föstudagur, 30. maí 2014

Latibær hverfur úrlandi og sveitirnar tæmast..

Það er sorglegt að missa jafnstórt fyrirtæki og Latabæ úr landi.  En svona er fyrirtækjarekstur, fyrirtækin seld erlendum samsteypum og þá er það þeirra að ákveða stað fyrir starfsemina.  Ég minni í þessu sambandi á deCode sem auðvitað er þrælútlent fyrirtæki þótt talað sé um annað hérlendis.  

Latibær er um leið dæmi um hvað hugmyndaríkir einstaklingar geta komið til leiðar, og Magnús Scheving er ansi lunkinn í því, það var gaman og líf í tuskunum þegar hann kom að Húnavöllum og fékk nemendurna hvern einasta að taka með sér heilsuhreyfingrprógram.  Hann vissi hvað hann var að gera í samskiptum við ungt fólk.  

En það er sorglegt að sjá tugi ef ekki hundruðir tæknimanna missa vinnuna sína.  Eflaust fara einhverjir með til útlanda og við getum misst þá fyrir fullt og allt.  Þarna eru gríðarlega útsjónarsamir tæknimenn eins og þættirnir bera vott um.  Svona er alþjóðaheimur tæknivinnu, fólk leitar þangað sem vinnan er.  Þetta sjáum við í öðrum atvinnugreinum, nú seinast í fiskiðnaðinum hjá okkur.  Spurningin um að flytja heilt þorp með störfunum. 

Við höfum séð svona kraftaverk eins og Latabæ líka gerast í tölvuiðnaðinum.  Seinast Quizup, sem er bráðskemmtilegur spurningaleikur fyrir fólk á öllum aldri.  Ég skora á eldra fólk sem á Ipad að prófa leikinn!!!   Maður er aldrei of ungur til að leika sér!!!.  

Við eigum eflaust eftir að sjá fleiri svona listskemmtiþætti og iðnað á Íslandi.  En maður verður samt sorgbitinn yfir hverfulleika atvinnulífsins.  Þar sem rótleysi og farandvinna eru einkennin.  Ég sé æ oftar íslensk nöfn birtast í tæknigerðarlistum á sjónvarps- og kvikmyndastörfum í lok myndanna.  

Já lesandi góður:  Skáldið sagði

Reikult er rótlaust þangið,
rekst það um víðan sjá.
Straumar og votir vindar
velkja því til og frá.

Fuglar flugu yfir hafið

 með fögnuði og vængjagný,
- hurfu út í himinblámann
hratt eins og vindlétt ský.

Þangið, sem horfði á hópinn,
var hnipið allan þann dag.
Bylgjan, sem bar það uppi,
var blóðug um sólarlag.



                                                       

 Mikið er þetta fallegt ljóð.  Vonandi fáum við ekki endalausa tóma bæi, hverfi og þorp í framtíðinni.  Vonandi koma fram hugmyndir og hugmyndafræðingar sem bjóða fólki upp á eitthvað annað.  En það eru ekki bara útlendingar sem tæma sveitirnar af fólki við bústörf.  Það eru líka íslenskir auðmenn og yfirstétt.  Ég var í Fljótshlíðinni seinustu helgi þar var mér sagt að hefðu verið 64 mjólkurbú fyrir 50 árum nú eru þau 4.  Það eru ríkir Reykvíkingar sem hreiðra um sig á jörðum sveitarinnar.  Í héraði sem gæti verið eitt af ríkustu mjólkurframleiðsluhéruðum landsins.  

Einhvers staðar handan við hafið eru landar okkar hnípnir,  það er eitthvað til sem heitir ættjarðarást.  Það er til söknuður sem nær að innstu hjartarótum.  Það eru margir sem vildu vera annars staðar.  Íslendingar í útlöndum og nýbúar á Íslandi.  Þannig er heimurinn í dag. 

Ég óska svo lesendum mínum góðrar kosningahelgar.  Og umfram allt kjósið rétt.  

Í október síðastliðnum lauk tökum á seinni þáttaröðinni og hvarf þá meirihluti þeirra 160 verktaka sem störfuðu við framleiðsluna til annarra verkefna en 40 unnu við eftirvinnsluna og luku störfum í apríl síðastliðnum. Hér á landi verður 20 ára afmælissýning Latabæjar í Þjóðleikhúsinu en hátt í 70 manns munu starfa að uppsetningunni.