föstudagur, 2. ágúst 2013

Norður-Atlantshafsríkjabandalag: Er ekki kominn tími????

Skrítin staða hjá Færeyingum, þeir eru í ESB og þó ekki.  Nú fá þeir refsivist hjá bandalaginu sem þeir eru hluti af. Skrítið.  

Er ekki kominn tími til að ræða stofnun NABandalagsins, Færeyja, Grænlands og Íslands af fullri alvöru. Þessari hugmynd hefur verið hampað af mér og fleirum.  Sterkt bandalag smáþjóða með öflugri landhelgi og auðlindum.  Þar sem 3 fylki verða með sjálfræði og veldi eins og þarf. Þar sem náttúra og umhverfisvernd verða í hávegum.     

Ræðum þetta í alvöru.  

Eða hvað?
 

Gúlagið: Vera Hertsch og stórvirki Jóns Ólafssonar

Lauk við að lesa bók Jóns Ólafssonar, Appelsínur frá Abkasíu,  uppi á Húsafelli í mesta hitadegi  sumarsins.   Sannarlega er þetta ein áhrifamesta bók á íslensku sem ég hef lesið upp á síðkastið.  Þar fer saman firna áhrifarík örlagasaga einnar konu, þar sem hún speglar örlög milljóna; svo eru ansi góð vísindaleg vinnubrögð .  Miðað við erlendar bækur sem ég hef kynnt mér eru hér á ferðinni mjög gott yfirlit yfir Hreinsanirnar miklu á fjórða áratugnum.  Inn í þær er fléttuð harmsaga  Veru Hertzsch og samband hennar við Íslendinga; Benjamín Eiríksson, Halldór Laxness og Eymund Magnússon.  Í bakgrunninum eru síðan ýmsir sem koma minna beint við sögu; Þóroddur Guðmundsson, Eyjólfur Árnason, Eggert Þorbjarnarson, Stefán Pjetursson og fleiri.  Auk fjölskyldu Benjamíns Eiríkssonar sem reyndi að fá upplýsingar um örlög Veru Hertzsch og dóttur hennar. 

Hver einstaklingur sem hefur áhuga á sósíalisma, vinstri stefnu og sögu 20. aldarinnar hefur velt fyrir sér þessum furðulega sorgarleik sem saga Sovétríkjanna varð, en um leið átti þessi saga eftir að móta nær alla öldina.  Fyrst var fjallað um þessa sögu út frá þeim aðstæðum sem urðu með tilkomu nasismans, Kreppunnar miklu og Kalda stríðsins.  En síðan hefur athyglin beinst að innviðum og hugmyndafræði þessa samfélags og einstaklingum sem risu til valda.  Þá fyrst og fremst heljartökum Félaga Stalíns sem átti ekki fáa aðdáendur um allan heim lengi fram eftir öldinni.  Einnig á Íslandi. 

Það sem veldur stórtíðindum hjá okkur eru hugleiðingar Jóns um stöðu Halldórs Laxness, hvað hann gerði og hvað hann hefði getað gert.  Mér finnst það vera hugsanir sem eiga rétt á sér.  Þær breyta eflaust ekki heildarstöðu Halldórs sem höfuðrithöfundar þjóðarinnar og heldur ekki sem manneskju.  Alla vegana hafði ég ímyndað mér fyrir langa löngu leiðslukerfi skáldsins í heilahvelinu.   Ég hef alltaf ímyndað mér að hann væri manneskja sem væri enginn guð, heldur maður sem var snillingur á sínu sviði en hafði mannlega breyskleika og veikleika.   Stundum var hann hrokagikkur, barnslegur og tækifærissinni. Á öðrum tímum var hann þetta einstaka fyrirbrigði sem mun halda nafni hans á lofti lengur en flestra annarra samtímamanna hans. Og hann skrifaði svo Skáldatíma þar sem hann gerði Veru ódauðlega í heimi minninganna. Án þess er spurning hvort hún væri yfirleitt til nema í huga nokkurra ættingja og vina.   

Ég hnaut um skrif Jóns um Árna Bergmann á tímum kalda stríðsins,  mér finnst Árni ekki vera dæmigerður fulltrúi Sovétvina sem vissulega voru margir til á eftirstríðsárunum. Hann skrifaði eflaust nokkrar greinar eins og Jón tekur sem dæmi um framfarir í Austur-Þýskalandi sem voru ansi algengar á þessum tíma, ansi barnalegar nú á tímum.  Hann skrifaði líka margar gagnrýnar greinar um ástandið Austantjalds.  Stóru þáttaskilin verða með 68 kynslóðinni, hjá fólki á þeim aldri verða Sovétríkin aldrei neitt draumaland, þar er umræðan um lýðræði, jöfnuð og sósíalisma sem er aðalatriðið. Svo alhæfingar um afstöðuna til Sovét og skrif vinstri manna þurfa meiri og ítarlegri rannsókn heldur en nokkrar síður í bókinni.  

Svo lesendur góðir, þetta er erfið bók að lesa að mörgu leyti, efnisins vegna, en hún er vel skrifuð og vel upp byggð.  Svo mér fannst hún ansi góð.  Á eflaust eftir að lesa hana aftur.  Svo er heimildaskráin ansi girnileg fyrir þá sem vilja afla sér fróðleiks, ég er með bók Önnu Applebaum nú við höndina um Gúlagið: Gulag A History of the Soviet Camps. Svo eru bækur Solsenitsyns auðvitað skyldulesning öðru hverju. Og netið .....