sunnudagur, 28. júlí 2013

Reykholtshátíð: Glíman við svitann og fleiri sögur

Ég heimsótti Reykholtshátíð í gær og í dag (sunnudag).  Það er ótrúlegt hversu víða tónlistar- og menningarhátíðir blómstra. Þar sem ekki sést vín á nokkrum manni.  Þar sem hágæðaflutningur er boðinn fólki sem vill koma og njóta góðra lista,veðurblíðu (oftast), náttúru og félagsskapar.   Auðvitað er þessari starfsemi haldið uppi með styrkjum frá ríki, sveitarfélögum og ýmsum stofnunum, sumir eru ekki hrifnir af því, en mikið væri lífið fátæklegt án slíkra styrkja.

Í gær var söngur síðdegis, Gissur tenór, söng íslensk lög og ítölsk lög af miklum glæsibrag.  Nokkur íslensku laganna voru í nýrri útsetningu Þórðar Magnússonar, hins ástsæla tónskálds.  Húsfyllir var og flutningnum afar vel tekið.  Það er svo gaman að koma á hátíðir sem þessar, maðir hittir gamla kunningja úr Borgarfirðinum (ég bjó í Borgarnesi í áratug),  svo er alltaf slangur af kunningjum úr Reykjavík sem eru í sumarhúsum eða gera sér ferð úr höfuðborginni. Og auðvitað heimafólk sem kann að njóta góðrar tónlistar.  Og yfir öllu vakir staðarpresturinn og hans frú.

Um kvöldið var síðan kammermúsík af bestu gerð,  Britten, einstaklega áhrifamikið verk fyrir lágfiðlu og píanó, , Lacrimae, sem Ásdís Valdimarsdóttir og Steinunn Birna Ragnarsdóttir fluttu af snilld, svo var Fiðlusónata númer 1 eftir Beethoven í flutningi Helgu Þóru Björgvinsdóttur og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. 

Hléð var langt enda var 25 stiga hiti klukkan hálftíu um kvöldið og fólk hafði margt að spjalla í blíðviðrinu á þessum  heitasta degi sumarsins í þessari sveit.  Svo var rúsínan í pylsuendanum,  Goldberg-tilbrigði Bachs útsett fyrir tríó, það voru þau Ari, Ásdís og Sigurgeir sem fluttu  verkið af snilld.  En mikið þurftu þau að hafa fyrir því þennan dag, svo var orðið heitt í kirkjunni að svitinn lak af flytjendunum þremur, aldrei hef ég séð tónlistarflutning þar sem flytjendur þurftu virkilega að vinna fyrir kaupinu sínu eins og í þetta  sinn !!!!!

Við misstum af fyrstu tónleikunum fyrsta kvöldið, þar var breskur kór og organisti ansi góðir að sögn þeirra sem mættu en seinustu tónleikarnir á síðdegis á  sunnudeginum voru dásamlegir, Jón Nordal, strengjakvartett Frá draumi til draums, óperuaríur Verdis í flutningi Gissurar Páls og loks hinn frábæri píanókvartett Brahms í g-moll, ópus 25.  Þrumur rumdu og drundu meðan á flutningnum stóð en ekkert stöðvaði þetta einvalalið hljóðfæraleikara. Við fórum ánægð heim í Húsafell þar sem veislumatur beið okkar. Lífið er ekki svo ömurlegt eða hvað?  Við eigum örugglega eftir að koma oftar ef við lifum.