laugardagur, 31. janúar 2015

A most wanted Man: Fín John Le Carré mynd í Bíó Paradís

Það fer stundum lítið fyrir smáperlum í kvikmyndaiðnaðinum.  Eins og A most wanted Man, gerð eftir einni af seinustu sögum John Le Carré. Þessi mynd hefur aðallega verið rædd sem ein allra síðasta mynd stórleikarans Philip Seymour Hoffman áður en hann tók líf sit.  Hann er með sanni ansi
góður sem þessi druslulegi, drekkandi og reykjandi njósnaforingi, sem alltaf reynist seinheppinn í málum sínum. Svo er auðvitað Wilhelm Dafoe þarna líka. 

En myndin er bara með betri njósnamyndum seinni ára, hæg og sígandi, en allt gengur upp, andi njósnastarfsemi eftir 11. september.  Þar sem allir eru með skrekk og tortryggnin allsráðandi, ég tala nú ekki um í Hamborg, þaðan sem ýmsir þátttakendur í Turnaárásninni komu. Öll hlutverk eru velskipuð, margir sem maður hefur séð í smærri myndum, sumir á uppleið, eins og ungi rússneski leikarinn sem leikur Rússa-Tsétenann sem kemur allri flettunni af stað. Þjóðverjinn Daniel Brühl, meira að segja Robin Wright í smáthlutverki amarísks njósnara.  Le Carré aðdáendur munu elska þessa mynd, en þeir sem vilja botnlausan hasar verða fyrir vonbrigðum.  En persónusköpunin er príma, myndataka og leikstjórn sömuleiðis. Anton Corbijn sem gerði hina prýðilegu mynd um Joy Division,  Control og The American með Clooney, auk ótal tónlistarmynda.

Svo aðdáendur njósnamynda, kaldastríðsmynda, hryðuverkamynda hafa gaman og munu njóta anda Le Carré sem skilar sér vel.  Hún er sýnd í Bíó Paradís, átti vist ekki erindi á aðra staði þótt það væri reynt. Þeir af eldri kynslóðinni sem eru hræddir orðið að fara í bíó, losna þarna við auglýsingar, geta fengið sér Happy Hour bjór og séð góðar myndir.  Þær eru margar góðar mun þessar mundir. Whiplash ein af Óskarskandidötum sem hefur vakið æ meiri athygli.
Winter Sleep tyrkneska myndin sem fékk Gullpálmann í Cannes í fyrra
svo er fjölskyldumyndin Believe um börn og fótbolta sem vakti athygli hér á Barnakvikmyndahátíð.