miðvikudagur, 10. febrúar 2016

Bókmenntaverðlaun og bókmenntauppeldi

Nú er tími uppgjörs og verðlaunaafhendinga senn á enda fyrir seinasta ár. 3 fengu Hin íslensku bókmenntaverðlaun í dag, Einar Már Guðmundsson, Gunnar Þór og Gunnar Helgason.  Ég er búinn að glugga í fræðibókinni, fagurbókmenntið er  í hillunni hjá mér, er þegar ég er búinn að lesa Auði Jóns, og
barnabörnin láta vel af Mömmu klikk.  Svo allt eru þetta bækur sem eru lesnar og vel að heiðrinum komnar eða hvað?  

Athygli vekur að engin kona er talin verðug til veðlauna í ár.  Og hlutfallið í flokkunum 3 er skrítið, 4 konur, 11 karlar.  Svo eru ljóðabækur ekki hátt metnar, engin í ár, ég hef lesið 2 fínar ljóðabækur eftir Guðrúnu Hannesdóttur, Humátt,  og Lindu Vilhjálmsdóttur, Frelsi, svo var ansi skemmtileg ljóðabók eftir kunningja minn Einar Ólafsson, Í heiminum heima,  og frænku mína Þórdísi Gísladóttur,Tilfinningarök .  Engar af þeim þóttu verðar og heldur ekki meira en hundrað aðrar ljóðabækur, margar eftir stórljóðaskáld, Sjón, Óskar Árni, Sindri Freysson, Kristín Svava, Kritján Þórður Hrafnsson, Sölvi Sveinn svo bættist Bubbi sjálfur í þennan hóp.  Auk margra ljóðaúrvala einstakra höfunda, eins og Vilborgar Dagbjartsdóttur og Sigurðar Pálssonar og Ingunnar Snædal. Ég held að það sé kominn tími á sérstakan verðlaunaflokk fyrir ljóð. 

Ég fór að hugsa um áhrifavalda í lifi mínu, þeir sem urðu þess valdandi að maður varð bókaormur.  Hjá mér á ég mest að þakka Útibúi Borgarbókasafnsins sem þá var til húsa í Hólmgarði 34 í Bústaðahverfinu.  Þar var opið milli 5 og 7 síðdegis.  Og þar varð uppeldisstöðin til lestrar.  Á haustin var röð fyrir utan á mánudögum ef ég man rétt, því þá komu nýju bækurnar í hús.  Síðan var hlaupið upp stigann upp á aðra hæð til að ná í nýju bækurnar.  Bókaverðirnir sem unnu þarna voru nokkrir en minnisstæðastir voru rithöfundurinn Jón 
Björnsson, sem nú er flestum gleymdur en hann skrifaði heilmikið á sínum tíma, þekktasta saga hans er án vafa Valtýr á grænni treyju.  Hann var hrjúfur á ytra borði, lyktaði oft af brennivíni, en hann var afskaplega hjálplegur þegar maður var búinn að vera fastagestur hjá honum í einhver ár.  Svo var Ólafur Hjartar íslenskufræðingur og handritafræðingur, sem var afskaplega mildur og góður maður og einstaklega vel til fara, krakkar höfðu ekki hátt nálægt honum. Á þessum  stað fetaði maður sig áfram í lestri, fyrst barnabækur, síðan fullorðins spennusögur,  það er liðin sú tíð þegar þjóðin beið á öndinni eftir jólabókinni frá Alistair McLean.  Loks fór maður að kíkja inn í fullorðinsheim bókanna.  Þær eru margar minnistæðar stundirnar úr bókasafninu.  






 Forseti afhenti veðlaunin að vanda og fékk hlý orð frá Einari Má með smá salti enda í síðasta sinn sem hann gerir þetta ef að líkum lætur.  
Svo sá ég vitnað í þýskum fjölmiðli í Dag Sigurðsson landsliðsþjálfar þeirra þýsku sem hann var borinn saman við Arnald okkar Indriðason í rólegheitum og yfirvegun, hjá Arnaldi sé ekki óþarfa læti eða ofbeldi. Fjallað var um Skuggasund og hún kölluð meistaraverk.  
Læt ég svo þessum bókapistli lokið.