1, í kvartett Sigrúnar Eðvaldsdóttur, þar var frábær spilamennska með líklega okkar besta fólki.  Kammermúsíkklúbburinn skilar góðu starfi í Hörpunni í vetur, og í Janúar ætlar Bryndís Halla Gylfadóttir að spila Cellósónötur Bachs, það verður spennandi. Úr því að ég minnist á Bryndísi tengdadóttur mína verð ég að minnast á disk stjúpsonar míns Þórðar Magnússonar La Poesie sem inniheldur fjögur verk, Kvartett fyrir klarinett, fiðlu, selló og píanó.Það mótlæti þankinn ber, sem er umritun á sinfoníu fyrir 2 píanó,  
 Rapsódía fyrir kontrabassa og píanó svo og Saxófónkvartett. Þetta er yndislegur diskur sem verður betri við hverja hlustun. Það var geðvonskulegur dómur um þennan disk í Fréttablaðinu sem lítið er að marka.  Tryggið ykkur eintak og hlustið og sannfærist um gæðin!!! 
Í rokk tónlist hefur ýmislegt gott verið á ferðinni, ég hef lært að meta Hjaltalín sem er magnað band, svo hreif Emiliana Torrini mig með nýja diskinum.  Tónvefurinn Spotify gerir mann mögulegt að hlusta endalaust á góða tónlist, fyrir lítinn pening, og rifja upp gamlar perlur.  Ég hef kynnst á árinu Kurt Vile, Magnolia Electrical Co., Vampire Weekend og Grizzly Bear. Af eldri meisturum var nýi diskur David Bowies góður og endurútgáfa Bob Dylans á Self portrait, Another Selfportrait var besti diskur ársins hjá mér.  

Svo óska ég ykkur gleðilegra jóla, lesendur góðir, etið og drekkið í hófi og komið endurnærð til lífsins á ný...... það ætla ég að gera!!! 


  

fimmtudagur, 19. desember 2013

Meirihluti: Sjálfshól og drýldni

Nú færist friður jólanna yfir alla.  Jafnvel ráðherra og þingmenn.  Alltaf næst á seinustu stundu samkomulag um 
nokkur atriði ekki öll. Og allir hrósa sér.  
Forsætisráðherra stígur fram á seinustu stundu og bjargar desemberuppbót, þingmenn meirihlutans sem þorðu ekki að segja múkk eru allt í einu glaðir og fegnir yfir að geta hjálpað þeim atvinnuleitandi, þeir vildu þetta alltaf. 

Heilbrigðisráðherrann lúffar smá með komugjöldin. Lofað er að ræða um nýjar gjaldtökur af nýjum fiskitegundum.   Rannsóknarsjóður fær smá í sinn hlut. 

Hönnunar og myndlistarsjóður fær smá,  og allir gleyma grátlega skemmtilegri uppákomu þegar ráðherra menntamála mætti til að fagna Hönnunarsjóðinum nýja þegar auglýstar voru fyrstu umsóknir úr honum, en daginn eftir var búið að leggja hann af í fjárlögum.  

Það skiptir kannski engu máli þó nokkrir ráðherrar sýnsi sig minni menn en maður hélt.  Auðvitað gat maður búist við því.  Hugmyndafræði xD og xB er nú um stundir ansi lík. Þó batt Framsókn sig í það að fá niðurstöður í skuldalækkunarmálinu og beygði þar Sjálfstæðisflokkinn og koma með hana hvað sem menn segja um hana og hvaðan féð á að koma. Það er vandamál fjárlaga næstu ára.  En ...... þeir stóðu við áætlun sína, sem á kannski eftir að skipta máli hjá kjósendum. Ef framkvæmdin fer ekki í tætlur. 

Svo verður  gaman að sjá hvernig útkoman verður næsta árið, enn eru engar stórar framkvæmdir í augsýn, þrátt stór orð seinustu árin.  Vístölulöggjöf og Gjaldeyrishöft ráða enn ríkjum.  Verðbólgan getur enn farið á kreik.  En nú um stundir eru þingmenn stjórnarflokkanna ánægðir með sig.  Sjálfsánægja og drýldni ráða ríkjum með smáskynsemi inn á milli.  Ennþá minnnsta kosti.
Eins og dæmin hér að neðan sýna.  

Gleymum samt ekki aðförinni að útvarpinu, gjafmildinni við kvótaeigendur, niðurlagningu Náttúrulaganna og ótal mörgu öðru.  Sem of langt yrði að telja hér. 
  



 Vigdís Hauksdóttir veit það sem allir vissu að forsætisráðherra myndi koma á seinustu stundu og bjarga málinu :
Virðulegi forseti. Því ber að fagna að hér hefur náðst samkomulag um þinglok og því er 2. umr. fjárlaga að ljúka. Það er fagnaðarefni. Ég bað um það sjálf í framsöguræðu minni í þessu máli að frumvarpið kæmi til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. og óska ég eftir því hér á ný. Ég þakka nefndarmönnum fyrir gott starf og þeim þingmönnum sem hafa talað í þessu máli.
Umræðan hefur farið út um víðan völl en það virðist hafa farið fram hjá þeim þingmönnum sem hér hafa talað síðast að hæstv. forsætisráðherra kynnti það í tíufréttum sjónvarpsins að fundist hafi svigrúm til að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót, þannig að það skal sagt hér.
Ég þakka umræðuna og hlakka til að starfa með nefndinni á milli umræðna.

Sigrún Magnúsdóttirm hefur farið greitt að lýsa yfir gríðarlegum framförum í nýju fjárlögunum: 

Virðulegi forseti. Mikill áfangi er að verða að veruleika, atkvæðagreiðsla um fjölmargar breytingartillögur við fjárlög brátt að ganga í garð. Ég hef talað hér um að ytri rammi fjárlaganna sé traustur og gríðarlegar framfarir þar á mörgum sviðum. Það sannast enn og aftur að við getum haldið okkur við hallalaus fjárlög þrátt fyrir þessar umbætur og við höldum meginstefinu hvað varðar heimili og velferð.
Undanfarna daga hafa átt sér stað ágætar umræður á köflum og málefni hafa verið reifuð en ég hef furðað mig á einu. Öryggisnet hverrar velferðarþjóðar sem er almannnatryggingar hefur lítið sem ekkert verið til umræðu. Almannnatryggingakerfi er meðal annars til þess að koma til stuðnings fólki sem veikist, slasast eða eldist. Frá árinu 2006 hafa framlög til almannatrygginga tvöfaldast úr 40 milljörðum í 80 milljarða fyrir árið 2014. Aukningin er rúmir 8 milljarðar núna bara á milli ára, 11–12%.
Virðulegi forseti. Þetta er velferð. Fyrrverandi ríkisstjórn óf vissulega líka í þetta öryggisnet, en núverandi ríkisstjórn með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar ásamt öflugum stuðningi hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að þétta möskvana svo færri detti á milli. Aldraðir urðu til dæmis einmitt fyrir því árið 2009 að falla. Þessa aðgerð, þessa aukningu kalla ég miklu frekar umbyltingu en hækkun á fjárlögum. Þá er ég afar ánægð með tilboðin sem formenn stjórnarflokkanna spiluðu út í gær og sýna vilja ríkisstjórnar í verki til góðra hluta fyrir land og þjóð.

Ásmundur Friðriksson vill að við höldum áfram að gefa rafmagnið okkar, það er víst ekki nýtt hjá honum.  Rekstur hefur ekki verið hans sterka hlið. 
Virðulegi forseti. Ég fagna því að náðst hefur samkomulag um þinglok. Ég held að mikilvægasta verkefni okkar þingmanna sé að fækka þeim sem þurfa á jólabónus að halda, eru atvinnulausir og í atvinnuleit. Ég held að okkar mikilvægasta verkefni að ári verði færri atvinnulausir sem þurfa á því að halda að fá uppbætur í desember. En til þess þarf að virkja þau tækifæri sem bíða í atvinnulífinu, þau stóru tækifæri, og þar þurfum við fyrst og fremst að virkja Landsvirkjun til að leggja sitt af mörkum til að skapa á Íslandi fleiri betur launuð störf. Það er verkefni næstu mánaða.
Á síðustu árum, frá 2007 til 2012, lækkuðu skuldir Landsvirkjunar um 50 milljarða, u.þ.b. 10 milljarða á ári. Það eru þær tekjur sem Landsvirkjun hefur haft af stóriðjunni og auðvitað allri orkusölu í landinu. Það hefur verið talað um að verð á orkunni hafi verið mjög lágt en samt sem áður greiðir Landsvirkjun skuldir sínar niður um 50 milljarða. Það er mjög gott.
Álframleiðsla skapar 23% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar, u.þ.b. 226 milljarða. Hún skapar 5 þús. störf þar sem meðallaunin eru yfir 450 þús. kr. á mánuði. Þetta er það sem þetta þjóðfélag þarf á að halda núna í staðinn fyrir að rífast um desemberuppbætur handa þeim sem eru að leita sér að atvinnu. Við þurfum að skapa þeim atvinnu og það er verkefni framtíðarinnar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir er alltaf skynsömust íhaldsmanna: 
Virðulegur forseti. Hér náðist í gær samkomulag um þinglok og þau mál sem þingheimur ætlar að afgreiða fyrir jólaleyfi. Ég ætla ekki að segja hér að það samkomulag hafi glatt mig neitt sérstaklega vegna þess að mér finnst ekki, þegar við erum á síðustu metrum í vinnu eins og fjárlagavinnu, að við eigum að vera að semja um krónur og aura til að geta lokið þingstörfum á réttum tíma. Mér finnst þetta eiga að kenna okkur í fyrsta lagi að aðkoma að fjárlagafrumvarpi þarf kannski að vera með öðrum hætti en hún hefur verið, við ættum kannski í upphafi að vera meira sammála um ákveðnar línur og við ættum kannski í vinnunni að byrja fyrr að velta fyrir okkur þeim áherslum sem við viljum hafa hér, hvort heldur er meiri hluti eða minni hluti.
Það að komast að samkomulagi um þinglok fyrir jól í krónutölum, fyrirgefið, virðulegur forseti, hugnast mér einhverra hluta vegna ekki. Ég kýs að við lærum af þessari vinnu og gerum þetta öðruvísi þegar kemur að vordögum og þegar kemur að fjárlögum næsta árs.

þriðjudagur, 17. desember 2013

Bjarni og Vigdís: Að láta peninga rata á réttan stað

Horfði á frekar andstyggilega sjón í kvöldfréttum. Ráðherra fjármálanna, sá sem oftast ræður mestu, sýndi inn í kviku hugar og stéttarfordóma sinna. 

Þeir sem fá atvinnuleysisbætur hafa seinustu tvö ár fengið desember uppbót eins og allir aðrir í okkar samfélagi.  Þetta eru ekki miklir peningar svo eru atvinnuleysisbætur ekkert til að hrópa húrra fyrir svo vinstri stjórnin setti desemberuppbótina inn.  En ......... nú er hún ekki sjálfsögð lengur, skýring Bjarna og áður Eyglóar velferðarráðherra er sú að það eru ekki til peningar.  Að sögn Eyglóar misreiknaði seinasta ríkisstjórn hversu atvinnuleysið yrði mikið á árinu.  Hvernig sem hægt er að reikna það upp á mann.  Núverandi ríkisstjórn tók við fyrir sex mánuðum svo leikur einn var að fylgjast með sjóðútstreymi úr atvinnuleysistryggingarsjóði.  En það virðist ekki hafa verið gert. 
Auðséð er að annað hvort hefur Eygló eða starfsmenn hennar  gleymt að biðja um þetta hjá Fjármálaráðuneyti Bjarna eða hann hefur sagt blákalt nei.  Sem ekki kom beint fram hjá honum í viðtalinu.  

En hvað kom fram í viðtalinu?  

Aldrei kom fram að sjálfsagt er að atvinnulausir fái þessa uppbót.


Ríkisstjórnin og meirihluti hennar dregur það eins lengi og hægt er að láta þessa peninga af hendi. 


Eru ekki til peningar?  Þeir eru til í ríkissjóði.  Það þarf formlega leið til þess að ákveða úthlutun þeirra. Ríkisstjórnin seinasta gerði það með formlegum hætti í nóvember bæði árin. Ef peningarnir hafa klárast í atvinnuleysistryggingasjóði, er hægt að afgreiða þetta í fjáraukalögum, á sínum tíma.

  Ég held að það sé ekki rétt hjá Vigdísi Hauksdóttur að þetta sé bara mál ríkisstjórnarinnar heldur Alþingis alls. Málið hafi ekki ratað inn á borð fjárlaganefndar!!!  


Eygló virðist nú vilja að uppbótin sé veitt, ekki er auðséð hvort hún hafi viljað það allan tímann.  Í fyrstu viðtölum um þetta notaði hún rök Bjarna peningar eru ekki til !!!!!  En líklega er meiri pólitískur þrýstingur á Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn er harðari gegn styrkjum því auðvitað er þetta styrkur. 


Bjarni  Ben hefur ekki mikla samúð með fáætku fólki, nú eru þeir búnir að bíða í 17 daga eftir því hvort þeir fái þessar þúsundir. Fátæka fólkið þarf ekki að skipuleggja jólahald sitt.  Fjármálaráðherra virðist vera sama, engin viljayfirlýsing hefur enn komið skýrt frá honum.

   Fyrir margar fjölskyldur er þetta spurning um verðug jólahátíðarhöld.  Bjarni hefur ekki áhyggjur af því.  Ég veit ekki um forsætisráðherrann, ég hef ekkert heyrt frá honum um þetta mál. Og þó klukkan 22.04 birtist yfirlýsing frá honum á RUV : „En til þess að það sé hægt verða að vera til peningar í sjóðunum. Það var ekki núna. Raunar er sjóðurinn þegar kominn í töluverðan mínus. Ráðherra hafði ekki fjármagn til að greiða út. En mér sýnist að okkur muni takast að leysa úr þessu og fá þá nýtt fjármagn þarna inn og hægt verði að greiða út desemberuppbót sem er mjög mikið gleðiefni.“

Hvað les maður úr þessum viðbrögðum meirihlutans?   
Fátækt fólk er ekki mikils virði í augum ríkisstjórnar eða meirihluta. Það má traðka á því í nafni ríkissjóðs, allt er metið í peningum.  Peningarnir rata á rétta staði þegar ráðherrum sýnist, ofan í vasa útgerðarmanna þegar þeir vilja svo með hafa.  Þess vegna tala ég um andstyggilega sjón í Ríkissjónvarpinu.  Það var engin meðaumkun engin mannúð.  Bara köld andúð á þessu fólki sem vogar sér að vera til. Bæði hjá Vigdísi og Bjarna.  Svo kemur forsætisráðherra á seinustu mínútu og bjargar þessu til þess að þingið fari heim á réttum tíma.  


Alltaf sekkur þessi meirihluti dýpra í áliti hjá mér.  Í kviksyndi eigin fordóma og hugmyndafræði. Svei. 


Hvít jól, heitir pottar og heimilisdýr


Hvít jól, einhvern veginn finnst manni vera svo langt síðan Reykvíkingar upplifðu slíkt.  Kannski fáum við að rifja upp kynnin núna, með ófærð og alls kyns leiðinlegheitum. Eins og veturnir 83 og 84 ef ég man rétt.  Þá var kalt að bera út Tímann og Þjóðviljann í Skerjafirðinum.  Erfitt að komast í og úr vinnu.  

Og þó, það er gaman að rifja upp snjóhvít jól á árum áður. Ég bjó í Borgarnesi í 10 ár.  Þá voru stundum alhvít jól.  Ég man þegar við paufuðumst gallaklædd upp á Þórólfsgötu að gefa ketti mat og kíkja á hann, foreldrar hans voru í útlöndum.  Þá var alvöru snjór.  Gönguferðir í nágrenni bæjarins voru margar og dýrlegar.  Með risastórt gult tunglið yfir Borg og Egill á sveimi í kringum mann. 

Síðan vorum við í Austur-Húnavatnssýslu í 5 ár, þá voru hressilegir frostavetur, allt niður í -25 stiga frost. Við fengum okkur göngutúr, framhjá hestastóði, greyin hímdu í ískaldri ísþokunni, ætli þeim hafi ekki verið kalt?   Það var dýrlegt að ganga niður að Svínadalsvatni í frosti og stjörnubjörtum himni með vott af norðurljósum.  Með hund á undan og kött á eftir.  Og fara síðan í heitan pott við laugina, vaða yfir snjóskafla og hlamma sér í sjóðheitt vatnið.  Þá hugsaði maður stundum, er lífið ekki dásamlegt?

 Paradís

er þetta paradís spurði hann og spurningin ómaði
yfir hrafnagarginu og vindgnauðinu  sem dansaði
á snæsléttunni hrímhvítri eyðilegri                                                                                                        er þetta endir veraldar þar sem bláminn á sér                                                                              engin takmörk eða viðmið yfir flóanum og svartstrikuðum                                                                  fjöllunum spurði húner þetta paradís                                                                                                   og tónarnir hófu sig út um gluggann í áttina að fjallinu                                                                         og himninum þar sem tunglið og stjörnurnar                                                                             tindruðu í takamarkalausri firð og forundran                                                                                       er þetta paradís og hann breiddi myrkrið                                                                                          yfir sig eins og hlýtt teppi og kötturinn svarti                                                                                  lagðist ofan á og dæsti af vellíðan

þetta var paradís



  





sunnudagur, 15. desember 2013

Egill og Stefán: Húsbóndahollir

Sumir eru húsbóndahollari en aðrir, svo er um Egil Helga og Stefán Ólafs.  Báðir sæmilega greindir karlar en þeir vilja alltaf vera með lappirnar bæði á bryggjunni og í skipinu.  Og passa með því störf sín og stöðu.  

Auðvitað tekur Egill málstað Páls Magnússonar,  það á að ráðast á ráðherrann en ekki útvarpsstjórann. En karl sem lætur etja sér út í hvað sem er eins og Páll gerir er auðvitað búinn að missa traust flestra. En það er einn og einn eins og Magnús Einars og Egill.  Þeir hlýða á orð  útvarpsstjórans.   
Samanborið Egill hér: 
Sá misskilningur hefur verið uppi að standi til að loka Rás 1 eða eyðileggja hana. Samt hefur ekkert verið sagt í þá veru – ekki nema hvað menn hafa lagt út af orðum útvarpsstjóra um að Ríkisútvarpið þyrfti að hafa víða skírskotun og túlkað þau mjög frjálslega.
Þrátt fyrir niðurskurð heldur Ríkisútvarpið áfram að bjóða upp á menningarefni, fræðslu, fréttir og afþreyingu – því má ekki gleyma að RÚV á líka að skemmta. Landsmenn eru skyldugir til að greiða afnotagjöld – það eru ekki allir sem vilja hámenningu.
Það sjá allir nema þessar raddir meistarans  hvað er að gerast á RÚV. Það er verið að rústa dagskrárgerð, dágskrárgerð er ekki bara að lesa upp hvað eigi að spila eða flytja næst.  Það er að byggja upp þætti með sýn og hugsun, slíkum útvarpsmönnum er mörgum sparkað.   
Stefán Ólafsson hefur verið með sjálfstæðar skoðanir í ýmsu varðandi skuldaniðurfellingu.  Ég hef oft verið honum sammála.  En að geta ekki séð hvert ríkisstjórnin er að leiða okkur það er sorglegt.  Ótrúleg brellubrögð varðandi skuldaniðurfellingu.  Og að hafa sem fæstar skoðanir á fjárlögum.  Það er verið að skera ýmsa málaflokka á háls minnka fjármagn og leyfa auðugustu mönnum landsins að leika með fjármagn sitt, gjöld þeirra og álögur eiga að vera í lágmarki.  Þeir eiga auðmagn sitt. Þeir eiga Ísland. 

Þessi málgrein Félagsfræðingsins er dásamleg: 
Framsókn þarf að vara sig á þessari taktík Sjálfstæðismanna og sækja fram af festu á velferðarvaktinni.
Stefán heldur að Framsóknarflokkurinn sæki fram á þessu sviði, með formann Fjárlaganefndar í broddi fylkingar, hvað 
sagði hún í seinustu viku???? 

„Ég meina það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar. Þetta eru ólíkar stefnur sem þessir flokkar standa fyrir. Við vitum það að vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“ 

Þetta er að vera á velferðarvaktinni. 

Hann heldur að hann geti sveigt þennan íslenska öfgaflokk inn á nýjar brautir þótt hann sé formaður Tryggingaráðs. Gagnrýnilaus fær hann að vera það áfram. En betra væri að sjá hann í fararbroddi í harðri og málefnalegri gagnrýni gegn vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.      
Það er sorglegt að sjá þá félaga, Egil og Stefán, í þessu hlutverki sínu.  Að vernda húsbændur sína. 

 

John le Carré í sjónvarpinu: Merkur höfundur og aldafarsrýnir

Góð, dularfull, flókin, það er mynd Tomas Alfredsons um spæjarana í kalda stríðinu, Tinker, taylor, soldier spy.   Þeir
gætu nú fundið skáldlegra nafn á RUV en Kaldastríðsklækir. Þessir rúnum merktu andlit breskra stórleikara með vindlinginn í munnvikinu og viskýglasið í hendinni gera þetta svo trúverðugt og flækjurnar reyna ansi mikið á heilann.  

Það er merkilegt að hafa fylgst með þessum rithöfundi og kvikmyndagerðum hans í hálfa öld.  Allt frá Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum til Tinker Taylor.  Ég hef lesið flestar bækurnar ef ekki allar.  Karla serían er mögnuð og ein og ein eftir það, ekki allar.  Og serían með Alec Guiness er með betri sjónvarpsseríum. 

 Þeir sem upplifðu ekki Kalda stríðið ættu að lesa eitthvað af þessum bókum. 24 árum á eftir því að það og andrúmsloftið sem fylgdi því ansi fjarlægt.  En Le Carré hefur líka gert góðar bækur síðar.  Constant Gardener sem fékk frábæra kvikmynd líka.  Absolute Friends, Our kind of traitor svo einhverjar séu nefndar. Hann er enn að skrifa á níræðisaldri. 

Eflaust hafa einhverjir geispað yfir myndinni í kvöld, en þeir sem sökktu sér í andrúmsloftið og hin mannlegu örlög og furðulega klæki á þessum tíma hafa haft það gott.  Ég gerði það minnsta kosti.  Þetta var ansi góð mynd. 

Fyrir nokkuð mörgum árum gekki ég um svæðið umhverfis Lands End á Cornwall, ég vissi ekki að þar á David Cornwell landsvæði allstórt.  En það er réttnefni le Carrés.  Kannski hef ég labbað á landareign hans.  Svona er lífið skrýtið.   


laugardagur, 14. desember 2013

Fjárlög og séreignasjóður: í boði annarra

Sveitastjórnir kvarta yfir niðurskurði á útsvari í boði ríkisins.  Fyrst Halldór Halldórsson í dag Dagur Eggertsson.

Við mat á útsvarstekjum í fjárhagsáætlun ársins 2014 er gert ráð fyrir að tveggja prósenta framlag launþega í séreignasjóði yrði undanþegið skatti. Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að launþegum verði heimilt að draga allt að fjögur prósent frá skatti til að greiða inn á húsnæðislán. Miðað við forsendur aðgerðaáætlunarinnar má gera ráð fyrir að útsvarstekjur lækki vegna þessa að lágmarki á bilinu 250 - 500 milljónir króna samanborið við samþykkta fjárhagsáætlun borgarinnar.
Þetta kemur fram í minnisblaði fjármálastjóra Reykjavíkurborgar til borgarstjóra sem lagt var fyrir borgarráð í vikunni. Dagur B. Eggertsson segir að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin. „Við erum að reyna að greina þetta eftir þeim upplýsingum sem hafa komið fram í fjölmiðlum því að sannast sagna var ekkert samráð haft við sveitarfélögin við undirbúning þessara hugmynda og hefur reyndar ekki verið rætt við þau ennþá,“ segir Dagur. 

Það er gott að geta gert hlutina í boði annarra, séreignasjóður í
boði sveitastjórna. .  Fengið inn peninga í fjárlög með því að ráðast á þá tekjuminnstu og barnflestu, ennfremur þá fátækustu í heiminum. Á meðan skorin eru gjöld niður af auðkýfingum þessa lands. Afskaplega siðlaust, en það er ekki nema vona þegar saman safnast öfgahægrimenn.  Ég skil ekki í fólki sem býst við einhverju öðru frá framsókn.  

Það hlýtur að vera búið að gleyma sjálftökuliði Framsóknar undir yfirumsjón Halldórs Ásgrímssonar, Finnur, Valgerðar, Alfreð, Björn Ingi, Ólafur Ó., og svo framvegis. Það setur að manni hroll.  Svo vísaði saksóknari öllum kærum frá. 30 milljarðar gufuðu upp í skjóli Framsóknarsís.   

Vigdís Hauksdóttir á einna helst skylt við Danska Þjóðarflokkinn og leiðtoga þess Pia Kjærsgaard og eflaust passar það upp á fleiri þingmenn Framsóknar. Fjandskapur við útlendinga.  Ömurleg voru sms skeyti Gunnars Braga til þingflokkssystkina sinna að hindra framgang Umhverfismálaframvarpa, undir stjórn Steingríms Hermannssonar  var Framsóknarflokkurinn umhverfisvænn og framsækinn flokkur að sumu leyti en það er liðin tíð. Nú stendur ríkisstjórnin saman í því að senda flóttamenn í flugvélaförmum til heimkynna sinna.  Og innanríkisráðherrann beitir andstyggilegum aðferðum til að sverta flóttamenn frá Afríku.      

fimmtudagur, 12. desember 2013

Ráðherrablús: Sigmundur Davíð og Eygló Harðardóttir



Ræður Alþingis eru birtar á vef þess. Hér sjáið þið orðaskiptiSigmundar Davíðs og Katrínar Júlíusdóttur. Sem eru ansi dapurlegar eftir að hafa fylgst með umræðunni seinustu daga: Ég hlustaði á Bjarna Ben. á sunnudag lýsa því yfir að lækkaðar yrðu vaxta- og barnabætur svo og þróunaraðstoð. Hér.  Á mánudegi var sagt frá tillögum um þetta í hádegisútvarpinu í fjárlaganefnd (viðtal við Vigdísi Hauksdóttur í morgunútvarpi): Hér.  Svo segir forsætiráðherra að háttvirtir þingmenn vaða í villu og reyk og notar útúrsnúninga til þess.  Það er því ekki furða þótt fólk beri saman stjórnmálasiðferði í Danmörku þar sem ráðherrar segja af sér ef upp kemst um ósannsögli. Lygi virðist vera sjálfsagður hlutur í íslenskum stjórnmálum. 

Sigmundur sagði á Alþingi.

Virðulegur forseti. Ég hef skilning á því að hæstv. forseti skuli sýna hv. þingmönnum skilning og leyfa þeim að lýsa áhyggjum sínum hér undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég vil þá nota tækifærið undir þeim lið til að láta virðulegan forseta vita af því að áhyggjur þingmanna eru algerlega áhyggjulausar.
Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar. Auðvitað hafa menn velt ýmsu fyrir sér undanfarnar vikur og mánuði við fjárlagavinnuna en þegar hv. þingmenn ætla að fara að æsa sig yfir einhverju sem þeir eru að geta sér til um að verði niðurstaðan og þeim hefur verið bent á að sú sé ekki raunin þá eðlilega leiðréttum við það. Ég tala nú ekki um þegar hv. þingmenn fara að halda því fram að breytingar, t.d. breytingar á framlögum til þróunarmála sem núverandi ríkisstjórn mun líklega standa fyrir, þeir gefa sér það, sé eitthvað sem síðasti meiri hluti hafi aldrei gert þrátt fyrir að sá meiri hluti, síðasta ríkisstjórn, hafi gert einmitt það og meira til, skorið miklu meira niður til þróunarmála 2010, 2011 og 2012, þá er eðlilegt að benda mönnum á að þeir fara ekki með rétt mál.  




Katrín Júlíusdóttir svaraði: 
Virðulegi forseti. Hæstv. forseta er nokkur vorkunn vegna þess að það að vera með forsætisráðherra sem stýrir umræðum um stjórnmál eins og hann gerir hér, hefur forgöngu um að gera lítið úr öðrum stjórnmálamönnum og því sem þeir segja í ræðustóli með því að gefa í skyn að þeir fari endalaust aftur með rangt mál er fyrir neðan allar hellur.
Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í fjölmiðlaviðtali á sunnudaginn að lækka ætti tillögur til vaxtabóta og barnabóta — Hæstv. fjármálaráðherra. — Fer hæstv. fjármálaráðherra með rangt mál?
Virðulegi forseti. Formaður fjárlaganefndar sagði nákvæmlega það sama um þróunaraðstoðina, barnabæturnar og vaxtabæturnar í löngu viðtali sem ég sat með henni í gærmorgun. Hún sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar og þetta var rætt á föstudaginn. Og að sitja svo hér undir því aftur og aftur og aftur að við stjórnmálamenn, aðrir en hæstv. forsætisráðherra, förum sýnkt og heilagt með rangt mál er óþolandi. (Forseti hringir.) Ég fer fram á að hæstv. forseti grípi í taumana og kenni mönnum mannasiði og kenni (Forseti hringir.) mönnum umburðarlyndi og þolinmæði fyrir því að mæta gagnrýnum skoðunum.  (feitletranir mínar)

Annar ráðherra sem hefur valdið mér vonbrigðum er Eygló Harðardóttir í framgöngu sinni um desemberuppbót fyrir atvinnulausa (nú er rætt um atvinnuleitendur, ætli verði bannað að tala um atvinnuleysi?).   Ég hef hlustað á hana þrisvar segja það sama, að fyrrverandi ríkisstjórn hafi misreiknað atvinnuleysi og því hafi of litlir fjármunir farið í þennan málaflokk og það séu engir peningar til.  Gott og vel.  Það er aldrei hægt að reikna upp á krónu fjölda atvinnulausra og því hlýtur núverandi ríkisstjórna að verða að taka málið yfir.   En nú hefur ríkisstjórnin setið í hálft ár og því hefur Eygló haft tíma til að velta fyrir sér fjármögnun desemberuppbótarinnar.  

Það er í samræmi við samstarf xD og xB að rífa niður allt sem vinstri stjórnir hafa komið á til bættra kjara fyrir þá sem ekki hafa mikið á milli handanna fyrri ríkisstjórn sá til þess að þessi desemberuppbót var tekin upp.  Það er engin sæla að vera á atvinnuleysisbótum. Þingmenn xD og xB virðast fyrirlíta þá sem eiga í erfiðleikum þeim er gert að lifa á eins erfiðan hátt og hægt er, fátækt er böl og því er í siðaðra manna samfélagi sjálfsagt að reyna að gera þeim lífið léttara, að fjölskyldur og einstaklingar hafi smáuppbót í þessum erfiðasta mánuði ársins, jólamánuðinum. Þetta litla dæmi sýnir það.  Að nota útúrsnúninga til að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls,  sem ætti að hafa komið í fjáraukalögunum, 240 milljónir, ég hafði búist við öðru frá Eygló Harðardóttur að taka þátt í skollaleik Vigdísar Hauks og annarra Teboðsþingmanna.  Nú verða atvinnulausir að bíða milli vonar og ótta hvort að meirihluti fjárlaganefndar þóknist að setja þennan lið inn fyrir 3. umræðu.

Þetta er sorglegt.  Þetta er mannfjandsamlegt. Að níðast á þeim sem hafa það erfiðast í okkar samfélagi.






miðvikudagur, 11. desember 2013

Ríkisstjórn í vanda

Ríkisstjórnin hörfar. Lætur undan sterkri stjórnarandstöðu og
andstöðu bloggara og fésara. Almennri reiði í samfélaginu.
Þeim tekst ekkert að sundra andstöðunni enda er vafi á því að stjórnin hafi herkænsku til þess.
Það er pínlegt þegar forsætisráðherra breytir stefnunni í ræðustóli  og niðurlægir samherja sína.                       

Málsmetandi álitsgjafar utan stjórnmála láta í sér heyra.  Jón Kalman Stefánsson í morgun sem tjáir sig um Þróunarhjálp okkar í sterkri og tilfinningaríkri grein.
 
Menntamálaráðherra á í ansi miklum erfiðleikum vegna umræðunnar um RUV, útvarpsstjóra er varla stætt að sitja áfram, rúinn trausti samstarfsfólks.  Ráðherrann sem átti að hafa sambönd víða í listageiranum situr uppi sem hlýðinn nýfrjálshyggjusinni sem berst ekki fyrir sínum málaflokkum.

Svo ríkisstjórn með mikinn alþingismeirihluta á í vök að verjast. Eitt er það þó sem ekki á að víkja frá það er algjör eftirgjöf gagnvart útgerðarmönnum, jú og skattalækkanir eru heilög ritning jafnvel á tímum þegar á þarf fjármunum að halda sem aldrei fyrr.

Það vakti athygli mína að Forsetinn mætti ekki við minningaathöfnina stóru í Suður-Afríku. Ætli hann vaki yfir  Ríkisstjórrninni og treysti sér ekki af landi brott???? Hver veit? Er hann ekki Guðfaðirinn?

þriðjudagur, 10. desember 2013

Bjarni Ben og Venjulega fólkið

Það eru skemmtilegar umræðurnar á Alþingi og þar fá húmoristar eins og Bjarni Benediktsson að njóta sín.  VG lagði fram smábreytingar við Fjárlög:  

Tillögurnar ganga út á að falla frá lækkun á miðþrepi tekjuskatts, framlengingu auðlegðarskatts og hækkun á sérstöku veiðileyfagjaldi á útgerðirnar í landinu. 

Bjarni er að vanda  fljótur að finna kjarna málsins enda ofursnjall:  

Bjarni segir VG vilja seilast í „vasa venjulegra Íslendinga“. 

Auðvitað veit Bjarni allt um Venjulega Íslendinga, hann er líka þaulkunnur vösum þeirra, hann hefur alist upp við það eins og margir yfirstéttarburgeisar að nota lögfræðinga eða menntun sína til að forðast skattgreiðslur, svo að lágtekjufólkið fái að borga sem mest. 

Og líklega flokkar Bjarni þá í þennan flokk sem  venjulega Íslendinga vini sína og kunningja  sem þurfa ekki að borga auðlindaskattinn, sem þurfa ekki að borga hækkun á veiðigjaldi. 

Þess vegna getur hann kinnroðalaust komið með þá hugmynd að lækka barnabætur og vaxtabætur til bóta fyrir Sjúkrahúsin, hann þekkir ekki  lífskjör þess fólks sem nýtur þessara hlunninda. Hann hefur aldrei hitt slíkt fólk. 

Ætli ég flokkist ekki undir þá sem fái lækkun á miðþrepi tekjuskatts sem ellilífeyrisþegi.  Ég segi nú bara eins og konan í Fréttablaðinu í dag. Ég kæri mig ekkert um þessa lækkun, ég vil langtum frekar að þessar krónur renni í Heilbrigðis og félagskerfið. Þær nýtast betur þar en hjá mér.

Bjarni þekkir vinnandi fólk landsins, allir vita það, það eru þessir Venjulegu Íslendingar sem Bjarni ætlar að hjálpa að finna fyrir auknum  kaupmætti   fjármagns síns, það verður hrópað húrra fyrir honum í áramótaveislum LÍÚ og ritstjórinn  knái klappar honum á öxlina og skálar við hann, fyrir venjulega fólkinu. 


Stefna stjórnarinnar er skýr að mati Bjarna.„Hún er fyrir vinnandi fólk í landinu sem mun upplifa vöxt í kaupmætti ráðstöfunartekna á næsta ári ólíkt því sem mundi gilda ef við færum eftir nýjum fjárlagatillögum Vinstri grænna sem seilast beint ofan í vasa venjulegra Íslendinga sem eru úti á vinnumarkaðnum vegna þess að falla á frá hugmyndum um að lækka tekjuskattinn,“ sagði hann í umræðum á Alþingi í dag.



mánudagur, 9. desember 2013

Vigdís H.: Maður getur alltaf á sig blómum bætt

Seinustu blóm Vigdísar Hauks, það virðast bara vera fátæklingar hér og í Afríku sem eiga að bera uppi Heilbrigðiskerfið,  Vigdís
passar vel upp á vini sína, þeir eiga að fá að telja sem minnst úr buddunni sinni. Jú, við eigum að finna öll að það sé búið að skipta um ríkisstjórn, þeir best stödd finna seðlabúntin undir koddanum og sofa rótt og þeir verst stöddu standa í Hjálparröðunum og bíða eftir Nauðungarsölunni.  Þannig er Ísland í dag. 

Þessi blóm fengum við í RÚV 2 í morgun:  

„Við vinnum þetta þannig að landsmenn allir finni að það sé búið að skipta um ríkisstjórn. Við tökum við 30 milljarða gati frá síðustu ríkisstjórn. Við ætlum að skila hallalausum fjárlögum upp á 500 milljónir. Þetta er leiðin til þess því skuldasöfnun verður að stöðva og þetta er þáttur í því."   

„Það þarf að finna aukið fé til heilbrigðismála og þetta er sú aðferð sem við ætlum meðal annars að ganga í til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðis landsmanna,“ segir Vigdís.
Vigdís var spurð hvort ekki væri verið að höggva þar sem hlífa skyldi, þetta væru þeir sem hefðu minnst á milli handanna og þróunaraðstoð við fátækasta fólk í heimi. „Ég meina það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar. Þetta eru ólíkar stefnur sem þessir flokkar standa fyrir. Við vitum það að vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“

Við endum þetta á þessu :  og svo framvegis, endalaust og svo framvegis.  Ég meina það. 

sunnudagur, 8. desember 2013

Bjarni Ben, bananar og fátækt fólk


Já við þurfum að fá fé í Heilbrigðiskerfið, við erum öll sammála um það,  og hvaðan á féð að  koma að mati Ríkisstjórnar xD og xB . Hvar er það sem auðveldast er að nálgast fjármagn???  Jú,það er rétt, það er í Þróunarhjálp, vaxtabótum og barnabótum.  Að lækka hámarks vaxta og barnabætur.  Það væri gaman að sjá hverjir eiga þar í hlut?  Eru það sægreifarnir ?  Er það millistéttin umtalaða? Það skyldi þó ekki vera atvinnuleysingjar og lágtekjufólk.
 
 
Auðvitað er fólk sem fær þróunarhjálp langtum betur statt en við, við þurfum ekki að láta meira af hendi rakna til þeirra. Fer þetta ekki allt í óráðsíu?  Eru þessir brunnar, skólar og sjúkraskýli sem við höfum staðið fyrir uppbyggingu á í samvinnu með þarlenda ekki bara ímyndun ein, Stefán Jón var aldrei í Afríku,  við vitum það öll.  Hann var bara í Svíþjóð og borðaði jólaskinku  og rauðkál.   

Já lesendur góður það er þessi málaflokkur sem við þurfum að skera utan af með framsóknarkorðanum hennar Vigdísar:

Þróunarhjálp

Vaxtabætur og barnabætur

„Það hefur í fjárlagafrumvarpinu ekki verið gengið út frá neinum skerðingum á vaxta og barnabótum, en hins vegar er í umræðu núna í nefndinni að það komi til álita að lækka hámarks vaxta- og barnabætur til þess að skapa um 600 milljóna króna svigrúm fyrir forgang heilbrigðisþjónustunnar.“ segir Bjarni Ben af sinni alkunnu skarpskyggni. Það er ekki rætt  um  álögur á þá sem eru með vasana fulla af fé.  Slíkt fólk er til á Íslandi jafnvel margir.  Og forsætis- og fjármálaráðherrann þekkja marga og tala við þá oft í viku.  Þeir eru vinir þeirra og tilheyra þeirra hópi.  Maður er alltaf góður við vini sína.  Vigdís og Guðlaugur  Þór og Ásmundur Einar eiga
 
enga vini suður í Afríku þess vegna er allt í lagi að skera krónurnar til þeirra niður í  ekki neitt.  Þeir þurfa bara eta banana og búa blikkskýli eins og Gösta Bohman formaður sænskra íhaldsmanna sagði fyrir nokkrum áratugum. "De kan ju bo i plåtskjul och äta bananer."

Er það furða þó manni verði flökurt.  Hvers konar fólk kemst til valda á Alþingi?  
 

laugardagur, 7. desember 2013

Ríkisstjórn: Ár grænu ljósanna framundan

 Nú er dásamlegt að lifa, nú verður lífið sem aldrei fyrr.  Ekki einu sinni 2007 jafnast á við þennan dýrðarljóma.  Nú fáum við að  líta glit hins Græna ljóss. Engin boð og bönn, engar eftirlitsstofnanir sem koma öllu í uppnám eins og Guðlaugur Þór hefur bent svo réttilega á, af biturri reynslu.  Nú eru það grænu ljósin sem blíva:

Orkustofnun gefur grænt ljós á lagningu Suðurnesjalínu

segir í Viðskiptablaðinu í dag.  Jarðstrengur er fáránleg hugmynd að sjálfsögðu:

Orkustofnun tók undir þau rök Landsnets að jarðstrengur væri óhagkvæmari en loftlína og í leyfinu segir að hvorki umhverfissjónarmið né annað réttlæti kostnaðaraukann sem myndi fylgja því að leggja línuna í jörðu

Ég hlustaði á frétt frá Svíþjóð fyrir nokkrum vikum þar sem kom fram hversu mikill sparnaður var í ofviðrinu þá  í Mið-Svíþjóð þar sem raflína  hafði verið lögð í jörð.  Það væri von á meiri stormum og hvassviðrum næstu  árin og áratugina svo annað væri út í  hött.  En Orkustofnun veit að sjálfsögðu betur. 

Já,  lesendur góðir,  grænu ljósin munu lýsa leið okkar inn í  nýtt blómaskeið.  Við þurfum engin höft, ekki í umhverfismálum, ekki í sjávarútvegsmálum, ekki í efnahagsmálum. 

Hverjum dettur það í hug að útgerðarmenn eigi að taka á sig skell þegar illa árar eins og núna.  Þeir eiga að fá að handleika fé sitt sjálfir, greiða út milljarða í arð, þeir hljóta að fjármagna gull sitt okkur öllum til hagsbóta!!!!!  Við eigum að bíða þolinmóð og sjá hvað þeir gera, það er óþarfi að dæla peningum í rannsóknir, menningu, menntun og listir.  Við erum öll sammála um þetta. 

Takk fyrir, Þorsteinn Már, Guðbjörg og Loftur, fyrir að fórna ykkur fyrir okkkur.   Takk fyrir að halda Morgunblaðinu gangandi.  Hvar værum við annars????? 

Lifi Grænu ljósin.

föstudagur, 6. desember 2013

Og við sungum Frelsum Nelson Mandela

Og við sungum Frelsum NelsonMandela, þeir voru dagarnir.  Munið þið það þegar Suður-Afríka var ógnvænlegt ríki aðskilnaðar og ófrelsis.  Og innan múranna sat Nelson sem hét allt öðru nafni upphaflega en Nelson nafn stríðshetjunnar vösku hjá breska nýlenduveldinu hlaut það að verða. Hann varð lögfræðingur og baráttumaður eins og annar andstæðingur nýlenduherranna Gandí.  Þeir áttu það sameiginlegt að geta endurmetið baráttustöðuna og komið með nýja fleti sem hentaði ekki valdsmönnunum.  Með tímanum veiktist staða hvítu herranna í Pretoríu þessi fangi á Robbin eyjunni var á við heila heri.  Svo kom hann út, við sáum nýtt ríki verða til, ekki fullkomið, en með einhverja von um  nýja byrjun.  Við vitum ekki enn hvernig það mun enda.   Veröldin er ekki einföld og auðskilin.

Nú er hann horfinn á vit sögunnar segir Obama, ég veit það ekki, kannski verður það næsta baráttan að frelsa hann frá því hlutverki.  Hann var mannlegur, ekki fullkominn, en hann fékk hjörtu okkar til að slá hraðar.  Fasið, svipurinn, augnaráðið, þetta var allt sérstakt.  Allir sem hittu hann segja sögur. Sem sýna þetta sérstaka, hvernig hann kom að hlutunum á annan hátt enn aðrir.  Hélt ræður hvatti fólk til dáða við ómögulegt verkefni, að fyrirgefa og lifa í friði.  Eftir ótrúlega kúgun og harðstjórn.  Svo varð hann gamall og vissi hvenær hann átti að hætta, það geta ekki allir.  Hér eða annarstaðar..  

Fyrir fimmtán árum var ég í London og við, ég og kona mín gengum niður með ánni.  Þar sem stórar tónleikahallir rísa.  Þar var mikið um að vera í einni Höllinni. Stöðugur straumur af fólki út og inn, flest með dökkan hörundslit.  Við urðum forvitin og ákváðum að kíkja og sjá hvað um var að vera. Þegar við komum inn, aðgangur var frjáls, blasti við gleði og glaumur.  Stór blásarahljómsveit spilaði og fólk söng og dansaði og var  brosandi.  Þarna var verið að halda upp á áttræðisafmæli Mandela. Það var enginn annarr en Hugh Masakela sem spilaði á trompet og stjórnaði hljómsveitinni.   Það varð ógleymanlegt fyrir okkur að reika þarna um og sjá hreyknina í brosi og hreyfingum fólksins. Það var að fagna sínum manni.  Hann var líka okkar maður þann daginn.

 
Nú er hann horfinn. Það er langt síðan við sungum Frelsum Mandela.  Það verða margir sem vilja gera úr honum styttu og líkneski.  Gleyma erindinu sem hann í raun og veru átti við okkur.  Svo það verður örugglega þörf á að syngja Frelsum Mandela á ný.  Ekki bara í Suður-Afríku.  Líka hjá okkur.