sunnudagur, 1. október 2017

Frú Andersen í fyrsta sæti

Það er merkilegt að setja Sigríði Andersen í efsta sæti í Reykjavík.  Það er eins og að gefa íbúum kjaftshögg eftir framgöngu hennar gagnvart börnum og flóttafólki.  Enn merkilegra er að hún þiggi það sem hún hefur afneitað, að nokkurs staðar eigi að jafna niður körlum og konum til skiptis, eða að láta konur hafa forgang á meðan að barátta fyrir jafnrétti á sér stað.  Jafnréttismálin eiga erfitt uppdráttar  eins og margt annað.   Og ennþá fáránlegra að það skuli vera Brynjar Níelsson stígi fram og fórni sér, hann af öllum, besti vinur eigenda nektarbúllanna.  Og fái hrós kvenþingmanna fyrir bragðið!     

Allt þetta lýsir ástandinu í þessum blessaða flokki. Spillingin lekur niður veggi Valhallar. Við sem  tilheyrum öðrum flokkum þar sem sjálfsagt þykir að kjósa í prófkjörum jafnt karla og konur, eða raða á lista konum og körlum til skiptis eigum erfitt með að skilja þetta.  Svo er alltaf hægt að víkja út af þessu eins og dæmið með Sigríði sýnir og henni finnst allt í lagi að gera það.  Sem er algjörlega á móti jafnræði kynja á listum!  Bara til að geta sýnt að karlar eru ekki alls staðar í efsta sæti hringinn í kringum landið. Þótt öllum í þessum blessaða flokki  finnist að það  sé Náttúrulögmál.  Karlar eru sterkari. En allt er leyfilegt í atkvæðasmölun.