fimmtudagur, 31. júlí 2014

Ghaza: Að vera manneskja

Það er erfitt að vera manneskja. Að tilheyra þessari tegund sem gengur svo oft fram með þvílíkri grimmd og skepnuskap að manni fallast hendur. Að nær allir af einni þjóð lýsi yfir ánægju með það að slátra nágrönnum sínum, konum, börnum, körlum. Að voldugasta þjóð heimsins og samstarfsþjóð okkar í mörgu skuli í raun leyfa það að þetta gerist. Með endalausri sendingu og gjöfum af nýtísku hertækjum sem hafa náð þvílíkri fullkomnun í útrýmingu. 

 Það er lítið sem maður getur gert hér uppi á eylandi allsnægtanna, gefið nokkra þúsundkalla og mætt á mótmælafundum.  Meðan ungir drengir aldir upp í hátæknihermennsku, miða út markað  eða skóla þar sem vitað er að er nóg af fólki.  Og röksemd herforingja er að andstæðingurinn feli vopn á þessum stað og það er nóg ástæða að drepa nokkur hundruð manns og særa þúsundir. 

 Það er sorglegt að þessi staður í veröldinni sem er upphafsstaður menningar okkar og trúar, skuli vera búinn að hafa þannig áhrif á tilfinningar manns að ef minnst er á Jerúsalem, Dauðahafið, Kapernaum þá kemur óbragð í munninn.

  En lesandi góður við lifum í fjarlægð frá þessum hamförum mannskepnunnar og ræðum oft frekar veðrið. Sólarglæta fær okkur til að gleðjast.  Þótt við vitum að grimmd mannsins geti einhvern tíma komið í allri sinni dýrð til okkar. En á meðan það er ekki þá .....

Sumargleði

yfir öræfin svartur sandur hljómar Bach

framundan Möðrudalur fjöllin í vestrinu undrablá
Herðubreið í  suðrinu tignarblá

fallegt föllum fram tilbiðjum
lífið landið jörðina 

gleðjumst



og mætum á fundinn við bandaríska sendiráðið í dag klukkan 17.00


Myndir: Höfundur úr mótmælum fyrr í mánuðinum