föstudagur, 18. apríl 2014

Hallgrímur Pétursson: Maður allra tíma og flámælges.....

Mikið er nú Hallgrímur Pétursson merkilegur maður.  Enn eiga ótal hlutir við, sem hann orti fyrir 300 og eitthvað árum.  Það er eins og hann sé maður þessarar hátíðar.  Það er alls staðar verið að fjalla um hann. Hann er vissulega maður allra tíma. 
 Það er fátt mannlegt sem ekki er honum viðkomandi.  Það fór ýmislegt á flug við seinasta flutning Megasar á Passíusálmunum í dag.  Við eigum listamenn sem koma þessu listaverki til skila svo unun og gleði er að.  Það var svo mikil gleði í Grafarvogskirkju i dag.  Fjölbreyttar útsetningar og glitrandi flutningur.  Troðfull kirkja, margir sem hafa mætt á alla þrjá tónleikana.  

En ekki hefði þetta verk orðið til án Hallgríms, sem fjallar um trúna sína, líf og dauða, valdsmenn og græðgi, frið og stríð, gæsku og grimmd, fátækt og ríkidæmi, rikisbubba og glæpamenn, málfar og flámælge.  Flest sem Megas hefur einnig  fjallað um í söngvum sínum. Meira að segja unglingavandamálin eru til hjá Hallgrími, ungdómsþverlyndi talar hann um. Enda virðist hann sjálfur hafa verið í æskuuppreisn.  

Ekki hefðu Passíusálmar heldur orðið til án sögunnar um þennan sérkennilega mann, Jesúm.  Þessarar merkilegu sögu um mann sem lifði og dó og reis upp aftur. Hvort sem hann var til eða ekki.  Sem enn hefur þó ótal, hugmyndir,  hugsanir og boðskap til okkar að færa.  Þessi einfalda saga.  Saga sem nær þess vegna til allra. Sem hefur frelsað svo marga og komið ýmsu óhugnanlegu til leiðar.  En við segjum bara í dag að það allt sé bara mannanna verk.  Í tilefni hátíðarinnar.  Og þessa dags sem í bernskuminningunni var svo langur, það mátti ekkert gera, allt var lokað.    Svo óska ég gleðilegra páska!





Gefðu að móðurmálið mitt

minn Jesú þess ég beiði
frá allri villu klárt og kvitt
krossins orð þitt út breiði
um landið hér
til heiðurs þér
helst mun það blessun valda
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.