þriðjudagur, 25. febrúar 2014

Sviss og Ísland: Einhverjar afleiðingar?

Það setur að manni hroll yfir siðleysi íslenskra valdamanna þessa dagana.  

Þeir snúa heilum sínum ótt og títt inn í höfuðskeljunum, og koma með afbakanir á loforðum sínum. Ætli það nægi ekki til þess að stuðningsmennirnir hrópi húrra og votti:  Þetta er sannleikurinn þetta er málið.  Ég veit það ekki.  Það læðist oft örvænting inn í huga manns þessa dagana. 

En eiga gjörðir þessara manna aldrei að hafa einhverjar afleiðingar?   

Ég rakst á í gærkvöldi grein í International New York Times þar sem fram kemur að þjóðaratkvæðagreiðsla Svisslendinga um nýbúa og stöðu þeirra í landinu er farin að hafa áhrif á menntunar og rannsóknaráætlanir í samskiptum þeirra við ESB. Það er Erasmus + og Horizon 2020 sem er 80 billjón evru rannsóknarverkefni.  Evrópusambandið hætti viðræðum við Sviss eftir að fyrsta framkvæmd nýju þjóðarsamþykktarinnar kom í ljós.  Króatar fá ekki að vinna í Sviss í samræmi við reglur ESB.  

Ætli verði ekki svipað með okkur bráðum,  menningar og menntunarverkefni verða ekki í áskrift.  Við sáum hin yndislegu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fyrstu hreyfingunni á styrkjamálunum í haust.  Við eigum að fá allt en ekki leggja sjálf neitt  til málanna.  Hvað ætli það hafi spilað í brottför Bandaríkjamanna sú vissa þeirra um okurverð á framkvæmdum fyrirtækja okkar á Keflavíkurvelli og víðar, sem heitir á mannamáli Spilling.   Sem oft var rætt í þingnefndum í Washington. En sjaldan á sölum Alþingis á Íslandi. 

Svo, lesendur góðir, kippum okkur ekki upp við ramakvein,  þegar að því kemur.  Þegar stjórnmálamenn siðleysis og spillingar fara að lifa það að gjörðum fylgja afleiðingar.  ESB hefur sjálft hafið umræðu um spillingu í bandalaginu. Við þurfum víst lengi að bíða að Sigmundur Davíð og Bjarni hefji slíka umræður.  Það er gott að hafa í huga að þessir karlar eru auðmenn sem hafa aldrei þurft að takst á við líf venjulegs fólks.

 
Sumargestir

við höfum of lengi verið sumargestir
reikað um blómstrandi engi og syngjandi skóga
nú er vetur í nánd
laufin farin á vit allra veðra
snjórinn felur sig í hótandi skýjum

óvíst um framtíðarstað