þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Gaggalagú: Brún egg og Sjúklingar

Nú titrar þjóðin út af eggjum, hænum og eftirliti. Enginn vil vera maður með mönnum nema taka þátt í eggjakastinu á Brúnegg.  Aldrei hefur komið jafnskemmtilegur maður í fjölmiðla að verja frjálsa samkeppni (eggjafyrirtækin eru mörg).  Eftirlitsfólkið var dásamlegt.  Það var svo sárt að ekki var farið eftir ráðleggingum þeirra.  Og bréfið fræga týndist í ráðuneytinu, auðvitað hjá Gunnari Braga!

Sumir vinir hugsuðu það sama og ég.  Það eru til fleiri varðmenn hænunnar en gamla fólksins á Íslandi.  Um leið barst málgagn eldri borgara inn hjá mér þar sem Benedikt Jóhannsson fræðir okkur um það að elli lífeyrisþegar hafi aldrei haft það betra.  Þarf meira til að sannfæra okkur? Svo er þetta góður tími til að ræða egg.  Allir í jólabakstri, nauðsynlegt að hafa góð egg.  Margir eflaust búnir að hamstra strax í dag.  Það er örugglega skortur á hvítum eggjum,  við viljum ekki lituð egg né kynblendinga. 

4 af 6 stjórnmálaflokkum virðast ekki vilja bjóða upp á hærri skatta.  Það eru bara VG og SF sem hafa talað um annað.  Skatta þurfum við til að bjóða upp á betri heilsugæslu.  Vilja ekki allir flokkar betri heilsugæslu.  Eða var það bara fyrir kosningaáróður.  Þannig að gamalt fólk og sjúklingar með ótal sjúkdóma verður að bíða á göngum eftir því að komast í aðgerðir eða að komast í stofnanir þar sem það fær eðlilega þjónustu.   Seinustu 5 árin hefur engin aukning verið á fé í þann málflokk hlutfallslega  (8,6 - 8,9 prósent af GDP samkvæmt OECD :  Healt at Glance.)  

Hvaða samkomulag haldið þið að xD og xV gera til að mynda stjórn????  Við bíðum, varla spennt.   




Hérna eru dæmi um Fésbókarvini míni í gærkvöldi og morgun: 



Ó, þú hneykslunarelska þjóð. Hversu mörg ykkar kaupa mjólkurvörur frá MS nokkrum sinnum í viku? Hversu mörg eru í viðskiptum við Vodafone eftir trúnaðarupplýsingalekann þaðan? Þarf ég nokkuð að halda upptalningunni áfram?

Auðvitað er það tilviljun en eigandinn hefur verið í framboði bæði fyrir Vöku og Sjálfstæðisflokkinn. Gaggalagú

Er það virkilega raunhæft að vonast til að þjóð sem telur hörmungar fólks af öðrum þjóðernum sér að mestu óviðkomandi, og vanrækir sína eigin sjúklinga og gamalmenni, taki skyndilega upp hjá sér að sýna skepnum mannúð?

Horfði seint og um síðir á þetta eggja-Kastljós. Það var illa unnið. Fréttadrengurinn með skeggið eins og krókloppin vannærður hvítur Ítali [sem er hænsnategund þið þarna 101 rottur] og það vantaði líka alveg frambærilega áhrifsmúsík undir dramatískustu skotin; dauða mús og lirfur - berrassaðar hænur og möppurnar hjá MAST. Annars er ég góður. Hef aldrei keypt brún egg, kaupi bara hvít egg úr innrömmuðum búrhænum og ætla að halda því áfram - geðheilsa mín er á því stigi að ég offra henni ekki með byltingarkenndum umsnúningi eins og þeim að fara allt í einu á gamals aldri að éta brún egg - fokdýr. Ekki kalla mig harðbrjósta. Nú sýnist mér hvort eða er allir komnir - 3. klst. síðar - út í hagræna útreikninga og niðurgreiðslueftirsjá á meðan hænan rotnar; lirfan fitnar og músin dansar.

Það verða aldrei oftar keypt brúnegg á þessu heimili en við munum halda áfram að horfa á Tryggva á Rúv. Læt embættismennina eiga sig í bili. Ekki veitir þeim af sparki í rass frá þeim sem hafa umboð til að sparka í rassinn á þeim.

MS, SS, salt, sykurskattur, gosdrykkjaframleiðendahagsmunir, náttúrulaxeldisspilling, lyfsölukerfi, hringamyndun, samkeppniseftirlitið, egg, hænur, lífræn vottun, salat sem ekki er salat, Íslendingar eru eymingjar. Aumingja Ísland.

Þetta er svo kaldrifjað og lýsir einhvers konar ískaldri fyrirlitningu í garð neytenda, sem borga 40% hærra verð fyrir eggin í þeirri trú að sómasamlega sé búið að dýrunum sem eggin eru fengin frá. Þetta snýst ekki bara um þetta tiltekna fyrirtæki heldur sýnir þetta landlægan hugsunarhátt, menningarástand, djúprætta spillingu sem verður til í rekstrarumhverfi þar sem neytandinn á engan rétt en „framleiðandinn“ nýtur verndar út yfir gröf og dauða.

Þjóðinni brá í Brún...

Aldrei hef ég séð umræðuefni leggja undir sig Facebook einsog brúnu eggin.


sunnudagur, 27. nóvember 2016

Dapurleg framtíð: Heilbrigðisþjónusta á vonarvöl

 Það er sorglegt að enn eigum við að þurfa að hlusta á rugl Bjarna Benediktssonar næstu fjögur árin.
 Eins og þetta:
 Bjarni Ben: Við höfum aldrei sett meiri fjármuni í Landspítalann
 Allar hans hugmyndir byggjast á röngum viðmiðum, þess vegna verður útkoman röng. Eins og OECD sýnir fram á í nýjustu úttekt sinni.  

Ísland skrapar botninn


Hvergi innan OECD er eins litlu fé varið í fjárfestingar í innviðum heilbrigðisþjónustunnar og á Íslandi og í Mexíkó. Þetta segir forstjóri Landspítalans. Ný skýrsla OECD sýnir að Ísland er mikill eftirbátur annarra ríkja Norðurlanda í útgjöldum til heilbrigðismála.(RUV 27.11. 2016).

Auðvitað segir Bjarni í næsta viðtali að þetta sé bull, því honum hefur lærst það í póltík að ef maður segir sama hlutinn nógu oft þá verður hann sannleikur.  Það notaði Trump í sinni kosningabaráttu. Það hafa óbilgjarnir leiðtogar gert löngum.  

Það er vita mál að við erum á röngu róli í Heilbrigðiskerfinu.  Í fyrra sagði forstjóri Alþjóðagjaldeyrisstjóðsins að það þyrfti að breyta skattastefnu í okkar heimshluta.  Kenningin um lægri skatta til að auka hagvöxt er alröng og úrelt.  Bjarni vill ekki viðurkenna þessa fullyrðingu, hann er fulltrúi hinna ríku á Íslandi.  Þess vegna breytist lítið.  Það var sorglegt að heyra í honum eftir kosningar þar sem hann gaf í skyn að það væru ekki til peningar í heilsugæsluna.  Og frændi hans Benedikt kom af fjöllum að það væru til flokkar sem vildu hækka skatta þótt þeir hefðu sagt það í kosningabaráttunni.  Að breyta viðmiðum í kvóta var eitthvað sem gekki ekki, eftir að hann hafði talað við einn stærsta útgerðarmann landsins.  Það gekki alls ekki.  Og Óttarrrrrr virðist fylgja þeim frændum.  Verði honum að góðu.  Segðu mér hverjir eru vinir þínir ..........
Hinir fátæku og millistéttin eru aflvélar hagvaxtarins, sagði Christine Lagarde forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sautjánda júní; ekki á Austurvelli heldur í Brussel. Hún hvatti stjórnvöld um allan heim til að breyta skattastefnu sinni svo hún þjónaði hinum verr stæðu en ekki hinum auðugu og valdamiklu, berjast gegn spillingu og vinna með öllum tiltækum ráðum gegn misskiptingu auðs og tekna. Það væri nefnilega misskiptingin sem héldi aftur af hagvextinum. Brauðmolakenningin er dauð.
Lagarde vitnaði til orða Frans páfa þegar hann talaði um efnahagsstefnu aðgreiningar; hvernig misskipting auðs, tekna og valda héldi hinum fátækari niðri við takmörkuð lífsgæði á meðan hinir betur settu hefðu öll tækifærin og lífsgæðin.(Fréttatímin, 18.06 2015)

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir þetta vera áhyggjuefni. „Vegna þess að við teljum að við ættum að geta varið mun meira af þjóðarkökunni, eða hlutfalli þjóðarkökunnar í heilbrigðismál. Ekki erum við hér á Íslandi að eyða fé í hernaðarútgjöld til dæmis, og það er alveg ljóst að það hefur verið mikið rætt um að það þurfi að gefa í í heilbrigðismálum og það sést alveg þegar tölurnar eru skoðaðar, þannig að ég held að menn verði að finna leið til að skipta kökunni þannig að hærra hlutfall og meira fé fari til heilbrigðismála,“ segir Páll.

 Ég læt fylgja með tvær töflur úr Health at Glance: Europe 2016 fyrir þá sem hafa ánægju af tölfræði : Það er ýmislegt sem er forvitnilegt.  Eitt sem kemur á óvart úr öllu ritinu, hve tölfræðirannsóknir Íslendinga eru ófullkomnar það er ansi margt sem vantar.  

En á þessum síðum kemur í ljós að nær engin aukning á hefur orðið í góðærinu seinustu 3 árin á fjármunum til Heilbrigðismála þrátt fyrir ummæli ráðherra.  við erum öll seinustu 5 ár með 8,6 - 8,9 % þrátt fyrir digurbarkaleg ummæli Bjarna og Sigmundar Davíðs  hvað þeir hafi gert betur en Jóhanna og Steingrímur .............. 






laugardagur, 26. nóvember 2016

Sólveig Sveinsdóttir Kveðja.


Lífið er oft ósanngjarnt, fer leiðir sem maður hefði ekki ímyndað sér. Þannig hugsanir fóru eflaust um hug margra sem sátu í troðfullri Háteigskirkju í dag í útför Sólveigar Sveinsdóttur kennara.

Við hjónin höfðum kynnst Sólveigu gegnum Sylvíu vinkonu okkar. Enduðum fyrir nokkrum árum í gönguhópi afar skemmtilegum þar sem við fórum um landið, Seyðisfjörð, Breiðdal,  að Víkingavatni


í Öxarfirði, heimabyggð og bæ Sólveigar og loks um Suðurlandsundirlendið. Í hópnum voru sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum hvers héraðs og margir bezzervisserar. Svo endaði hver dagur með umræðum og fjöldasöng, því gítarleikari og söngstjóri var með í ferð.

Það gat ekki farið hjá því að maður kynntist þeim sem maður þekkti ekki fyrir í þessum ferðum. Í þeim hópi var Sólveig. Hún var mikil göngukona og útivistarmanneskja. En það sem var sérstakt við hana hve það var notalegt að vera nálægt henni. Nærvera hennar var svo sérstök. Hú var rösk, jákvæð, hugmyndarík. Hún virkaði svo sterk.Því var það áfall fyrir fjölskyldu hennar, ættingja, vini og kunningja þegar það fréttist að hún væri komi með illvígan sjúkdóm sem engum eirði. Sem lagði hana  að velli á tæpum 4 árum.

Því sátum við í kirkjunni í dag og kvöddum hana, hver á sinn hátt. Minningar æddu um hugann, ganga á Hafrafell, leiðsögn hennar um heimaslóðir, áhugi hennar að nema nýjar slóðir. Tillitssemi og augnaráð forvitninnar. Dugnaður í matargerð og framreiðslu. Alls staðar nálægt hann Gústi, dýrlegur að ganga með um í náttúrunni alltaf með augun á jörðinni, að virða fyrir sér og uppgötva nýjan sannleika um gróður jarðar. Samkennarar hennar rifjuðu upp atburði úr skólalífi og kennslu. Á starfsferli hennar, upp í kollinn skutust minningar um úrlausnir hennar í hvunndegi skólastarfsins  þar sem hún gat verið ákveðin og ósveigjanleg. Hve hún var dáð af nemendum sínum. Ættingjar og vinir löngu liðna atburði sem fengu tár til að seytla niður kinnar.,,Eithvað sem við vissum ekkert um.

Svona er lífið, við hittumst og kveðjumst, hlustum á söng og sögur,  rifjum upp minningar, gleði og sorgarstundir. Líklega eigum við ekkert dýrmætara. Að sjá umhverfis okkur börn, systkini, vini og kunningja. Og kunna að kveðja með reisn. Það gerði Sólveig Sveinsdóttir. Þrátt fyrir óréttlæti þessa heims og annars. Vonandi getum við það eins og hún. Hennar leið er einnig okkar.
Skrifa myndatexta





föstudagur, 25. nóvember 2016

Benni fer á taugum, metsölubókin í ár.

Merkileg frétt í morgun, formaður í stjórnarviðræðum fer og hittir þriðja stærsta útgerðarmann landsins 
á fund daginn áður en hann slítur stjórnarviðræðum með því að sýna engan áhuga.  Leggur ekkert fram gerir ekkert. En tekur samt þátt.  Eru þetta ekki njósnir? Ætli Bjarni hafi fengið góðar fréttir? Eitt veit maður að þessi nýi flokkur fór inn í stjórnmálin á fölskum forsendum.  

Á sama tíma eru fjölmiðlar að koma með ósannar, lognar fréttir um gang mála.  Katrín hafi lokað á umræður um kvótamál og landbúnað.  Bæði rangt.  Allt þetta sannar að auðmenn á Íslandi ætla ekki að láta undan.  Allt er notað til að skrumskæla.  Og Ástarsaga aldarinnar, ætli húnn sé enn á fullu?

Fundur Benedikts og Guðmundar í Brim
Benedikt segir þetta ómerkilegar dylgjur, alls ekki hafi verið að ýja að því að fundur hans með Guðmundi í Brimi hafi haft einhver áhrif á stjórnarmyndunarviðræður, þetta sé eiginlega ekki svaravert, nema að í þetta sinn koma dylgjurnar úr óvæntri átt og að þær séu algerlega fráleitar.

„Það er rétt að Guðmundur hafði samband við mig á þriðjudag og sagðist vilja skilja „þessar vitlausu hugmyndir Viðreisnar“ um markaðsleið í sjávarútvegi. Ég sagðist fagna því að fá að skýra þær fyrir honum og ætti einmitt lausan tíma klukkan fimm þennan dag. Við hittumst með Gylfa Ólafssyni, aðstoðarmanni mínum, og Vilhjálmi Vilhjálmssyni í HB Granda, sem Guðmundur sagði að hefði líka miklar efasemdir um tillögur Viðreisnar.“

fimmtudagur, 24. nóvember 2016

Vonbrigði stjórnarmyndun og skattar, mál dagsins

Það er urgur og vonbrigði.  Framsókn kemur úr skápnum tilbúin í ástarleik.  Hvar hún lendir er annað mál hún er frekar lauslát sú kona.  Tilbúin að taka þátt í ýmsum leikjum.  Svo ég öfunda ekki Katrínu. 

Skrítið fólk aðallega landsbyggðafólk sem þráir að framsókn og vinstri græn lendi saman með íhaldinu. Er það svo hrætt um viðurværi sitt að það gleymi spillingu og sjálftöku eignafólks?  Byggist þeirra kerfi upp á slíku, mér verður flökurt þegar ég hugsa um það lið.  

 Góðar greinar í dag, Gunnar Smári er með skattarannsóknagreinar, Davíðstímabilið  og umræða hjá Gunnari Smára um skatttöku í ýmsum löndum. Ansi Áhugavert.  

þriðjudagur, 22. nóvember 2016

Stjórnarmyndum: Við bíðum spennt

Það er víða uggur og urgur. Ætlar stelpunni úr Álfheimum að takast það ómögulega?  Ætlar flétta Bjarna að sitja uppi með öll völd og þæga Viðreisnarmenn og Framsókn sér við hlið?  Ætla sundurleit öfl að sýna það að hið ómögulega er mögulegt?   

Það er margt sem þarf að sætta sig við, margt að sættast um, en það er þess virði.  Skattar, Velferð, Heilbrigðisþjónusta, Efnahagsmál, Samskipti við aðrar þjóðir, Landbúnaður, Sjávarútvegur, Stjórnarskrá.  Allt eru þetta flókin og erfið mál.  En það þarf ekki að gera  allt í einu.  Allir þessir flokkar verða að sýna að þeir geta stjórnað, geta gert málamiðlanir, stjórnar með láð og dáð. 

Fyrir utan gluggann, horfa íhaldsöflin á. Það er erfitt að vera ekki með og geta deilt og drottnað. Er mögulegt að það sé hægt að skapa réttlátara þjóðfélag. Byggja Landspítala sem fyrst, skapa betri kjör fyrir þá sem minna mega sín, fátæka, öryrkja, ellilífeyrisþega. Byggja samfélag án  frekju og yfirgangs.  Sætta hópa, búa til lífeyriskerfi fyrir alla.  
Mild framtíð og bjartsýnt fólk.

Þetta er draumurinn, sem oft steytir á skerum hvunndagsins.  En ... það er svo mikilvægt að halda eigendum landsins, fólksin og hafsins frá alræði, þið vitið um hverja ég er að tala.  Það þarf sátt án upplausnar.  

Þess vegna bíðum við spennt.  Við neitum að sætta okkur við annað.


sunnudagur, 20. nóvember 2016

Orð ársins Post-Truth

Orð ársins að mati Oxford Dictionaries er Post-Truth.  Þegar hlutlægni í staðreyndum er skilið eftir fyrir bí,  og tilfinningar og persónuleg trú, túlkun stjórnar.  Sbr. Brexit og Trump. Þetta orð hefur svosem verið í notkun á Íslandi eða hvað?  Allt frá Hruninu.
Spilling:  Ekki til hjá Sigmundi og Bjarna, þess vegna kjósa Íslendingar þessa menn sérstaklega Bjarna í hrönnum. 
Svik:  Mestu svikarar allra tíma Jóhanna og Steingrímur J.  Fólkið sem tók við erfiðasta þjóðarbúi allra tíma og kom okkur upp úr Sorinum.
Stjórnmál:  xD og xV eru með svipaða stefnu að flestu leyti.  

Nú vantar gott orð fyrir þetta fyrirbæri.  Einhver?



In the era of Donald Trump and Brexit, Oxford Dictionaries has declared “post-truth” to be its international word of the year.
Defined by the dictionary as an adjective “relating to or denoting circumstances in which objective facts are less influential in shaping public opinion than appeals to emotion and personal belief”, editors said that use of the term “post-truth” had increased by around 2,000% in 2016 compared to last year. The spike in usage, it said, is “in the context of the EU referendum in the United Kingdom and the presidential election in the United States”.

miðvikudagur, 16. nóvember 2016

Fátækt, Stjórnarmyndun og Spilling

Ég hjólaði í gær gegnum snjómuggu og storm í sjúkraþjálfun.  Þetta var venjulegur þriðjudagur.
Ég er einn af þessum fjölmörgu sem er kominn á eftirlaun sem þarf að halda skrokknum við byrjaður að vera í viðgerðum og lagfæringum. Ég hjólaði í gegnum Laugardalinn með vindinn í fangið upp brekkuna að Reykjavegi gegnum Teigana, yfir brúna á Kringlumýrarbraut áleiðis í Stjá í Hátúni, komin var röð hjá Mæðrastyrksnefnd úthlutun fyrir einstaklinga á þriðjudögum, fyrir fjölskyldur á miðvikudögum.

Fátækt er heimur sem ég þekki lítið í mínu umhverfi.  Þótt það séu ekki margt eignafólk þar. Flestir eiga í sig og á þótt fólk hafi mikmikið milli handanna.  En þetta eru veruleiki sem stór hópur fólks þarf að búa við.  Hægt gengur að fá þá sem stjórna okkur og búa til lagaramma að skilja þetta líf.
Þetta er eitt af stóru málunum sem næsta ríkisstjórn þarf að takast við.  Og Heilbrigðisþjónusta og uppbygging sjúkrahúsa og elliheimila og þjónustu. Svo mitt starfssvið, Mennta- og skólamálin.  Þetta eru mál sem hvíla á heimilunum í landinu langtum meira en réttlæti stóreignafólks að halda sem mestu af sínum eignum, hlutabréfum og fjármunum frá skattakerfinu. Réttlæti er hugtak sem á að ná til flestra, það er ekki bara fyrir hástétt og eignafólk.

Þess vegna varð ég glaður þegar kom í ljós að formanni Sjálfstæðisflokksins hafði mistekist að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð.  Gleðitíðindi vikunnar skrifaði ég á Feisbókina.
Og auðvitað var það varð- og hagsmunagæsla fyrir auðmennina í landinu, eigendur sjávarútvegsfyrirtækja sem var aðaatriðið í slitunum.  Eins og maður bjóst við.  Ég er einn af þeim sem vona að fjölflokkaríkisstjórn verði mynduð undir stjórn ástsælasta stjórnmálamanns þjóðarinnar. Þó ekki sé hún há í loftinu.  Sem takist á við stærstu málin sem þau geta komið sér saman um.  Stjórnarskrá, Fiskikvótamál, Stjórnarskrá plús Heilsugæslu og Velferðarmálin.  Ekki endilega í þessari röð.  ESB málið er ég svolítið efins um um þessar mundir.  Þó ég vilji að til langs tíma er nauðsyn á nánu sambandi við Evrópu. Svo ég er bjartsýnn fyrir umræður næstu daga.  En stjórnmálamenn þurfa að finna lausn og halda þjóðfélaginu gangandi.  Annars er hætta á óáran.

Ég varð hugsi yfir því að hlaupa í samræður við Sjálfstæðisflokkinn á meðan hann hefur ekki gert upp hug sinn til spillingarmála.  Grundvöllur heiðarlegs þjóðfélags er að neita að starfa með stjórnmálamönnum sem hafa orðið uppvísir að svikum og prettum í sambandi við það að fela fjármuni sína á vafasaman hátt.  Við eigum að segja NEI þangað til xD og xB hafa gert upp sín mál.
Það var sorglegt að sjá að Sigmundur Davíð heldur að hann geti valtað áfram í stjórnmálum og látið eins og ekkert sé.  Að mínu mati á hann ekkert erindi lengur í stjórnmálum.  Frekar en Bjarni Ben.  Þeir hafa brotið siðareglur samfélags sem við viljum búa við.  Þá á að skipta þeim út.  Svo er það einfalt.  Fyrir alla úr öllum flokkum. 

mánudagur, 14. nóvember 2016

Mild framtíð og bjartsýnt fólk.

Það er til bjartsýnt fólk. Sem dreymir um að milda Sjálfstæðisflokkinn. Gera hann góðan. Svo forystufólk hans hætti að fela fjármuni sína. Sjái að það þurfi að borga meiri skatta til að bæta heilbrigðis og velferðarkerfið. Hætti að nota Lögfræðingaskara til að sjá um að frádráttar-
                                                       

                                       
liðirnir verði sem flestir og stærstir.  Hætti að nota Morgunblaðið til að afvegaleiða umræðu undir stjórn Bubba og Útgerðarauðvaldsins.  Ungir XD liðar hætti að snæða Humar með Kampavíni um helgar meðan þeir bíði eftir þingsæti? 

Ekki hef ég tekið eftir stórvægilegum breytingum á stefnu XD í Kópavogi eða Hafnarfirði. Í samstarfinu við Bjarta Framtíð. Það sem ég hef séð eru furðuleg mál í Hafnarfirði. Þar sem nýfrjálshyggjan blómstrar. Og starfsfólki gefið í skyn að best sé að halda sér á mottunni. 

Kannski fást Sjálfstæðismenn til að breyta klukkunni, þá verður Lífið bjartara. 



Þetta sagði Björt í RUV:

„Mér myndi aldrei detta í hug að koma tilbaka til hans og annarra í Bjartri framtíð með stjórnarsáttmála sem hann gæti ekki verið stoltur af og við,“ sagði Björt Ólafsdóttir í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.
Hún bendir á að flokkurinn sé í góðu meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í stórum sveitarfélögum eins og Kópavogi og Hafnarfirði og hún segir að það þurfi að milda Sjálfstæðisflokkinn.
„Já, það þarf að gera það, að mínu viti. Þess vegna erum við í stjórnarmyndunarviðræðum við þau. Ég meina það eru mörg atriði þar sem við erum sammála, hugsanlega getum við dregið Sjálfstæðisflokkinn í það að vera frjálslyndari flokk að einhverju leyti, ég ber miklar vonir til þess.“

laugardagur, 12. nóvember 2016

Svört Framtíð Skert Flog

Það er svartur tími í gangi margir sjá svart ekkert nema svart. Trumparinn þessi gleðipinni virkar svo illa á marga. Ljós punktur, Jón Valur verður sendiherra BNA á Íslandi, Svo er það Óttarr, íslenski gleðilitapinninn, hann virkar illa á marga. Engeyingurinn Benni hefur slæm áhrif á hann. Breytir honum í leiðindagaur. Ekkert framundan nem SVIK, HARMUR OG DAUÐI. Skrifstofa ESB verður flutt út í Engey. Það verður sáttin sem allir sætta sig við. Landbúnaðar stefnan, ekkert mál, LENGI LIFI, DAUÐUR HESTUR! SVÍN ! Dr. Spock búinn að gleyma Panama. Fer í sumarleyfi til Seychelles eyja.

Hver getur staðist þegar Bjarni segir VOULES VOUS! Katrín fór illa á Því.  Það munu margir verða miður sín, það vantaði sterkt frumkvæði, Píratar vildu vera utan vallar, helst í spjallþáttum í útlöndum, ekki hægt að taka þátt í stjórnmálum án ábyrgðar. Útkoman verður bara SKERT FLOG!


föstudagur, 11. nóvember 2016

Leonard Cohen allur: Lengi lifi Cohen

Það var stóratburður þegar fyrstu plötur Leonards Cohen birtust í hljómbúðum landsins á seinustu árum sjöunda áratugar. 
Unglingar og ungt fólk læst á ensku þyrptist niður í bæ og tryggði sér eintak.  Lögin voru ekki spiluð daglega í útvarpi, sumir lágu yfir Radio Luxemburg við erfið hlustunarskilyrði.  En þegar plöturnar komust til landsins, var platan tekin úr umslaginu, sett á fóninn, armurinn settur á, nálin iðaði og tónarnir streymdu inn í heilana.  Sumir urðu aldrei samir.  


Kunningi minn í Noregi, var á 3 tónleikum, á flest sem kom frá honum, tónlist, ljóð og sögur,  heimsótti heimili hans 5 sinnum á eyjunni Hydru í Grikklandi. Svona voru hörðustu aðdáendurinir.  Eltu hann um alla Evrópu á tónleikum.  Þegar maður rifjar upp lögin, ástarljóðin og sögur af ungu fólki, kynlíf og erótík, heimspeki, ýmislegt sem tengdist Biblíunni, hann var Gyðingur sem datt inn í Búddisma, gekk í klaustur, þversögnin lífsnautnamaður með örvæntingu innra með sér, húmor sem heillaði, hann átti gott að starfa með öðru fólki, í kringum hann voru lagasmiðir sem sömdu melódíurnar sem urðu svo Cóhenskar, það var eins og hann einn hefði samið þetta. 




Seinasti diskurinn hans,You want it darker,  kveðja hans til okkar, kveðja til lífsins, dauðinn er við næsta götuhorn, verður eflaust talinn einn af hans bestu.  Sonur hans Adam, á þakkir að hann komst í okkar hendur. Leonard gat ekki hreyfst sig orðið út af bakkrankleika, þannig að hann raulaði textana sína heima hjá sér.  Hann hefur hljómað oft seinustu dagana hjá mér. Þótt ég byggist ekki við að fá þessa frétt í nótt.  Það er ýmislegt sem dynur yfir heiminn um þessar mundir.  Margt sem fær mann til að örvænta.  En eitt er víst, lögin munu hljóma áfram.  Hugga okkur, gleðja. Cohen er allur.  Lengi lifi Cohen. Image result for leonard cohen

miðvikudagur, 9. nóvember 2016

Trump: Kötturinn í sekknum

Get ekki sagt að hjarta mitt hafi numið staðar við það að vakna í nótt og kíkja á Ipaddinn minn og sjá að Trumparinn var kominn á fleygiferð í átt til sigurs.  Við hjónin höfðum svona hálft í hvoru búist við þessu. Donald var orðinn maður alþýðunnar eins og sumir myndu segja. Hvað sem hann verður þegar hann er kominn í Hvíta húsið.  

Óhugnanlegasta augnablikið á seinustu dögum kosningabaráttunnar var þegar Trump og stuðningsmenn hann hrópuðu saman We build a wall  Við byggjum vegg.  Mér var hugsað til annars Múrs í Miðausturlöndum.  Ég sá í gærkvöldi fréttakonu sem var að tala við leigubílstjóra á ferð þeirra um syðstu svæði BNA.  Hann var stuðningmaður Trumps og var aldeilis með múrnum. Og hafði rök fyrir því.  Það átti að koma í veg fyrir dópsmygl, umsvif mexikósku glæpagengjanna inn í BNA. Hann benti á hallir sem glæpakóngarnir voru búnir að hreiðra sig um í fyrir féð af dópinu.  En hann minntist ekkert á þátttöku bandarískra glæpagengja í dópinu, það var allt annar hlutur. Mexíkobúar áttu að leysa sín glæpamál hinum megin við Múrinn Vegginn.  Á svona einfaldan hátt gat Trump náð til lægri stétta (varla miðstéttanna hennar Lilju). Hlutirnir gerðir einfaldir og straumlínulagaðir.  Allt sem er slæmt í BNA (ekki Ameríku eins og Trump segir) er útlendingum að kenna.  Töpuð atvinnutækifæri, slæmir skólar, Svo gat hann ýjað að vafasömum samskiptum Hillary og starfsmanna hennar við erlend ríki og þjóðhöfðingja (sérstaklega Podesta bræðurnir).  Sérstaklega Saudi Arabíu  sem fékk marga frjálslynda Bandaríkjamenn að sitja heima eða kjósa aðra en hina tvo stóru (Hillary og Trump). Þótt það sé svo sem engin stórfrétt að bandarískir stjórnmálamenn hafi náið samband við olíufursta í Mið-Austurlöndum

Svo lesendur góðir, Bandaríkjamenn hafa keypt köttinn í sekknum.  Hvað gerist þegar sekkurinn er opnaður það vitum við ekki.  Það er merkilegt að horfa á úrslitin á korti. Hvað þetta hefur áhrif á okkur utan BNA það er spurningin.  STÓRA SPURNINGIN:  

  

þriðjudagur, 8. nóvember 2016

Við viljum ábyrga róttæka stjórn!

Katrín Jakobs á að mynda nýja stjórn annað er ekki í kortunum.
Annars hélt ég að það væri Birgitta sem hefði lýst því yfir að hún ætlaði styðja Minnihlutastjórn Katrínar Og ekki að fara í stjórn. Hvar hefur Katrín lýst því yfir að hún vilji ekki fara í stjórn með Pírötum fyrir hönd VG? Er Jón Steinsson  einhver sér fræðingur í innanbúðarmálum flokka á Íslandi? Er Smári að segja rétt frá?  Er þetta ekki píslarvætti Píratanna og viðbrögð loks við kosninga tapinu?

Katrín á að mynda stjórn..... Og Píratar eiga að taka ábyrgð og vera með !!


Jón Steinsson undrast útilokun Pírata - Sjálfsmorð að VG fari í stjórn með Sjálfstæðisflokknum

Persónuleg reynsla hagfræðingsins af starfi við Pírata er góð




„Mín persónulega reynsla af samskiptum við Pírata hefur verið afskaplega góð sérstaklega varðandi sjávarútvegsmálin en einnig önnur mál,“ segir hagfræðingurinn Jón Steinsson í pistli á Facebook-síðu sinni. Hann undrast það mjög að Viðreisn, Björt Framtíð og Vinstri grænir virðast veigra sér við að fara í samstarf með Pírötum og myndi umbótastjórn með stuðningi Samfylkingarinnar. Sérstaklega í ljósi þess að Píratar hafa gefið eftir alla ráðherrastóla. 
„Er ekki á það reynandi að unnt sé að vinna með Pírötum? Málefnasamhljómur virðist vera ansi miklu meiri á meðal CAV+PS en öðrum kostum í stöðunni,“ segir Jón. Þá segir hann að það hljóti annars að teljast pólitískt sjálfsmorð að VG fari í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Undanfarið hafa ýmsir fjölmiðlar greint frá því að þreifingar væru meðal ákveðins hóps innan VG um að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í grein sem birtist í morgun á DV voru slíkar hugmyndir strikaðar út af borðinu. Þar ítrekaði Katrín Jakobsdóttir þann vilja sinn að mynda stjórn til vinstri og aðrir flokksmenn kepptust við að gera lítið úr þessum valkosti. Eina sem gæti breytt afstöðunni væri langvarandi stjórnarkreppa sem myndi neyða Vinstri Græna til þess að íhuga aðra kosti.

Harmar að aðrir flokkar afskrifi Pírata

„Ýmsum virðist meira umhugsað að afskrifa Pírata en að ræða við okkur. Það er leiðinlegt því okkur langar að eiga uppbyggilega samtöl við alla,“ segir Smári McCarthy í athugasemd við pistil Jóns. Hann ítrekar síðan þá möntru Pírata að flokkurinn muni ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum:
„Það er ekki í boði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki enn tekið til hjá sér eftir spillingarmálin sem komu upp á síðasta kjörtímabili. Þess vegna lofuðum við kjósendum okkar að við myndum ekki fara í ríkisstjórnarsamstarf með þeim. Hitt er annað mál, að hugsanlega geta Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn náð samhljóm í ýmsum málum, sem snúa að borgararéttindum og einstaklingsfrelsi, og hugsanlega jafnvel því sem snýr að gagnsæi stjórnkerfisins og ábyrgð stjórnmálamanna ─ með það fyrir augum að auka tiltrú almennings á Alþingi,“ segir Smári.

mánudagur, 7. nóvember 2016

Panamaundanskot: Persona non grata

Skrúfurnar eru hertar á Panama í sambandi við skattaundanskot.  Nú í lok október eru þeir komnir í lið með 105 þjóðum til að auka gegnsæi og berjast gegn skattsvikum. Það er ekki í lagi að koma sér undan að greiða skatta þó að ótrúlegur fjöldi Islendinga finnist allt í lagi að kjósa fólk með vafasama fortíð í  undanskoti á fjarlægum ströndum og eyjum.    Eflaust eru þetta slæm tíðindi fyrir skattsvikara en það verður nú að hafa það. 

Ég legg til að flokkar sem vilja sýna að þeir meina eitthvað með gagnrýni sinni á þvílíkt athæfi sem feluleikur er með fjármuni, neiti að taka þátt í eða semja við aðila sem hafa orðið uppvísir að slíku. 
Það er allt í lagi að semja við Framsókn eða Sjálfstæði um stjórnarmyndun ef Bjarni, Ólöf og Sigmundur Davíð koma ekki nálægt því.   Einstaklingar sem hafa orðið vísir af þeim brotum eiga að vera Persona Non Grata í stjórnmálum.  





Panama joins international efforts against tax evasion and avoidance


27/10/2016 - Panama signed today the Multilateral Convention on Mutual Administrative Assistance in Tax Matters, making it the 105th jurisdiction to join the world’s leading instrument for boosting transparency and combating cross-border tax evasion. The signing shows that Panama is now implementing its commitment to fully cooperate with the international community on transparency.
“Panama’s decision to sign the multilateral Convention is a confirmation of its commitment to take the necessary steps to meet international expectations in the fight against tax evasion,” OECD Secretary-General Angel Gurría said during a signing ceremony with Panama’s Ambassador to France, María Del Pilar Arosemena de Alemán. “It also sends a clear signal that the international community is united in its efforts to stamp out offshore tax evasion. We will continue our efforts until there is nowhere left to hide.”

föstudagur, 4. nóvember 2016

Parísarsamningurinn: Hnignun eða framþróun.

Í dag er merkur dagur, merkari en stjórnarskipti, merkilegri en Airwaves, merkari en flest. 4. nóvember.  Parísarsamningurinn gengur í gildi. Fáeinir fussa yfir þessu, skilja ekki þróun umhverfis okkar. Skilja ekki alvöru þess að koma í veg fyrir áframhaldandi hnignun jarðarinnar.  Gróðurhúsaáhrif, bráðnun jökla, hækkun sjávar, breytingu loftslags. 

En mikill meirihluti fólks vill að við vinnum að lausnum, það er erfitt, en allt er betra en að gera ekkert.   Ríkisstjórn okkar og umhverfisáhrif setti fram áætlun í 16 punktum, plús nokkur samstarfsatriði með öðrum löndum( sjá hér að neðan). Líklega er þetta ekki nóg en með kraftmeiri ríkisstjórn verður eflaust meira gert.  Þetta er eitt af mörgu sem sýnir þörfina á nýrri framfarasinnaðri vinstri og miðstjórn, umhverfismálin verða enginn leikur.  Spurningin er um framhald lífs á jörðinni. Það er ekki sjálfsagt að það verðir mannlíf eða annað líf á eyjunni Ísland. Það eru til svo sterkari öfl í náttúrunni. Þannig er nú það.




Parísarsamningurinn gengur í gildi á heimsvísu

Parísarsamningurinn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum gengur í gildi á heimsvísu í dag, 4. nóvember. Samningurinn var samþykktur í París 12. desember 2015. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir samninginn fyrir Íslands hönd 22. apríl 2016 og Alþingi samþykkti samhljóða fullgildingu hans 19. september sl. að tillögu utanríkisráðherra. Ísland var þar með meðal fyrstu 55 ríkja sem þurftu að fullgilda til að samningurinn gengi í gildi á heimsvísu.
Parísarsamningurinn markar tímamót í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, en með honum er í fyrsta sinn kveðið á um aðgerðir af hálfu allra ríkja heims til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðildarríki samningsins setja sér markmið um minnkun losunar, svonefnd landsákvörðuð framlög, og myndar Parísarsamningurinn lagalegan ramma utan um þessar skuldbindingar. Ísland sendi inn sín markmið þann 30. júní 2015 þar sem stefnt er að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030, miðað við 1990, í samstarfi við aðildarríki ESB og Noreg.
22. aðildarríkjaþing Rammasamnings S.þ. um loftslagsbreytingar hefst í Marrakesh í Marokkó 7. nóv. Það verður jafnframt fyrsta aðildarríkjaþing Parísarsamningsins, en hann er byggður á grunni Rammasamningsins, sem hefur að geyma almenn ákvæði um losunarbókhald og skyldu ríkja heims að bregðast við loftslagsbreytingum af manna völdum. Fyrir þinginu liggur m.a. að útfæra nánar ýmis ákvæði Parísarsamningsins, s.s. um bókhald ríkja varðandi losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis með skógrækt og öðrum aðgerðum, aðlögun að breytingum, fjármál o.fl.

Sóknaráætlun Íslands miðar vel áfram

Ríkisstjórnin samþykkti sóknaráætlun í loftslagsmálum í aðdraganda Parísarfundarins 2015 til að efla starf í loftslagsmálum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur tekið saman yfirlit yfir framkvæmd sóknaráætlunar. Áætlunin byggir á 16 verkefnum, sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka kolefnisbindingu, efla þátttöku í alþjóðlegum verkefnum og styrkja innviði loftslagsmála til að takast á við hertar skuldbindingar. Áætlunin gildir til þriggja ára og er starf undir hennar hatti hugsað sem viðbót við fyrri áætlanir og markmið. Sóknaráætlun er fyrsta heildstæða áætlun Íslands í loftslagsmálum sem byggir á fjármögnuðum verkefnum og er ekki síst ætlað að virkja fleiri til góðra verka á því sviði - fulltrúa atvinnulífs, vísindamenn, stofnanir og almenning.
Samkvæmt yfirlitinu eru öll verkefnin komin af stað og sum vel á veg. Tengill á yfirlitið í heild er hér að neðan, en nokkur dæmi um verkefnin eru:

  • Í byrjun desember n.k. verður úthlutað styrkjum vegna innviðaverkefna fyrir rafbíla, en styrkir til þeirra verkefna voru auglýstir í haust.
  • Vegvísir um samdrátt í losun í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi er vel á veg komin og ljóst að útgerðir hafa mikinn áhuga á að daga úr losun.
  • Unnið er að vegvísi um samdrátt í losun í landbúnaði í samvinnu við Bændasamtökin og liggur mat á möguleikum í því sambandi nú fyrir og er unnið á grundvelli þess.
  • Sett hefur verið upp vefsíða með upplýsingum og leiðbeiningum um hvernig draga megi úr matarsóun, en talið er að nú sé um þriðjungi framleiddra matvara sóað. Þá er lokið fyrstu rannsókninni á landsvísu á umfangi matarsóunar á heimilum og fyrirtækjum á Íslandi.
  • Unnið er að merkingum í landslagi við skriðjöklana í Skaftafelli og er það liður í verkefninu „Jöklar Íslands – lifandi kennslustofa um loftslagsbreytingar.“  Með verkefninu eru tengd saman vísindaleg vöktun jökla, fræðsla og ferðaþjónusta og er talið að þessi nálgun geti vakið mikla athygli.
  • Verkefni á sviði skógræktar og landgræðslu eru komin af stað og verkefni sem miðar að endurheimt votlendis var hleypt af stokkunum með athöfn á Bessastöðum sl. sumar, þar sem mokað var ofan í skurð í landi Bessastaða.

Undir hatti sóknaráætlunar eru einnig verkefni sem eiga að stuðla að samdrætti í losun á heimsvísu, svo sem verkefni á vegum Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, aðkoma að stofnun alþjóðlegs jarðhitasambands og framlög til Græna loftslagssjóðsins.
Sóknaráætlun í loftslagsmálum – yfirlit yfir framgang verkefna (pdf-skjal)



Myndir: Greinarhöfundur



miðvikudagur, 2. nóvember 2016

Útstrikanir: Það er svo gott að gleyma

Að stroka út.  Þessi þrjú urðu fyrir útstrikurum.
Eiga þau það skilið?  Gengur þetta ekki of langt?
Allt er þetta tiltölulega ungt fólk á uppleið (svona miðað við mig).

Hvers vegna lenda þau í þessu (mjög algengt orðalag nú til dags), að lenda í því að myrða mann, nauðga konu, hrista barni svo það bíða ævilangan skaða.  Stela peningum, fela peninga. Að lenda í.

Sigmundur Davíð, Gunar Bragi, Þorgerður Katrín. Ætli fólki með 2 nöfn eigi hættara að lenda í ??
Sigmundur var næstur því að vera þurrkaður út og lenda utan alþingis. Enda átti hann það skilið.  Siðferðishningun hans er með endemum.  Það vita þeir sem vilja.  En að það skuli vera stór hópur fólks á Norð-Austurlandi sem telur hann ekkert hafa brotið af sér, það er sorglegt, afar sorglegt. 18% strikuðu hann út. Gott hefði verið að fá rökstudd álit viðkomandi 18 prósenta, það hefði verið skemmtilegt fyrir stjórnmála og félagsfræðinga. Og okkur landa hans.  





















Gunnar Bragi hefur ekki falið peninga í aflandseyjum, eftir því sem best er vitað.  En dómgreindarleysi hans í stjórnunarathöfnun er við brugðið.  Einstæður hæfileiki hans að finna eðlilegt að skipa flokkssystkini sín í trúnaðarstöður á vegum ríkisins er óumdeilanlegur!  Ætli hann sé enn ekki að?  Ríkisstjórnin situr ennþá!   11% strikuðu hann út, var það vegna þessara aðgerða eða er eitthvað sem kjósendur hans vita sem við vitum ekki. Gaman væri enn að fá rökstutt álit kjósenda xB.

Þorgerður Katrín er landskunn manneskja, var yfirmaður minn um skeið sem menntamálaráðherra, ég á lítilsigldri ríkisstofnun hún í hinu hæsta ráðuneyti.  Nú yfirgefur hún flokk sinn sem hefur alið hana upp. Vill vera þekkt fyrir Viðreisn þjóðarinnar  ásamt mörgum úr hennar fyrri flokki og ýmsum úr öðrum flokkum, líklega mest úr Samfylkingunni og Framsóknarflokknum jafnvel einhverjum sem yfirgáfu Pírata á seinustu kosningametrunum.  Svo eru ekk allir sem hafa gleymt fjármálum þeirra hjóna.  Þau voru alræmdir Hrunverjar, dældu peningum í ýmsar áttir, reyndu meira að segja að koma í veg fyrir að fólk austur á landi kæmist að leiðum ættingja sinna í kirkjugarði nokkrum.  Hún veit að hún er ekki óumdeild. 8 % strikuðu hana út.  Það er nú gott. Það eru ekki allir siðspilltir stjórnmálamenn sem vita það eins og útstrikunarfélagar hennar bera gott vitni um.   Og fyrrum félagar hennar í Sjálfstæðisflokknum, fjármála og innanríkisráðherrar. Í öllu villjum við vera fremst í fylkingu, í heimsklassa.   

Eftir nokkra daga vitum við hverjir hafa tekið við stjórnartaumum í nýrri ríkisstjórn. Örugglega gætu einhver af þessum þrem hlammað sér ofaní ráðherrastóla.  Án þess að blikna eða roðna jafnvel blána.  Þau vita að betra er að vera alræmdur en óþekktur.  Ansi yrði það táknrænt fyrir þessa þjóð ef xD, xB og xC myndu enda með  að stjórna saman. Ælufnykinn af okkur myndi leggja um allan heim.  Einhver okkar munu mótmæla á Austuvelli aðrir sem mótmæltu í vor og kusu síðan þessa flokka sitja eflaust heima fyrir framan skjáinn búin að gleyma öllu sem hefur gerst seinustu mánuði.  Það er svo gott að gleyma.  



Mynd með færslu