mánudagur, 21. mars 2016

Seðlabankastjórinn og Fjármálaráðherra:Vinir í raun?

Seðlabankastjóri hefur ástæðu til að vera ánægður með eftirlit sitt með efnahagsstöðu okkar í dag.   Margt gengur okkur í haginn.  En samt er oft forgangur sem stjórnvöld velja furðulegur.  Svo má ekki gleyma að þetta byrjaði ekki með þessari ríkisstjórn heldur með óvinsælum aðgerðum vinstri stjórnarinnar sem hún varð að gjalda fyrir í kosningum, niðurskurður sem varð til þess að flýta fyrir efnahagslegum bata.  Sem hægri stjórnin hrósar sér af í dag:

Þegar við komum nú saman til 55. ársfundar Seðlabanka Íslands er staða þjóðarbúskaparins að mörgu leyti góð. Það er fyrsti ársfjórðungur ársins 2016 og hagvaxtarskeiðið hefur varað frá öðrum ársfjórðungi ársins 2010 eða í sex ár. Ætla má að landsframleiðslan í þessum ársfjórðungi sé orðin ríflega 4% meiri en hún varð mest fyrir kreppuna. Slaki hefur snúist í spennu og við búum við fulla atvinnu, og kannski gott betur. Öfugt við mörg fyrri tímabil fullrar atvinnu er bæði ytra og innra jafnvægi þjóðarbúskaparins enn þokkalegt.

Seðlabankastjóri og fjármálaráðherra virðast starfa vel saman þótt sá síðarnefndi hafi reynt að losa sig við Seðlabankastjórann, þótt hann hafi ekki getað það vegna þeirrar virðingar sem Már nýtur á alþjóðavettvangi Fjármálaheimsins. Það er því skrítið að ríkisstjórnin nýti sér ekki þessa góðu skuldastöðu til þess að setja kraftinn í Heilbrigðiskerfið að koma upp Ríkisspítala á góðum hraða (ég minnist nú ekki á broðhlaup Forsætisráðherra suður í Garðabæ).  Í leiðinni væri ekki amalegt að setja arðgreiðsluskatt á ofurgróða banka og fyrirtækja. Og forystumaður ferðamála var svo góður að gefa til kynna að það kæmi til greina að Ferðaþjónustan borgaði smáskatt!!!!   

Á síðustu misserum hafa orðið mikil umskipti varðandi hreinar erlendar skuldir íslensku þjóðarinnar. Nýlega voru birtar fréttir af því að þær hefðu verið 14½% af landsframleiðslu í lok síðasta árs og að fara þurfi aftur til síldaráranna á sjöunda áratug síðustu aldar til að finna dæmi um sambærilega skuldastöðu.

En Seðlabankastjóri varar okkur líka við mistökum sem við höfum of oft lent í þegar pólitískir ofurgossar sjá næstu kosningar nálgast.  En Seðlabankinn hefur nú líka gert sín mistök það er skrítið hversi stýrivextir þurfi endalaust að vera í hæstu hæðum.  Það þurfa allir að hugsa sinn gang. Lífið er ekki einfalt og hroki og heimska eru oft stutt undan.  Svo það er gott að huga að því að við getum öll lært hvert af öðru.  Eða hvað? 

Við höfum að undanförnu notið góðs af alþjóðlegri þróun en ekki er víst hversu lengi það verður og hún gæti snúist okkur öndverð. Þá sýnir sagan að okkur hættir til að gera mistök í hagstjórn í uppsveiflum og túlka tímabundna búhnykki sem varanlega. Ef sú saga endurtekur sig gæti innlend eftirspurn og verðbólga risið hærra en hér er gert ráð fyrir. Við verðum því að vera á varðbergi og vanda okkur við þær ákvarðanir sem framundan eru.