Það er svo að stundum eru listaverk grimm og koma verulega við mann. Jafnvel er hægt að gera það með gríni og ærslum. Þannig er það með leikrit Braga Ólafssonar, Maður að mínu skapi. Það er erfitt að standa frammi fyrir því að fólk hegði sér ekki eins og maður vill, við óskum þess að fólk sé gott innan gæsalappa. Noti ekki gáfur sínar, völd og auð til að misnota aðra. Í þessu verki er því þannig hagað, misnotkun er aðalþema þessa leikrits. Manni verður oft hálfómótt yfir því hversu langt það getur gengið. Sá ríki og sá sem hefur valdið treður á öðrum. Ég held að áhorfendur í Þjóðleikhúsinu eiga erfitt að horfast í augu við það. Því hafa móttökurnar verið misjafnar.
Þetta verk er í anda fyrri verka Braga, bæði skáldsagna og leikrita. En hér bregður hann meira á leik í ýmsar áttir, þetta er stofuleikur eins og við höfum séð mikið af í gegnum árin úr breskum leikritaheimi, svo verður heimurinn á sviðinu absúrd, við fáum ekki að gleyma því að við erum í leikhúsi, og við okkur blasir grátt gaman. Sem umbreytist í ærsli og loks ......... ?
Gagnrýnt hefur verið að stældar séu lifandi persónur, úr Háskólaheiminum og stjórnmálalífi. Auðvitað sér maður líkindi en þannig er það nú, skáldskapur er ekki svo langt frá veruleikanum. Og það særir okkur. Sérstaklega þegar hann er svo listilega á svið settur.
Leikhústöfrarnir skína út frá leikurunum, Ólafía Hrönn leikur Berthu, brussa og alþýðustúlka, sem er kannski ekki öll sem hún er séð. Minnir á stúlkurnar hjá Laxness. Dóróthea, saklaus yfirstéttarkona, sem á góðar senur eins og þegar hún tekur dansspor á sviðinu, hún minnir okkur á að konur hátt á áttræðisaldri geta verið kynþokkafullar!!!! Kristbjörg Kjeld er enn í fullu fjöri. Ungi maðurinn sem er leikinn af Þorleifi Einarssyni, er leiksoppur valdamannanna en reynir að bíta frá sér, en á auðvitað ekki roð í stórbokkana þegar upp er staðið. En hann sér heiminn í öðru ljósi eftir þessa atburðarás. Bróðir Berthu, Agnar, sem Þorsteinn Bachmann gerir góð skil, sem hefur alla ævi orðið að fylgjast með þeim sem valdið hafa, í skóla og í starfi sem lögfræðingur. Auðvitað verður hann líka fórnarlamb enn einu sinni.
Svo eru það stórauðmennirnir, borgarastéttin holdi klædd. Sem hafa alltaf komist áfram í sínum heimi. Þótt ólíkir séu.
Lífsnautnamaðurinn Guðgeir, enn ein furðupersóna í höndum Eggerts Þorleifssonar, sem getur alltaf hagrætt og stjórnað öllu í sínu umhverfi þar sem allt er svo fullkomið, alltaf óaðfinnanlegur, vel klæddur, drekkur bara það bezta, reynir að útbreiða rauðu sloppatískuna, en bak við þetta mjúka yfirborð er skrímsli sem fyrirlítur þá sem minna mega sín og kann á þetta fyrirbæri sem einkenni svo þessa sýningu það er MISNOTKUN.
Seinastur en ekki síztur er Klemens, sem hefur komist allra sinna leiða með frekju og yfirgangi, hann svífst einskis til að fullnægja löstum og hvötum sínum. Sjaldan hef ég séð ógeðslegri persónu á sviði. Pálmi Gestsson er alltaf að verða betri og betri, hann er ekki beint meðmæli með áfengisdrykkju í þetta sinn, þvílíkur tuddi!!!
Ég fór í Þjóðleikhúsið á föstudagskvöldið með óróa í huga eftir að hafa lesið frekar dræmar útleggingar sérfræðinga leikhúslífsins. En mér þótti allar efasemdir feykjast í burtu. Mér finnst Bragi hafa bætt við sig einni „rós í hnappagatið", sem passar svo sem vel við yfirborð þessarar sýningar. En við upplifum óréttlæti þjóðfélagsins sem við lifum í þar sem þeir sem eiga auð og völd geta traðkað á smælingjunum. Þótt þeir hafi spilað illa úr spilunum sem þeir hafa á hendi fá þeir alltaf alslemmu, allt kerfið byggist upp á því. Við höfum séð það seinustu árin. Við tökum við pústrunum með bros á vör. Eða hvað??