fimmtudagur, 19. maí 2016

Lars Lönnroth , Njála og menningarsaga okkar.


Hvað er menning, hvað gerir okkur að sérstökum verum og hópi?   Hvað hefur gert okkur kleift að lifa á þessari eyju í meira en þúsund ár? Svarið er menning, svarið er eitthvað sem sameinar okkur og hefur gert það mögulegt að tóra;  við eldgos, náttúruhamfarir, við ísöld og kulda.  

Mikið var gaman í Odda, Odda í Háskóla Íslands til að rugla engan í ríminu,  síðdegis, þar hélt einn af nágrönnum okkar snilldarfyrirlestur,  Lars Lönnroth, hann talaði um Njálu, um skrif Einars Ólafs Sveinssonar og þriggja erlendra fræðimanna, frá Þýzkalandi, Bandaríkjum og Bretlandi þar r sem þeir reyna að bregða nýju ljósi á hugmyndir okkar um þetta ótrúlega magnaða bókmenntaverk, eitt af höfuðverkum evrópskrar menningarsögu.


Þar ræddi Lars um þessa sögu sem er bæði einföld og flókin.  Um Njáls fjölskylduna á Bergþórshvoli, Gunnar og Hallgerði á Hlíðarenda, Flosa og Höskuld og Kára og Hallgerði.  Um hefndir, trúarbrögð, ástir og grimm örlög. Allt sem hann sagði byggðist á þekkingu og áratuga rannsóknum. Þar verður menningasaga Evrópu stöðugt meir i fyrirrúmi, Kristin trú og furðuheimur Miðalda.   

Lars hefur skrifað um Íslendingasögur, um Edduljóðin, hann hefur kynnt þessa menningu okkar í heimalandi sínu Svíþjóð, í Bandaríkjum, Bretlandi og Danmörku.  Hann hefur líka skrifað mjög skemmtilega ævisögu, Dörrar till främmande rum. Minnesfragment sem er til í Norræna safninu.  Hann er einnig sérfræðingur í sænskum vísnasöng, Bellmann og Taube.Seinasta grein hans fjallar um  merkilegan kafla í ævi okkar merkasta menningarpostula Sigurðar Nordal.  Sem segir frá kafla í ævi hans sem hefur ekki farið hátt. Hjónabands hans með sænskri konu í byrjun seinustu aldar. 

Í Odda var stofa 101 troðfull, áhuginn fyrir þessum fræðum verður stöðugt meiri.  Miðaldastofnun hefur seinustu 2 árin haft fyrirlestraseríur um Landnámið og Sturlungaöldina. Þar mæta bæði fræðimenn og áhugafólk um þennan fjarlæga tíma. Það er ekki hægt að segja að fræðimenn tali fyrir tómum húsakynnum Háskólans.  Því er sorglegt að forráðamenn þjóðarinnar sýni þessu starfi ótrúlega lítin áhuga.  Handritin okkar eru komin að því að drabbast niður. Engin húsakynni eru til að sýna þessi verk okkar. Vísindamenn okkar tala fyrir lokuðum eyrum ráðherra.  Þetta er ekki ofarlega á lista hjá þeim. Það er dapurlegt og óskiljanlegt. 

Það sem gerir okkur einstök og engum lík er menningin okkar. Þar tókst okkur að varðveita heim og listir miðalda sem engum hefur tekist betur.   Á okkur hvílir ábyrgð og metnaður að sýna heiminum þessi einstöku listaverk. Til þess þurfum við að hlúa að umhverfi þessara hluta.  Það skiptir meira máli en að fela milljarða á Aflandseyjum.